Furðulegar deilur ríkra gamalla karlamanna komst í blöðin árið 1995
„Ég geri mér vonir um það að þeir láti af þessu, hætti við frekari málaferli, sem eru þegar búin að kosta alltof mikið og valda leiðindum. Auðvitað hafa þeir kost á því að hlaupa með þetta fyrir dóm en þá eru þeir ekki lengur í máli við Bent, þá eru þeir komnir í mál við Össur Skarphéðinsson eða hans embætti,“ sagði Bent Scheving Thorsteinsson, íbúi í Efstaleiti 12-14, við Morgunpóstinn árið 1995. Húsið hefur stundum verið kallað Beverly Hills eldra fólks á Íslandi.
Forsaga málsins er sú að Bent stóð í illdeildum við íbúa hússins sem höfðu innréttað bar í sameign hússins fyrir utan íbúð Bents. Hann greindi frá því að þar hefðu einstaklingar setið lengi, drukkið yfir sig og valdið óþarfi ónæði og leiðindum. Þá voru sett upp skilrúm sem stúkuðu íbúð Bents af. Bent tók það ekki í mál og á endanum úrskurðaði umhverfisráðuneytið um það að skilrúmin skyldu tekin niður.
„Þetta eru bara idjótar,“ segir Páll Ásgeir Tryggvason, fyrrum sendiherra og formaður hússtjórnar. „Við erum að gera stofu í húsinu okkar, fyrir fólkið í húsinu. Allir eru inn á þessu nema einn maður og það er búið að samþykkja þetta í bygginganefnd Reykjavíkur. Síðan er sent á okkur Skipulag ríkisins og þeir samþykkja þetta allt saman. Þá er bara komið með umhverfisráðuneytið inn í stofu til okkar. Ég get sagt þér það að við ætlum ekki að gefast upp. Þetta er ekkert gaman að hafa svona furðufugla eins og hann í húsinu. Það er óttalega leiðinlegt að hafa svona dela inn á sér og það er bara vonandi að hann snauti í burtu,“ sagð Páll Ásgeir.
„Er er engin von á sáttum?” spurði blaðamaður Morgunpóstsins
„Sáttum? Hann er ekki í neinum sáttahug. Ekki aldeilis. Hann hefur voðalega gaman af því að erta fólk til reiði. Elskar það alveg. Ef menn hafa ekkert að gera er náttúrlega upplagt að reyna að egna fólk til reiði. Það er hans sérgrein.“
Baksýnispegill þessi birtist upphaflega 18. október 2023