Raftónlistarkonan ÍRiiS sendi nýverið frá sér myndbandsbrot af því sem koma skal á væntanlegri EP-plötu, en myndbandið var tekið upp á tónleikum í Reykjavík af spænsku listakonunni Söra G. Amo.
„Hjóðheimur verkefnisins ÍRiiS hefur verið í stöðugri þróun en nú loks finnst mér ég vera komin að þeim jaðri sem mig langar að búa við,“ útskýrir hún.
„Með tónlistina í forgrunni, skiptir miklu máli að finna sviðsneistann á hverjum einustu tónleikum, svo úr verði eitthvað satt og eitthvað berskjaldað. Þá fyrst getur það orðið áhugavert, að mínu mati, og ég leitast stöðugt við að opna þær víddir.“
EP-platan hennar er væntanleg bráðlega en fram að því mun hún senda frá sér nokkur tónbrot og annað skemmtilegt efni. ÍRiiS mun koma fram á Glastonbury Festival með hljómsveitarsystrum sínum í Grúsku babúsku.
Því næst spilar hún á RVK Fringe, þá halda til Stokkhólms á STOFF-festival sem og á Fringe festival í Gautaborg og mun þá bæði spila sem ÍRiiS og einnig flytja lifandi tónsmíðar við tölvuleik undir sviðsnafninu Iris Thorarins, sem snýr alfarið að almennum tónsmíðum.
Útgáfudagur EP-plötu ÍRiiS-ar verður auglýstur frekar þegar haustar.