Valborg Ólafsdóttir er ung og efnileg tónlistarkona sem var að gefa út sína fyrstu plötu sem nefnist einfaldlega Valborg Ólafs.
Þó að þetta sé fyrsta plata Valborgar þá er hún samt kunnug íslensku tónlistarlífi og hefur komið víða við. Valborg var í hljómsveitinni The Lovely Lion og tók hún einnig þátt í The Voice sem vakti mikla athygli.
Nýja plata Valborgar einkennist af grípandi melódíum, fallegum söng og einlægum textum sem samtvinnast í einkennandi hljóðheim. Hægt er að hlusta á plötuna á Spotify.
Platan er tekin upp í Stúdíó Hljóðverk af Einari Vilberg sem einnig mixaði og masteraði plötuna. Lög og textar eru samin af Valborgu sem sér einnig um söng og spilar á gítar. Aðrir hljóðfæraleikarar á plötunni eru Árni Guðjónsson, Orri Guðmundsson og Baldvin Freyr Þorsteinsson.
Valborg og hljómsveit tóku sig til í febrúar og gerðu þrjú myndbönd með lögum sem eru á plötunni. Þessi myndbönd eru framleidd af Blindspot og verða öll aðgengileg á Youtube á næstu misserum. Eitt þessara laga, Golden Sky, er nú þegar komið þar inn.
Nú æfir hljómsveitin fyrir fyrsta útgáfuteitið sem haldið verður á Midgard á Hvolsvelli 18. apríl. Þar verður platan öll flutt sem og nýtt efni. Einnig verður platan til sölu þar á vínyl og geisladisk.
Miðasala á viðburðinn er hafin á tix.is.