Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Fékk upp í kok á kjaftæðinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frá barnsaldri kom ekki annað til greina hjá Steinunni Camillu Stones en að verða forseti, norn eða listakona. „Mér var bent á að ég gæti ekki orðið forseti fyrr en ég væri orðin 35 ára þannig að ég gaf það upp á bátinn, ég dunda mér við að vera norn í hjáverkum og sem betur fer sat ég því uppi með listina,“ segir hún og brosir.

 

Steinunn segir að tónlist hafi alltaf verið hluti af hennar lífi. „Ég kemst ekki af nema ég sé í einhverju tengdu tónlist og listum. Ég var í dansi í 13-14 ár þar sem ég var umkringd tónlist allan daginn, ég lærði klassískan söng og á gítar og var sjúk í ljóð og góðar bækur og enn skrifa ég mig frá aðstæðum sem ég er ekki sátt við.“ Hún segir að á mentaskólaárunum hafi nánast ekkert annað komið til greina en að fá að syngja uppi á sviði og hverfa inn í tónlistarheiminn.

„Ég tók þátt í öllu. Fór í Idol skjálfandi á beinunum, var í nemendafélaginu í Verzló, söng í söngvakeppnum og fór í hin og þessi „show“. Ég vildi bara vera í tónlist og ég reyndi að koma mér á framfæri og verða betri.“

Einn dag segist hún svo hafa rekið augun í auglýsingu í Verzló þar sem verið var að boða í prufur fyrir sumarstarf í tónlist. Prufan reyndist vera upphafið að hljómsveitinni Nylon. „Þetta varð lengsta sumarstarf sem ég hef unnið við,“ segir hún hlæjandi.

Fékk nóg af kjaftæðinu

Nylon varð strax vinsæl á Íslandi og í kjölfarið hófst útrás. Sveitin fór í tónleikaferðalag 2006 um Bretland með þremur mismunandi hljómsveitum og kom fram á Wembley Arena sjö sinnum. Um mitt ár 2007 urðu hins vegar breytingar á bandinu þegar meðlimum fækkaði niður í  þrjá.

- Auglýsing -

„Við Alma og Klara breyttum um stefnu, vildum meira og lögðumst á eitt að gera eðalpopptónlist með frábæru fólki og unnum hart að því að koma okkur áfram erlendis. Við fórnuðum öllu. Það var bara heimsyfirráð eða dauði. Svo lönduðum við plötusamningi við Hollywood Records eftir röð tilviljana og mikla vinnu, eftir að hafa fengið smávegis ógeð á Íslandi og að okkar mati neikvæðni gagnvart popptónlist, gagnrýni á okkur, DV-kommentakerfinu og bara eftir að hafa fengið upp í kok á kjaftæðinu. Við vildum bara gera tónlist.“

„Við fórnuðum öllu. Það var bara heimsyfirráð eða dauði.“

Eftir endalok Nylon fluttu stelpurnar til Los Angeles árið 2010 og þar varð hljómsveitin The Charlies til. Steinunn segir að sá tími hafi meðal annars verið áhugaverður, erfiður, lærdómsríkur og mótandi, en smám saman hafi hugur þeirra farið að leita annað. The Charlies var lögð niður og stúlkurnar héldu á vit nýrra ævintýra. Alma og Klara búa enn í Los Angeles þar sem þær starfa við lagasmíðar en Steinunn söðlaði um og opnaði, ásamt Soffíu Kristínu Jónsdóttur, umboðsskrifstofuna Iceland Sync árið 2014. Í dag vinna þær með Svölu Björgvinsdóttur, Auðunni Lútherssyni (AUÐUR), Andra Fannari (AFK13) og fleirum.

Spurð út í starfið segir Steinunn að frá því að hún var krakki hafi hún verið furðulegur skipulagsperri í bland við listamanneskju. „Áður en ég fór út í þetta bentu margir mér á að ég ætti nú „bara“ að vera umboðsmaður, sjá um viðskiptahliðina og koma öðrum áfram. Mér fannst það fáránlegt og skildi ekkert hvað fólk var að rugla. Fannst ég vera að bregðast söngkonudraumum mínum þótt þetta væri í raun fyrir löngu farið að toga í mig.“ Það hafi þó auðveldað henni að breyta um stefnu þegar hún fór að búa til skartgripi 2012 og setti saman skartgripalínuna CarmaCamilla.

- Auglýsing -

Steinunn segir starf umboðsmanns ganga út á að koma listamönnum áfram og oft sé þetta eins og að vera sálfræðingur, lögfræðingur, þjónn, bankastjóri, foreldri, reddari, bílstjóri, ritari, rótari og fleira. Blanda sem geri að verkum að stundum viti hún varla hvað hún starfi við en það geri þetta spennandi. Óneitanlega sé vinnan þó stressandi líka.

„Þannig að ég passa mig að vinna í núvitundarverkefnum, til dæmis að CarmaCamilla 2.0 sem ég get dundað mér við í friði. Jafnvægi er lykillinn að þessu öllu. Ég trúi því svo heitt að ég er með það húðflúrað á höndina á mér. Án gríns,“ segir hún og hlær.

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Brynjar Snær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -