Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Lönduðu samningi við Sony

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tvíeykið Hugar, sem þeir Pétur Jónsson og Bergur Þórisson mynda, hafa heldur betur verið að gera góða hluti hér heima og erlendis eftir að sveitin sendi frá sér sína fyrstu plötu, en hún hefur fengið yfir 50 milljónir spilanir á Spotify. Þeir félagar gerðu nýverið samning við plöturisann Sony í Bandaríkjunum og voru að senda frá sér sína aðra plötu, Vörðu sem er sú fyrsta undir merkjum Sony.

 

„Þegar við vorum eiginlega búnir að klára plötuna fórum við að senda hana á allskonar fólk í kringum okkur sem við höfum kynnst meðal annars í gegnum það að hafa unnið með Björk, Sigur Rós og Ólafi Arnalds. Við fengum strax jákvæð viðbrögð og áhuga á samstarfi úr ýmsum áttum. Okkur leist mjög vel á fólkið hjá Sony og þeirra vinnubrögð þannig að við ákváðum að semja við þau,“ segir Pétur þegar hann er spurður að því hvernig þeim Berg hafi tekist að landa samning við plöturisann Sony.

En hvernig hljómar samningurinn? „Plötunni verður dreift í búðir um allan heim. Hún er einnig markaðssett á stöðum sem við hefðum aldrei getað náð til annars og á meðan höfum við meiri sveigjanleika til að einbeita okkur að því að gera tónlist. Þeir styðja líka við bakið á okkur varðandi tónleikaferðalög sem opnar á þann möguleika að ferðast um allan heim og spila fyrir nýtt fólk á hverjum degi sem er auðvitað bara frábært.“

„Þeir styðja líka við bakið á okkur varðandi tónleikaferðalög sem opnar á þann möguleika að ferðast um allan heim.“

Pétur segir að platan Varða sé búin að vera í vinnslu nánast frá því að sveitin gaf út sína fyrstu plötu 2014 og þar til fyrir ári síðan. „Hún tekur eiginlega við þar sem fyrri platan hættir, er kannski einskonar sjálfstætt framhald af þeirri hugmyndavinnu sem átti sér stað þegar við gerðum þá fyrri. Ástæðan er sú að upphaflega átti þetta að vera ein plata og þess vegna eru þessar tvær plötur hugsaðar sem ein heild,“ útskýrir hann en tekur fram að hljóðheimurinn á Vörðu hafi þó þróast aðeins frá fyrri plötunni. Á meðan sú fyrri flokkist eiginlega sem klassísk tónlist hafi þeir blandað raftónlist saman við tónlistina á seinni plötunni. „Við sjáum fyrir okkur að í framhaldinu förum við enn lengra í þá átt. Það býður nefnilega upp á skemmtilega möguleika á að feta ótroðnar slóðir.“

Þakklátir fyrir tækifærin

Eins og áður sagði hefur tónlist Huga fengið yfir 50 milljónir spilanir á Spotify og er tvíeykið því þegar orðið þekkt erlendis. Spurður út í þessa miklu spilun segir Bergur að vinsældirnar hafi satt að segja komið þeim á óvart. „Þegar við gerðum fyrri plötuna vorum við aðallega bara að reyna skemmta sjálfum okkur og vorum óvissir hvort við ættum nokkuð að vera að gefa þetta út. Á endanum ákváðum við að gefa hana bara ókeypis á Netinu og síðan horfðum við á hana öðlast algjörlega eigið líf og eiginlega trúðum þessu ekki fyrst. Það er auðvitað heiður að vita af öllu þessu fólki sem hlustar á tónlistina okkar og við erum mjög þakklátir fyrir öll tækifærin sem fylgja því.“

- Auglýsing -

Tvíeykið er um þessar mundir á stóru tónleikaferðalagi og hefur meira og minna verið á ferðinni erlendis í allskonar verkefnum síðan sumarið 2018. „Við sjáum eiginlega ekki fyrir endann á því,“ segir Bergur. „Að vera alltaf á flakki er auðvitað ekkert alltaf auðvelt en við erum með frábært fólk í kringum okkur sem styður við bakið á okkur. Svo sakar ekki að okkur finnst skemmtilegt að spila fyrir fólk og við erum stoltir af „showinu“ okkar. Við leggjum gífurlega vinnu í það. Reynum að virkja öll skilningarvit áhorfenda og búa til einhverskonar upplifun frekar en bara venjulega tónleika.“

Verðið þið með einhverja tónleika á Íslandi á næstunni? „Við verðum á Iceland Airwaves í ár, það er auðvitað alltaf gaman að koma heim og spila fyrir sitt,“ segir Pétur og bætir við að sennilega séu þeir töluvert þekktari erlendis en hér heima og því verði líka gaman að spila fyrir fólk sem viti kannski ekki alveg hvað það er að fara að sjá. Eftir Airwaves hyggst tvíeykið svo fara til Parísar að hita upp fyrir Ólaf Arnalds í Parísarfílharmóníunni. „Þetta er alveg ótrúlegur salur og við erum mjög spenntir fyrir því. Í kjölfarið förum við síðan til Asíu í byrjun 2020 að spila í Hong Kong, Japan og víðar.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -