Mánudagur 28. október, 2024
4.4 C
Reykjavik

Rolling Stones gekk á eftir Kaleo

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óhætt er að segja að Kaleo hafi í nógu að snúast um þessar mundir, því sveitin var á tónleikaferðalagi með Rolling Stones og vinnur nú að nýrri plötu. Albumm náði tali af Jökli Júlíussyni, söngvara sveitarinnar, og spurði út í plötuna og tónleikaferðalagið.

 

„Mick var búinn að ganga á eftir því að fá okkur til að opna tónleikana en ég hafði neitað nokkrum sinnum, því það er heilmikill pakki og umstang í kringum hverja tónleika og ég var að reyna að vinna að nýju plötunni, hafði einangrað mig í stúdíói að mestu leyti síðasta árið til að gera það. En þegar hann hafði samband í fjórða skiptið gaf ég eftir og samþykkti að spila á tvennum tónleikum,“ svarar Jökull, þegar hann er spurður að því hvernig það hafi komið til að Kaleo kom fram á tónleikum stórhljómsveitarinnar Rolling Stones. „Við spiluðum með þeim í Evrópu fyrir tæpum tveimur árum og það var gaman að fá líka tækifæri til að gera það í Bandaríkjunum.“

„En þegar hann hafði samband í fjórða skiptið gaf ég eftir og samþykkti að spila á tvennum tónleikum.“

Hljómsveitin Kaleo er nýkomin heim úr tónleikaferðalagi með Rolling Stones. „Þeir eru bara í mjög flottu formi miðað við aldur og fyrri störf,“ segir Jökull, hér með Keith Richards.

Spurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart á ferðalaginu með Stones eða baksviðs svarar hann því til að hann geti takmarkað tjáð sig um það. „Þeir eru bara í mjög flottu formi miðað við aldur og fyrri störf og það kæmi mér ekki á óvart ef þeir héldu eitthvað áfram að túra. Þeir eru með eitt besta teymi í heiminum á bakvið sig og eru auðvitað búnir að gera þetta í um það bil 50 ár og eru því öllu vanir.“

Ertu sjálfur mikill Stones-aðdáandi? „Ég er nú meiri Bítlamaður,“ játar hann. „En Stones eru auðvitað ódauðlegir og búnir að festa sig í sessi sem ein stærsta rokkhljómsveit allra tíma. Það eru bara forréttindi að fá að taka þátt í þessu með þeim og skemmtilegt að sjá hvað þeir hafa gaman af þessu enn í dag.“

Myndir / Jimmy Fisco

Eins og fyrr segir er Kaleo með nýja plötu í vinnslu og er hún væntanleg á næsta ári en sveitin ætlar að senda frá sér fyrstu smáskífuna af plötunni snemma árs 2020.

„Ég hef tekið mér góðan tíma í gerð þessarar plötu og unnið með alveg frábæru fólki í Nashville, Los Angeles og New York síðasta árið. Hef reynt að finna rétt „sound“ fyrir hvert og eitt lag. Þau eru mjög frábrugðin hvert öðru og ef ég ætti að lýsa þessari nýju plötu með einu orði þá myndi ég segja að hún væri dýnamísk,“ segir Jökull og bætir við að hann verði á flakki í Bandríkjunum næstu mánuði til að klára hana. „Þannig að vonandi næ ég að halda jól og áramót á Íslandi með fjölskyldunni og vinunum.“

- Auglýsing -
Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo. Ný plata frá sveitinni er væntanleg á næsta ári en fyrri plata sveitarinnar, A/B, hlaut lof gagnrýnenda um allan heim.

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Myndir / Jimmy Fisco

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -