Bræður brenndust í sprengingu árið 1995 en DV fjallaði um málið á sínum tíma. Bræðurnir Haraldur og Alfreð voru um borð í bátnum Helgu Sigmarsdóttur NS-6 en sá var tíu tonna stálbátur frá Seyðisfirði. „Haraldur var kveikja upp í eldavélinni niðri í lúkar þegar varð allt í einu sprenging. Maður gerir sér ekki alveg grein fyrir ástæðu þess því það var kalt og ég hafði ekki fundið neina gaslykt. Ég var uppi í stýrishúsi og stóð við ganginn niður í lúkar og eldtungan kom á móti mér. Ég brenndist á maga, handleggjum og eitthvað í andliti en Haraldur var hins vegar niðri í lúkar og brenndist meira. Hann kom upp á móti mér og ég lagði bátnum aftur að byggju og kom okkur upp á sjúkrahús,“ sagði Alfreð Sigmarsson við DV um sprenginguna. Alfreð var lagður inn á sjúkrahúsið á Seyðisfirði en Haraldur var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann og gekkst undir aðgerð þar. Hann var með 2. gráðu bruna á báðum höndum og andliti. Þá höfðu lungu hans skaddast sökum þess að hann andaði að sér mjög heitu lofti. Bróðursonur Alfreðs greindi frá því að litlar skemmdir hefðu verið á bátnum og líkti ástandinu við því að einhver hafi gengið berserksgang í lúkaanum.