Átta ára drengur frá Húsavík fór út að hjóla einn eftirmiðdag en datt ekki í hug að áður en um langt væri liðið, væri hann orðinn hetja sem bjargaði lífi unglingspilts.
Í októberbyrjun 1975 var hinn 16 ára Pétur Ármann Jónsson að klára vinnu sína við malarnám við Húsavík. Var hann að moka möl úr sílói eftir að færiband sem átti að flytja mölina bilaði, en samstarfsmenn hans voru allir farnir heim. Ákvað pilturinn að kíkja í sílóið til að athuga hvort mölin væri ekki að fara að klárast. Ekki vildi betur til en að steinn féll á höfuð Péturs og vankaðist hann við höggið. Malarbingurinn hrundi síðan yfir hann og grófst hann í mölina upp að höku. Hóf hann að öskra af öllum lífsins og sálarkröftum enda óttaðist hann um líf sitt, þar sem vinnufélagarnir voru allir farnir heim.
Hinn átta ára Hreiðar Hreiðarsson átti fyrir einskæra tilviljun leið framhjá vinnusvæði Péturs á hjóli sínu og heyrði óp unglingsins. Dreif drengurinn sig sem hraðast heim og sagði föður sínum frá því sem hann hefði heyrt. Var faðir hans ekki lengi að koma Pétri til bjargar sem kippti sig lítið upp við atvikið, enda hafði ýmsa fjöruna sopið á sinni stuttu ævi.
Hér má lesa frétt Dagblaðsins um hetjudáð Hreiðars litla:
8 ára Húsavíkurstrákur bjargaði mannslífi!
„Varð auðvitað hrœddur og hjólaði heim…“
segir Hreiðar Hreiðarsson sem heyrði óp 16 óra pilts er grófst undir möl
Átta ára drengur, Hreiðar Hreiðarsson, sonur hjónanna Öldu Guðmundsdóttur og Hreiðars Sigurjónssonar á Húsavík, varð hetja dagsins sl. þriðjudag er hann lét foreldra sína vita um hróp sem honum bárust frá malarnámi við Húsavík. Þar lá Pétur Ármann Jónsson fastklemmdur undir möl í sílói og var orðinn heldur vondaufurum að hjálp bærist. Nánari tildrög voru þau að færiband, sem flutti möl frá sílói því er Pétur vinnur við, hafði bilað og var hann að moka mölinni úr silóinu. Fór hann inn í það til þess að sjá hvort ekki væri að minnka í því. Féll þá steinn í höfuð hans og hálfrotaðist Pétur við það. Hrundi síðan malarbingurinn yfir hann, þar sem hann lá í sílóinu, og grófst hann í mölinni upp að höku en fæturnir, sem stóðu út úr sílóinu, voru lausir. ,,Ég var bara að hjóla þarna af tilviljun þegar ég heyrði skerandi óp,” sagði Hreiðar í viðtali við Dagbl. í gær. ,,Ég varð auðvitað hræddur og hjólaði heim eins fljótt og ég gat og sagði pabba hvað ég hefði heyrt. Þeir fóru svo uppeftir og fundu Pétur undir mölinni.” „Undarlegast fannst mér hvað þeir komu fljótt,” sagði Pétur Ármann sem er 16 ára. ,,Ég heyrði að einhver var á ferðinni nálægt sílóinu og öskraði eins og ég gat, enda taldi ég að þetta væri síðasta vonin til bjargar, þar eð allir, sem vinna hér, voru farnir heim og höfðu ekki heyrt í mér.” Pétur var furðu hress þrátt fyrir þessa óhugnanlegu upplifun enda sagðist hann vera ýmsu vanur. Hefði hann lent í slæmu bílslysi í sumar en sloppið ómeiddur og eitt sinn hefði hann dottið af byggingaruppslætti niður á járngrindur. Þá hefði munað verulega litlu. Pétur hlaut ekki nein slæm meiðsli, er hruflaður í andliti og marinn á baki.
