Sannkölluð skálmöld ríkti á Seyðisfirði í desemberbyrjun árið 1975 en hópur unglinga gekk svo fram af lögreglumönnum í bænum að þeir sögðu upp störfum sínum.
Þann 3. desember árið 1975 birti Dagblaðið frétt frá Seyðisfirði en þar var fullyrt að Skálmöld ríkti í bænum. Báðir lögreglumennirnir í bænum sögðu upp störfum þar sem þeim þótti bæjarfógetinn taka illa á vandræðaunglingum þorpsins sem höfðu „vaðað uppi“ um nokkurt skeið. Sagt er sérstaklega frá skrílslátum sem urðu á dansleik á Seyðisfirði en ástandið hafi verið mun verra en á síldarárunum. Gengu lætin svo langt að lögreglumönnum var hótað lífláti og hópur manna hindraði störf þeirra. Hér fyrir neðan má lesa fyrstu frétt Dagblaðsins um óöldina á Seyðisfirði 1975 en umfjöllun heldur svo áfram:
Skálmöld ríkir á Seyðisfirði:
BÁÐIR LÖGGÆZLUMENNIRNIR HAFA SAGT UPP
„Þetta er orðið algerlega óviðunandi ástand, — vandræðafólk veður hér uppi, — ákveðinn hópur fólks hindrar lögregluna við störf sín og yfirvald staðarins tekur ákaflega linum tökum á afbrotamönnunum. Við höfum þess vegna báðir sagt upp störfum,” sagði Þorbjörn Þorsteinsson, annar tveggja löggæzlumanna á Seyðisfirði í viðtali við DB. Vegna. þessara vettlingataka bæjarfógeta virðist sem unglingar og ákveðinn hópur fullorðinna á Seyðisfirði hafi gengið á lagið. Telja sumir bæjarbúar að þar hafi ríkt alger skálmöld um langan tima og er til þess tekið, að fyrir skömmu var haldinn á staðnum dansleikur, þar sem ástandið var vægast sagt verulega slæmt. Skrílslæti keyrðu þar fram úr hófi, enda ölvun dansgesta geysimikil, og voru unglingar allt niður í fermingarbörn þar á meðal. Taka bæjarbúar sem dæmi síldarárin frægu þegar oft var róstusamt í bænum, en segja að ástandið nú sé mun verra. Lögreglunni hefur verið hótað lífláti og ætli löggæzlumenn að taka ölvaða menn og aðra óeirðarseggi úr umferð er alltítt að hópar manna hindri störf lögreglunnar. Rúður eru brotnar f húsum af unglingum, sem einnig skemmta sér við að aka bílum á fleygiferð um götur bæjarins. Hefur komið fyrir, að bilar hafa oltið þar á götunum, er. ökumenn og viðstaddir hafa gert sér lítið fyrir, komið bilum á réttan kjöl og haldið áfram. „Við erum hér með einn gutta, sem við höfum margar kærur á, en þeim málum hefur ekki verið hreyft af fógeta. Um síðustu helgi gistu þrír menn fangageymslur okkar fyrir ölvun og slagsmál, en þeim var öllum sleppt með áminningu,” – sagði Þorbjörn ennfremur. „Við þetta ástand er ekki hægt að una.”
Nokkrum dögum síðar sagði Dagblaðið frá óeirðum sem urðu á Seyðisfirði en tönn var spörkuð úr lögreglumanni og umsátur gert að húsi þar sem rúður voru brotnar. Sagði annar lögreglumannanna sem virtust enn vera við störf í bænum, að ástandið hefði minnt á Víetnam-stríðið, hvorki meira né minna. Hér fyrir neðan má lesa æsilega lýsingu Dagblaðsins af óeirðunum:
Óeirðir á Seyðisfirði í gœrkvöldi:
LÖGREGLUSTÖÐIN GRÝTT — tönn brotin í lögreglumanni, umsátur um hús
Óeirðaaldan hefur ekki hjaðnað á Seyðisfirði. í gærkvöldi og fram á nótt kom til mikilla átaka i bænum. Um tíma flugu glerbrot og grjót um miðbæinn er óaldarflokkur unglinga fór með hrópum og köllum um göturnar og krafðist þess að fá framseldan sýningarstjóra félagsheimilisins Herðubreiðar!! „Flokkur þessi er undir stjórn eins ungs manns, sem gert hefur mönnum lífið leitt hér í bænum í lengri tíma, svo ekki sé meira sagt,” sagði sýningarstjórinn Hermann Guðmundsson, í viðtali við DB. ,,Á sýningu s.l. þriðjudagskvöld visaði ég forsprakkanum út af sýningu, þar eð hann hafði í frammi skrílslæti. Er sýningu var lokið, hafði hann safnað liði og sat fyrir mér. Hótaði