Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

„Tónleikahald eins og gefur að skilja er algjör verkur í rassgatið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hljómsveitin Horrible Youth var stofnuð fyrir þremur árum af Ágústi Bent og eru meðlimir sveitarinnar stjörnum prýddir í íslensku senunni. Nú er von á fyrstu plötunni þannig að Albumm hitti Ágúst og byrjaði á því að spyrja hvernig bandið varð til.

 

„Ég stofnaði Horrible Youth þegar ég var í Noregi að drepast úr leiðindum fyrir þremur árum. Vetur, kuldi og viðbjóður. Ég kom mér upp heimastúdíói, lærði á það og fattaði loks að töfrarnir í tónlistarsköpun minni gerast þegar ég er allsgáður við tölvuna, ekki fullur eða freðinn í æfingahúsnæðinu,“ útskýrir Ágúst. Konan hans vann mikið á kvöldin og Ágúst segir að sá tími hafi verið nýttur í tónlist frekar en Netflix og hangs. „Svo þegar ég var kominn með haug af lögum sem voru tilbúin fyrir stúdíó byggði ég bandið smátt og smátt upp, meðlim fyrir meðlim. Allir koma strákarnir með sitt „input“ sem gerir þetta að skemmtilegum og frumlegum bræðingi.“

Ágúst er sjálfmenntaður gítarleikari og segist seint titla sig sem alvörusöngvara. „Ég hef verið í Hooker Swing (subburokki), Truckload of Steel (skítapönki) og Blues Willis (vibbakántrí), allt jaðar og lítill árangur,“ segir hann. „Strákarnir eru hins vegar stjörnum prýddir í íslensku senunni. Frosti er í Legend og var í Klink og svona. Maggi var í Úlpu. Hálfdán er að spila með Svölu, Himbrima, Legend, KUL og bara öllum hinum og Helgi frontar Benny Crespo´s Gang auk þess að riffa í Elínu Helenu og KUL.“

Spurður hvaðan hann fær drifkraft til að semja tónlist, svarar hann að drifkrafturinn komi með vinnusiðferði sem hann lærði sem iðnaðarmaður. „Vera skipulagður og klára eitt áður en ég fer í annað. Svo verður maður svolítið háður vellíðunartilfinningunni sem fylgir því að klára lag,“ segir hann og tekur fram að það séu engir peningar í þessum leik lengur. „Okkur langar bara að spila fyrir fullt af fólki og koma plötunni inn á sem flest heimili.“

Hann segir að platan hafi þróast smám saman. „Ég ætlaði bara að gera þungarokksplötu og fá einhvern til að syngja fyrir mig en fann engan. Svo þegar ég fór að syngja sjálfur varð þetta melódískara þar sem ég er ekki með metal-rödd og sæki mikið í gruggið þegar ég sem söngmelódíur,“ svarar hann aðspurður hvernig hann myndi lýsa nýju plötunni. „Ég var alinn upp af Kurt eins og margir aðrir og situr það býsna fast í undirmeðvitundinni. Þá skapaðist þessi crossover-hljómur, sem einkennir okkur náttúrlega, og er fullkomlega lífrænn. Það var aldrei fundað um stefnumál og ekki reyndum við að hljóma eins og eitthvað sérstakt. Textarnir eru tilkomnir af tilvistarkreppu og melódramatískum samræðum sem ég á við verstu útgáfuna af sjálfum mér,“ útskýrir hann og glottir en bætir svo við að það sé stranglega bannað að útskýra texta of mikið. „Fólk þarf að túlka þá á sinn eigin hátt.“

Ágúst Bent er nýfluttur heim frá Noregi . „Ég stofnaði Horrible Youth þegar ég var í Noregi að drepast úr leiðindum fyrir þremur árum.“

Ágúst er nýfluttur heim en hann bjó áður í Drammen sem er 30 kílómetra suður af Ósló þar sem hann vann sem verkstjóri hjá rafvirkjafyrirtæki. Hann segir að það hafi verið furðu auðvelt að halda hljómsveitinni gangandi þó að meðlimirnir byggju ekki í sama landi.
„Internetið og upptökutæknin gerir þetta frekar gerlegt að því gefnu að kunnáttan sé til staðar. Ég var svo heppinn að fá þessa meistara með mér í þetta og Maggi, sem tók upp plötuna með mér, var mér til halds og trausts. Þessi plata hefði verið tíu sinnum erfiðari án hans enda er hann algjör meistari á sínu sviði. Að vísu var allt tónleikahald eins og gefur að skilja algjör verkur í rassgatið. Flug fram og til baka, maraþonæfingar dagana fyrir gigg og síðast en ekki síst mikil þolinmæði frá konunni. Guði sé lof fyrir það.“

„Textarnir eru tilkomnir af tilvistarkreppu og melódramatískum samræðum sem ég á við verstu útgáfuna af sjálfum mér.“

- Auglýsing -

Fram undan hjá hljómsveitinni er að halda litla útgáfutónleika strax við útgáfu. „Við ætlum svo að reyna að vera duglegir á Íslandi í haust. Svo er á teikniborðinu stærra útgáfupartí sem við ætlum að halda með vinum okkar í Óværu. Platan okkar fær að auki ansi góða dreifingu þannig að það er aldrei að vita nema það opnist fyrir tækifæri í útlöndum. Það væri náttúrlega algjör draumur í dós en við erum fullorðnir menn með báða fætur á jörðinni og höfum lítinn áhuga á táfýlutúrum. Að lokum viljum við þakka þeim sem hafa hlustað, líkað, komið og deilt. Við erum þið.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -