Á morgun, 25. apríl, kemur út þriðja breiðskífa Joey Christ sem heitir Joey 2.
Platan er unnin í samstarfi við Martein Hjartarson, einnig þekktur sem BNGR BOY, og einnig syngur Floni inn á lagið 100p.
Þetta er fyrsta plata Joey Christ í samstarfi við Sony og má þar finna skírskotanir í íslenskan samtíma og poppmenningu auk þess að listamaðurinn leitar meira inn á við en áður.
Smáskífa plötunnar „Jákvæður” kom út á föstudaginn og hefur síðan þá setið á topplistum á Spotify.
Joey Christ er hliðarsjálf Jóhanns Kristófers Stefánssonar en fyrsta lag hans, „Joey Cypher” náði miklum vinsældum.
Á tveimur árum gaf Jóhann út tvær plötur undir nafni Joey Christ, hitaði upp fyrir heimsfrægu rapparana Young Thug og Migos, leikstýrði og gaf út tónlistarmyndbönd, bæði við eigin lög sem og annarra. Auk þess vann Joey Christ til tvennra verðlauna á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2017.