hann mér lífláti á staðnum. Mér tókst að kalla til lögreglu og dreifði hún hópnum.” Sagði Hermann, að þeir i félagsheimilinu hefðu ákveðið að hleypa þessu fólki ekki inn á fleiri sýningar í félagsheimilinu. „Er nokkuð var liðið á sýningu i gærkvöldi vissi ég ekki fyrr en forsprakkinn var kominn upp i sýningarklefa til min og enn sem fyrr hótaði hann mér lifláti”, sagði Hermann. „Fleygði hann gosdrykkjaflösku i sýningarvélina og með okkur tókust síðan átök. Framkvæmdastjóri félagsheimilisins kallaði til lögreglu, en þá tók ekki betra við. Trylltist hópurinn alveg, gerði aðsúg að lögreglubifreiðinni, hleypti lofti úr dekkjum hennar og ruggaði. Tókst lögreglumönnunum að komast inn í húsið og handtaka forsprakkann. Var hann um síðir settur í járn. Í átökunum sparkaði hann lausa tönn í munni annars lögreglumannsins.“ Sagðist Hermann nú hafa reynt að komast út um bakdyrnar að bíl sínum, en hafði múgurinn þá brotið framrúðu i bilnum, dældað hann og hleypt lofti úr dekkjum. Tókst Hermanni að komast óséður í nærliggjandi hús. Á meðan á þessu stóð hafði lögreglan látið forsprakkann lausan gegn loforði um betri hegðun. Sveik hann það samstundis og fékk nú hópurinn pata af felustað Hermanns. Umkringdi flokkurinn húsið, grýtti það og lét öllum illum látum. Tókst lögreglunni að koma Hermanni undan og heim til sin. Þá hélt hópurinn að lögreglustöðinni og grýtti bygginguna. Voru brotnar rúður í húsinu. Þegar nokkuð var liðið á nótt dreifðist hópurinn þó og hélt hver til síns heima. „Þetta er orðið eins og í Víetnam,“ sagði Þorbjörn Þorsteinsson í viðtali við DB. „Við getum lítið ráðið við 30-40 kolvitlausa unglinga, tveir lögregluþjónar. Sumir þessara unglinga ættu auðvitað að vera á hælum.“ Bæjarfógeti, sem þykir taka vægilega á þessum afbrotaunglingum, er á Vopnafirði.
Þann 16. desember 1975 birti Dagblaðið síðan frétt af því að varalið lögreglumanna hafi verið kallað til á meðan á barnasýningu stóð yfir í Herðubreið, félagsheimili Seyðfirðinga. Forsprakki vandræðagemlinganna, 19 ára pjakkur, sagðist í samtali við Dagblaðið ekki finnast það rétt að blanda almenningi inn í þetta mál, þar sem þetta væri bara „persónlegar deilur“ milli hans og sýningarmannsins í félagsheimilinu. Sagðist hann að lokum ætla að „útkljá málið“.
Hér má lesa frétt Dagblaðsins:
Sex lögreglumenn stóðu vakt yfir barnasýningu á Seyðisfirði:
„Ég ætla að útkljá málið“ – segir foringinn
Lögreglan á Seyðisfirði hefur reynt að sporna við þeirri óeirðaröldu, sem gengið hefur yfir þorpið nú að undanförnu. Nú á sunnudaginn var haldin kvikmyndasýning fyrir börn i félagsheimilinu og til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig var kallað út varalið. Alls stóðu sex lögreglumenn vakt yfir sýningunni og tókst þannig að firra vandræðum. ,,Mér er ekki kunnugt um hvað þeir voru margir, lögreglumennirnir,“ sagði Erlendur Björnsson bæjarfógeti í viðtali við DB. „Hlutaðeigandi aðilar að látunum í fyrri viku hafa verið hér í yfirheyrslum og eins og alltaf koma nýjar upplýsingar fram við yfirheyrslur.” — Hver borgar? Lögreglumennirnir hér eru launaðir af rikinu svo ég reikna með að laun þeirra komi þaðan. DB náði tali af unga manninum, sem sagður er foringi þess hóps, er hvað mestan óskundann hefur gert á Seyðisfirði nú að undanförnu: „Mér finnst nú ekki rétt að vera að blanda almenningi inni þetta mál. Þetta eru persónulegar deilur milli mín og sýningarmannsins í félagsheimilinu,“ sagði pilturinn, sem er 19 ára. „Maður fær kannski einhverjar sektir en ég ætla að útkljá málið.“
Hafi lesendur einhverjar upplýsingar um málið á endilega senda þær á [email protected]