Bandaríkjamaður gekk berserksgang í flugvél Flugleiða til Baltimore frá Keflavík árið 1998 en DV sagði frá málinu.
Bandaríkjamaðurinn var að sögn sjónarvotta mjög ölvaður en hann réðst á flugfreyju í vélinni og snéri upp á handlegg hennar og þrýsti henni upp að salernishurð. „Þetta var ungur maður og fílefldur, nálægt 120 kíló að þyngd. Ég ætlaði að fara að skipta mér af þessu en þá sleppti hann takinu á flugfreyjunni og hljóp fram í vélina,“ sagði Arnór Sigurjónsson við DV en hann var um tíma liðsforingi í norska hernum og í „víkingasveit“ íslensku lögreglunnar.
Kærður fyrir tilraun til flugráns
Eftir að Bandaríkjamaðurinn hljóp fram í flugvélina réðst hann inn í flugstjórnarklefann. „Hann spennti hreinlega hurðina upp og réðst inn í klefann,“ sagði Kristján Egilsson flugstjóri en samkvæmt DV vissi Kristján að Arnór væri staddur í flugvélinni og kallaði eftir honum þegar hann hafði náð að koma dólgnum úr klefanum.
„Þegar ég kom fram í bað Kristján mig að hjálpa til við að yfirbuga manninn. Þegar ég sneri mér við rauk maðurinn upp og ætlaði fram i klefann. Ég tók á móti honum, setti hann niður i farþegasætið, batt belti um hann og hótaði honum síðan öllu illu ef hann hreyfði legg eða lið. Hann var nógu ölvaður til að vita ekki hvað hann var að gera en ekki nógu ölvaður til að vera ekki hættulegur,“ sagði Amór.
DV sagði einnig frá því að maðurinn hafi verið starfsmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og hann yrði kærður fyrir tilraun til flugráns.
„Þetta er ekki eitthvað sem maður vill þurfa að upplifa. Það er grafalvarlegt mál þegar svona lagað gerist. Það er þröngt þarna inni og mikið af tækjum,“ sagði Kristján að lokum.