Sunnudagur 19. janúar, 2025
2.7 C
Reykjavik

Þórunn Antonía segir skilið við fortíðardrauga

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórunn Antonía og Agnar Friðbertsson hafa sent frá sér nýtt lag, Flugdreka, þar sem söngkonan er á persónulegum nótum. Fram undan eru síðan ýmis spennandi verkefni, þar á meðal samstarf við erlendan framleiðanda sem er stórt nafn í tónlistarbransanum úti í heimi.

„Þetta lag er í raun bæði persónulegt og ljóðrænt. Það fjallar um það að segja skilið við fortíðardrauga og gamlar hömlur og ganga í burtu frá öllu sem er ekki gott fyrir mann hvort sem það er samband, ofbeldi eða eitruð samskipti,“ segir Þórunn Antonía um nýja lagið, sem hún samdi ásamt Agnari Friðbertssyni, eða Agga Friðberts, eins og hann er gjarnan kallaður.

Spurð út í samstarfið segist Þórunn einfaldalega hafa rekist á Agnar á Facebook. „Okkar samstarf kom þannig til að ég óskaði eftir samstarfsfólki í hljóðheimi á síðunni Hljóðnördar án landamæra. Þannig fann ég Agga,“ segir Þórunn glöð og bætir við að þau hafi samið ýmis lög saman síðan og séu góðir vinir.

Umslagið vekur athygli blaðamanns. Hvernig varð það til? „Þegar ég var að fara að senda Agga lagið til að setja inn á Spotify rann upp fyrir mér að ég átti engar myndir til að nota. Ég var hins vegar með mynd í kollinum af konu á vegi með 30 kílómetra hraðahindrun, með vísan í það að ég hef heyrt konur tala um að það sé einhvers konar síðasti söludagsstimpill á konum í tónlistarbransanum. Þær megi ekki gera hitt eða þetta eftir að þær ná ákveðnum aldri, sem er bara bull,“ segir Þórunn ákveðin.

„Ég hef heyrt konur tala um að það sé einhvers konar síðasti söludagsstimpill á konum í tónlistarbransanum … sem er bara bull.“

Hún ákvað að fá vinkonu sína, Ernu Kristínu Stefánsdóttur, sem heldur úti miðlinum Ernulandi, til að útfæra hugmyndina með því að taka myndir af sér í Hveragerði. Myndirnar voru svo sendar í eftirvinnslu til Brantley Guiterez, sem myndar töluvert fyrir stór tískutímarit og hefur leikstýrt tónlistarmyndböndum meðal annars fyrir tónlistarmanninn Diplo og hljómsveitina Arcade Fire. Guiterez er vinur Þórunnar til margra ára og samstarfsfélagi í tónlist en þau gáfu út nokkur lög í fyrra.

Spennandi verkefni fram undan

- Auglýsing -

Auðheyrilegt er að Þórunn hefur í nógu að snúast því fyrir utan að ætla að fylgja nýja laginu eftir eru ýmis spennandi verkefni á teikniborðinu. „Ég er til dæmis að vinna eitt lag með Mike Hedges, frægum pródúser, sem hefur unnið mikið með The Cure, Dido og U2. Hann pródúseraði nokkur lög á plötunni minni Dialouge sem kom út árið 2003 hjá útgáfurisanum BMG, þar sem ég söng dúett með Wayne Murray. Leiðir okkar Mike lágu svo aftur saman núna í COVID-19 faraldrinum. Hann varð svo snortinn þegar hann sá hvað ég var dugleg að deila á samfélagsmiðlum myndum sem fanga hversdagsleg augnablik úr lífi mínu sem móður að hann hafði samband og vildi semja nýja tónlist með mér og nota það sem útgangspunkt, sem mér finnst frábært,“ segir Þórunn og brosir.

Og þar með er ekki öll sagan sögð, því fleiri erlendir lagahöfundar og pródúserar hafa sóst eftir samstarfi við Þórunni. Með annars vegna þess hversu auðvelt hún virðist eiga með að semja grípandi laglínur. „Eflaust er þetta hæfileiki sem ég hef erft frá pabba mínum,“ segir hún glaðlega, en fyrir þá sem ekki vita er Þórunn Antonía dóttir lagahöfundarins landsþekkta Magnúsar Þórs Sigmundssonar sem eftir liggja mörg af ástsælustu lögum þjóðarinnar.

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Erna Kristín Stefánsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -