Árið 1990 hljóp nakinn maður inn á leik Fram og Barcelona en var þetta í þriðja sinn sem hann hljóp allsber inn á völlinn í alþjóðlegum knattspyrnuleik. Morgunblaðið og DV sögðu frá.
Leikurinn fór fram í október árið 1990 en maðurinn hafði áður hlaupið nakinn inn á leik hjá íslenska karlalandsliðinu árið 1988 og svo aftur árið 1989 en leikirnir voru gegn Sovétríkjunum og Albaníu.
Samkvæmt sjónarvottum klifraði maðurinn yfir girðinguna á Laugardalsvelli norðan megin við stúkuna. Þar klæddi hann sig úr fötunum í fyrri hálfleik. Þegar maðurinn stökk á niður úr stúkunni og gerði sig líklegan til að hlaupa inn á völlinn reyndi lögreglumaður að stöðva hann en sá nakti kýldi lögreglumanninn í andlitið og slapp frá honum. Alls voru sex lögreglumenn að sinna öryggisgæslu á vellinum. Maðurinn var að lokum handtekinn fyrir verknaðinn og vísað af vellinum.
Í umfjöllun um málið er ljóst að nekt hans hafi ekki einungis verið bundin við knattspyrnuleiki heldur hafði hann verið handtekinn viku fyrr fyrir að gera þarfir sínar á tröppur stjórnarráðsins. Hann hafði sömuleiðis hlaupið nakinn í Kringlunni og boðað heimsendi og gert þarfir sínar á borð á veitingastað í verslunarmiðstöðinni. Þá hafði hann einnig verið dæmdur fyrir að fremja bankarán í Búnaðarbankanum í desember 1988.