Dagur nýr heitir nýjasta lag Guðmundar Rafnkells Gíslasonar en það verður á plötu sem hann vinnur að þessa dagana með upptökustjóranum Jóni Ólafssyni og er væntanleg snemma á nýju ári.
„Það fjallar um væntingar okkar til lífsins,“ segir Guðmundur um lagið. „Hver dagur er nýtt upphaf en þeir enda ekki alltaf eins og við vildum. Þetta er örugglega eitt mesta rokklag sem ég hef gert sem er í samræmi við yfirlýstan tilgang okkar Jóns er við hófum vinnu við plötuna. Við vildum gera lifandi hljómsveitarplötu þar sem gítar, bassa og trommum yrði gert hátt undir höfði.“
Guðmundur er þekktastur sem forsöngvari norðfirsku popphljómsveitarinnar Súellen sem átti talsverðum vinsældum að fagna á níunda og tíunda áratug aldarinnar sem leið. Með nýju sólóplötunni fylgir hann eftir plötunni Þúsund ár (2017) sem hann vann einnig með Jóni Ólafssyni og hljómsveitinni Coney Island Babies frá Neskaupstað. Sú plata gekk prýðilega en innihélt hún m.a. lagið Eins og vangalag sem komst inn á vinsældalista Rásar 2. Áður hafði Guðmundur gefið út hljómplötuna Íslensk tónlist (2007) sem var unnin með tónlistarmanninum Haraldi Reynissyni sem lést nýliðið haust, langt fyrir aldur fram.
Lag og texti í Degi nýjum er eftir Guðmund sjálfan. Upptökum stjórnaði fyrrnefndur Jón og Bassi Ólafsson hljóðblandaði. Um undirleik sáu, auk Jóns og Bassa, þeir Stefán Magnússon (gítar), Hafsteinn Már Þórðarson (bassi) og Jón Knútur Ásmundsson (trommur).
Lagið er fáanlegt á Spotify og öllum helstu streymisveitum.