Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

„Hér á ég heima og heima er best“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson var að senda frá sér nýtt lag, Stories To Tell. Þetta er sveitarokk og segir Krummi að hann hafi ætíð verið mikill unnandi sveitatónlistar, rokks og blús af gamla skólanum.

„Sú tónlist hefur alltaf verið mín hjartans bæn,“ segir hann. „Allt mitt plötusafn er mestmegnis vínilplötur frá 40´s og 70´s. Þetta var tónlistin sem ég ólst upp við á mínu heimili í bland við hipparokk. Tónlist frá Sun Rec, Motown, Chess Rec og það var einnig mikið um Doo Wop-tónlist, sem ég gjörsamlega elska af öllu hjarta. Það var ekki aftur snúið þegar maður heyrði í Elvis og Bítlunum í fyrsta skipti.“

„Þetta er ekkert nýtt fyrir mér, sumt fólk er bara fljótt að gleyma og heldur að maður sé að stíga sín fyrstu spor í þessari tónlistarstefnu.“

Spurður hvort hann sé að færa sig meira út í sveitatónlist, segist hann hafa byrjað að gera kántrískotna kassagítartónlist árið 2001 með Franz Gunnarsyni undir nafninu The Moody Company. „Einnig vil ég nefna hljómsveitina Esju með Daníel Ágústi Haraldssyni sem var starfandi 2007-2009. Þetta er ekkert nýtt fyrir mér, sumt fólk er bara fljótt að gleyma og heldur að maður sé að stíga sín fyrstu spor í þessari tónlistarstefnu,“ útskýrir hann og bætir við að þegar hann setjist niður einn með kassagítarinn þá sé þetta tónlistin sem komi frá honum sjálfum. „Melódíurnar verða að vera byggðar á algjörri einlægni. Hér á ég heima og heima er best.“

Aðspurður segir hann að þungarokkið sé alls ekki komið á hilluna. „Ég elska „heavy“ rokk og þá sérstaklega þungt rokk frá því í gamla daga,“ svarar Krummi en eins og margir vita var hann í þungarokksveitinni Mínus og svo í Legend. „Ég er í hljómsveit sem svalar mínum þorsta fyrir þungt rokk þannig að ég er góður. Krummi og Kórdrengirnir eru svolítið „heavy“.“

„Veganæs heldur mér á jörðinni“
Krummi hefur í nægu að snúast þessa dagana en auk þess að vinna að sinni fyrstu sólóplötu rekur hann ásamt konu sinni veganveitingastaðinn Veganæs. En hvernig er að tvinna þessu öllu saman? „Þetta er mikil vinna og stundum stress en þetta elskar maður að gera. Gerðu það sem gerir þig hamingjusaman. Ég er enn þá að læra að hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusaman. Ég reyni að taka helgarnar í að spila og semja og pæla í tónlist. Veganæs heldur mér á jörðinni og tónlistin fer með mig til himnanna. Gott samstarf.“

„Ég er enn þá að læra að hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusaman.“

Stefnan er svo sett á að gefa út plötuna í vetur eða byrjun næsta árs en þangað til mun hann senda frá sér eitt og eitt lag. „Þetta er singer/songwriter-plata sem kallar fram allan tilfinningaskalann. Ég er reyndar með þriggja hljómplötuplan því ég er búinn að semja heilan helling af lögum og er ekki hættur. Maður verður að taka við gjöfum listagyðjunnar.“

Spurður hvað sé fram undan og hvort planið sé að fara erlendis, svarar hann að svo sé. „Ég er með nokkur járn í eldinum varðandi það. Sjáum hvað setur,“ útskýrir hann hugsandi. „Við Kórdrengirnir ætlum okkur að spila út um allar trissur. Taka túr um landið á næsta ári og ferðast á vit ævintýranna. Segja sögur í tónlistarlegum skilningi,“ útskýrir hann og vill bæta við að hann vilji þakka öllum innilega fyrir þær frábæru viðtökur sem lagið og myndbandið við það hefur fengið. „Verið góð hvert við annað, dýrin og jörðina, það er lykillinn af farsælu lífi fyrir alla jarðarbúa.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Brynjar Snær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -