Mánudagur 13. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Tók upp í herberginu sínu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarkonan Matthildur gaf út sína fyrstu stuttskífu, My Own, á dögunum. Lögin á plötunni eru sjö talsins og eru öll samin af henni sjálfri, en í flestum tilvikum eru þau tekin upp inni í herbergi hjá henni. Matthildur nálgast tónsmíðarnar eins og dagbók.

 

„Það hefur eiginlega alltaf verið þannig að ég prófa mig áfram í því sem ég hef áhuga á, ég er svolítill grúskari í mér. Um leið og ég fékk mína fyrstu tölvu fór ég til dæmis að prófa mig áfram í forritum sem tengdust tónlist eða annarri listsköpun. Það varð til þess að ég fór að nálgast tónlistina mína eins og eins konar dagbók eða skissubók, þar sem ég prófa eitthvað á hverjum degi og sé hvert það leiðir mig,“ útskýrir Matthildur, spurð um vinnuferlið. Hún semur, flytur, tekur upp og hljóðblandar sjálf öll lögin á plötunni.

„Vinnuferlið byrjar oftast fyrir framan píanóið heima. Ég finn einhverja hljóma og máta saman mögulega laglínu og texta. Svo fer ég með þetta í tölvuna og vinn með grunninn sem varð til við píanóið.“ Hún segist fá hugmyndir á öllum tímum sólarhrings. „Oftast vinn ég tónlistina mína inni í herbergi og fer síðan í bíltúr og hlusta á hana nokkrum sinnum. Það getur verið algjört lykilatriði að skipta um umhverfi í smástund.“

Frábært að vinna með Auði

Matthildur kom fyrst fram opinberlega á Iceland Airwaves 2018 og vakti þar athygli fyrir söng og flutning. Í fyrra vann hún líka með vini sínum, tónlistarmanninum Auði, sem hún kynntist í gegnum tónlistina en þau syngja saman lagið Jákvæður á plötu hans Afsakanir, sem hefur fengið frábæra dóma. „Lagið er um að taka einn dag í einu og horfa fram á við með bjartsýnisaugum,“ segir hún um lagið. „Við hittumst í stúdíóinu hjá honum í 101derland og vorum allt í einu komin með grunn að því,“ segir hún og bætir við að hún sé þakklát fyrir að vera hluti af plötunni og fyrir að fá að vera í kringum svona yndislegt tónlistarfólk.

Hún segir að það hafi sömuleiðis verið frábær upplifun að koma fram í annað sinn á Airwaves, en þar tróð hún upp í ár ásamt þeim Bergi Einari, Magnúsi Jóhanni og Pétri Jónssyni. „Það var strax ákveðið að við myndum flytja tónlistina alla „live“ og ná þannig að skapa nánd við tónlistargesti og það heppnaðist vel.“

„Um leið og ég fékk mína fyrstu tölvu fór ég til dæmis að prófa mig áfram í forritum sem tengdust tónlist eða annarri listsköpun. Það varð til þess að ég fór að nálgast tónlistina mína eins og eins konar dagbók eða skissubók.“

- Auglýsing -

Breiðskífa væntanleg á næsta ári

Spurð hvort hún aðhyllist einhverja tiltekna tónlistarstefnu í sinni listsköpun segist hún sækja innblástur úr ýmsum áttum. „Ég hlusta mest á „RnB“, „soul“ og popp, það má kannski segja að þetta sé blanda af því,“ segir hún og getur þess að hún líti mikið upp til tónlistarfólks eins og James Blake, Kehlani og Emiliönu Torrini.

En hvað er fram undan? „Fyrsta breiðskífan kemur út á næsta ári. Þetta verður góð blanda af glænýju efni sem ég hef unnið á árinu og eldra efni sem hefur ekki heyrst. Mikið af spennandi efni sem ég hlakka til að deila með fólki. Svo er von á nokkrum tónlistarmyndböndum og ég er þar að auki að fara að vinna með tónlistarfólki að alls konar verkefnum. Þannig að ég er bara mjög bjartsýn og spennt fyrir framtíðinni.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Sía Guðjohnsen

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -