Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Óskar þess stundum að vera í þægilegri innivinnu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn og frumkvöðullinn Svavar Pétur Eysteinsson eða Prins Póló hefur alltaf nóg fyrir stafni. Sumar í Havarí er á næsta leiti ásamt tveimur ólíkum safnplötum. Svo er bók í bígerð og nýtt brakandi snakk. Albumm hitti á Svavar og byrjaði á því að spyrja hvernig ferillinn hefði farið af stað.

 

„Við fjölskyldan fluttum austur á Seyðisfjörð árið 2008. Berglind Häsler, konan mín, fór að vinna hjá RÚV og mig langaði til að halda áfram að gera tilraunir með tónlist. Ég var undir miklum áhrifum frá íslensku poppi frá 8. og 9. áratugnum og í raun heltekinn af einhverskonar fortíðarþrá og landsbyggðarfíling. Þannig varð Prinsinn til,“ segir hann en kveðst annars alltaf hafa verið að bauka eitthvað í tónlist.

Af hverju tókstu upp nafnið Prins Póló? „Sko, ég setti upp lítið hljóðver í kjallaranum. Keypti mér hljóðkort, hljóðnema, trommusett og byrjaði að bauka eitthvað í tónlistarforritinu Pro Tools og fyrsta lagið sem ég samdi hét Átján, sem fjallar um ástarsögu sem gerist í fermingarveislu. Þegar ég tók mér hlé fór ég út í sjoppu og keypti Prins Póló og lagamappan fékk það nafn. Hefði ekki getað verið sjoppulegra,“ játar hann og hlær.

Tónleikastaður, bændagisting, matarsmiðja og kaffihús

Eftir tveggja ára dvöl fyrir austan fluttu Svavar og Berglind aftur til Reykjavíkur. Hjálmar, Kimi Records og Streymisveitan Gogoyoko voru þá með hugmynd um að stofna plötubúð í miðbænum og fengu þau með sér í það verkefni.

„Það var samhentur hópur sem réðst í að rigga upp plötubúð í Austurstræti 6, sem fékk nafnið Havarí,“ rifjar Svavar upp. Brátt vatt starfsemin upp á sig því farið að var að sýna myndlist og halda tónleika í búðinni. „Þetta varð því fljótt félagsmiðstöð og dagklúbbur fyrir gesti miðborgarinnar.“

- Auglýsing -
Svavar Pétur Eysteinsson, eða Prins Póló.

Eftir tveggja ára starfsemi missti Havarí húsnæðið sem Svavar rekur til hótelæðisins sem greip um sig miðbænum. Þau fóru því á stúfana að leita að nýju húsnæði í borginni en allt tómt húsnæði virtist vera ætlað undir hótel sem varð til þess að þau fóru að skoða staði utan höfuðborgarinnar.

„Eftir nokkra leit fundum við sveitabæ austur í Berufirði þar sem búskapur hafði lagst af og húsnæðið var við það að drabbast niður. Við seldum því íbúðina okkar í Vesturbænum og keyptum bæinn og fórum strax í að koma honum í lag.“ Nú er þar rekin matarsmiðja, bændagisting, kaffihús og tónleikastaður auk þess sem þau rækta grænmeti undir lífrænni vottun. „Fyrir utan að við tökum á móti hópum í skemmtiferðir og ráðstefnur.“

Opið og skemmtilegt samfélag fyrir austan

- Auglýsing -

Svavar segir að alltaf séu einhverjir sem spyrji hvað svona miðbæjarrottur og furðufuglar séu að vilja upp á dekk í rótgróinni sveit þar sem meginuppistaðan er sauðfjárrækt og fiskvinnsla en flestir hafi tekið þeim opnum örmum.

„Samfélagið fyrir austan er opið og skemmtilegt. Svo er stefna sveitarfélagsins að styðja við sprotastarfsemi og treysta stoðir staðbundinnar framleiðslu þannig að við höfum átt gott samstarf,“ lýsir hann, en segir að þau hafa einnig rekist á veggi. „Til dæmis er flutningskerfi rafmagnsins löngu úrelt sem er hamlandi fyrir alla atvinnuuppbyggingu. Svo hefur mikill tími farið í allskonar tilrauna- og þróunarstarf hjá okkur og þar hefur sumt gengið betur en annað eins og við er að búast.“

„Ég er sjálfur frekar kaótískur og oftast finnst mér bara best að vaða áfram í gegnum daginn og vona það besta.“

Spurður hvernig þau komist eiginlega yfir þetta allt, segir Svavar mikilvægt að vera skipulagður. „Ég er sjálfur frekar kaótískur og oftast finnst mér bara best að vaða áfram í gegnum daginn og vona það besta. En þetta er fjölskyldufyrirtæki með skýrri verkaskiptingu og við höfum verið heppin með starfsfólk.“ Hann játar að það komi þó dagar þar sem hann óskar þess að vera í einfaldri og þægilegri innivinnu með reglulegum vinnutíma.

En hvað er annars fram undan? „Sumar í Havarí, viðburðadagskráin sem hefst 15. júní, en hún byrjar með Hjálmum og svo rekur hver snillingurinn annan. Mr. Silla og Jae Tyler, Kabarettsýningin Búkalú um lönd og lendar, Geirfuglarnir, FM Belfast og fleiri. Kaffihúsið verður opið frá morgni til kvölds og svo verður eflaust hellingur af óvæntum uppákomum.“ Sjálfur er hann að fara að gefa út tvær ólíkar safnplötur með nýjum upptökum og bók sem spannar ferilinn, í tilefni af 10 ára afmæli Prinsins. „Vonandi hefur maður síðan smátíma til að tyggja nokkur strá og njóta sumarblíðunnar með fjölskyldu og vinum fyrir austan.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Brynjar Snær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -