Poppstjarnan Páll Óskar slapp með skrekkinn eftir árekstur árið 1996.
„Sem betur fer urðu engin slys á fólki en bíllinn minn er gjörónýtur. Ég er bara með smáhálsríg. Ég viðurkenni fúslega að þetta gerðist vegna hamagangsins í mér. Ég þurfti að flýta mér út á flugvöll,“ sagði söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson í samtali við DV árið 1996.
Samkvæmt Páli varð áreksturinn á Suðurlandsvegi við Rauðavatn og var Páll einn í bílnum. Þá sluppu ökumaður og farþegar í hinum bílnum ómeiddir frá slysinu. Áreksturinn varð til þess að söngvarinn þurfti að aflýsa tónleikum á Sauðárkróki. Þá sagði hann frá því að þetta hafi verið hans fyrsta umferðaróhapp.
Hressandi lífsreynsla
„Ég vil segja það að mér fannst mjög gott að lenda í þessu bílslysi. Maður er búinn að vera eitthvað „down“ i janúar og febrúar og mér fannst þetta mjög hressandi. Maður þakkar guði fyrir að allt fór vel, bæði hjá mér og fólkinu í hinum bílnum. Mér er nákvæmlega sama um þennan bíl minn. Hann má fara á haugana. Ég ætla að fara á þriðjudaginn og kaupa mér einhvern æðislegan blásanseraðan poppstjörnubíl og vera ekki með neina Mözdu-stæla. Þessir japönsku bílar verða bara að smjöri ef þeir lenda í einhverju svona,“ sagði Páll að lokum.