Tónlistarkonan María Magnúsdóttir, eða Mimra, fékk mikið lof fyrir plötu sína Sinking Island sem kom út árið 2017. Í kjölfarið hefur hún reglulega gefið út lög, nú síðast Right Where You Belong sem kom út fyrir stuttu og er ætlað að vera uppörvandi fyrir ástvin sem glímir við andleg veikindi.
„Lagið samdi ég þarsíðasta vor og það kom frekar hratt til mín. Ég fékk svo Zöe Ruth Erwin, sem er geggjaður pródúsent, til að setja það með mér í nýjan búning og þetta er lokaútgáfan,“ segir María stolt og bætir við að lagið hafi orðið „bjartara“ í höndunum á Zöe. „Okkur fannst svo viðeigandi að gefa lagið út núna í janúar þegar jólin eru yfirstaðin og skammdegið loks að hörfa.“
María stundaði nám við tónlistarskólann Goldsmiths University í London frá árunum 2015-2016 og lauk þar meistaragráðu í tónlist. Lokaverkefni hennar í skólanum var fyrrnefnd plata hennar Sinking Island, sem hún tók upp í hljóðveri skólans Goldsmiths Music Studios, en platan hlaut mikið lof. Spurð hvort það sé von á annarri plötu frá henni segir María að það sé ekki langt í að hún byrji að vinna í nýrri plötu. „Eins og er hef ég einbeitt mér að því að gefa út eitt og eitt lag, í samvinnu við mismunandi pródúsenta. Það hefur verið hrikalega gaman. En nú ætla ég að loka mig af, fara út í smávegis tilraunastarfsemi og gera bara nákvæmlega það sem ég vil með músíkina.“
Eins og fyrr segir á nýjasta lag hennar, Right Were you Belong, að vera uppörvandi fyrir ástvin sem glímir við andleg veikindi og endurspeglar textinn það, en þar segir: „Ég get ekki fjarlægt vandamálin þín en ég er til staðar fyrir þig. Við þurfum öll á hjálp að halda einhvern tímann. Þú ert á réttum stað og á réttri leið.“ Lagið hefur María flutt nokkrum sinnum á tónleikum og hlotið góðar undirtektir.
Nýorðin móðir
Líf Maríu snýst þó ekki bara um tónlist því hún eignaðist sitt fyrsta barn, dóttur, fyrir um sjö vikum og segir hún að dóttirin eigi hug sinn allan. Spurð hvernig gangi að tvinna saman tónlistina og móðurhlutverkið segist hún bara eiga eftir að finna almennilega út úr því hvernig hún ætli að gera það. „Tónlistarkonur sem ég þekki segja flestar að þær hafi skipulagt tímann betur og oft orðið afkastameiri eftir að hafa eignast barn, ég stefni bara að því með tímanum,“ segir hún róleg og brosir.
En hvað finnst henni um íslenska tónlist í dag? „Ég er hrifin af mörgu sem er í gangi. Hef til dæmis hlustað endalaust á Cell7 og Hrím undanfarið. Það er bara mikil gróska og standardinn hár, en það er ekkert nýtt, búið að vera þannig í mörg ár og við getum verið stolt af því,“ segir hún og bætir við að það sem helst mætti betur fara sé að tónleikahaldarar og útvarpsstöðvar passi upp á að gleyma ekki að bóka og spila tónlist með og eftir konur. Tölur sýni að það sé enn ábótavant. „Eins mætti fjölga tónleikastöðum í Reykjavík. Borgin mætti líka leggja meira til málanna. Róðurinn er oft erfiður fyrir staðina sem fyrir eru og þeir þurfa því sorglega oft að hætta.“
Sjálf segist hún ætla að einbeita sér að því að læra betur á mömmuhlutverkið og „elska þennan nýja einstakling“ í lífi sínu. Stefnan sé svo að fylgja nýja laginu eftir með tónleikum með vorinu.
Texti / Sigrún Guðjohnsen