Ótrúlega uppákoma átti sér stað á Litla-Hrauni árið 1996.
Í DV árið 1996 var sagt frá því þegar fangi sem var í einangrun á Litla-Hrauni náði að sleppa úr klefanum og loka fangavörð þar inni. Fangavörðurinn ákvað í góðmennsku sinni að opna klefann til að færa fanganum kaffi og brauð í stað þess að rétta honum matinn í gegnum þar til gerða lúgu á hurðinni.
Fanginn stökk þá á fangavörðinn og náði að henda honum inn í klefann og loka og læsa. Fangavörðurinn náði þó fljótt að gera vart við sig með bjöllu sem var inn í klefanum og ruku aðrir fangaverðir honum til aðstoðar og komu fanganum aftur í einangrun. Í frétt DV er fanginn ekki nafngreindur en tekið fram að viðurnefni hans sé leitt af nokkuð þekktum og sterkum verkjalyfjum.
„Þetta var smávægileg uppákoma. Það koma upp alls konar atvik í fangelsunum eins og gengur og gerist og þetta er eitt af þeim, þótt ekki sé það daglegur viðburður,“ sagði Haraldur Johannesson fangelsismálastjóri við DV um málið. Hann vísaði svo á staðgengill á Jón Sigurðsson, staðgengil framkvæmdastjóra fangelsins á Litla-Hrauni, til að fá nánari upplýsingar.
„Í þessu sambandi verð ég að vísa í bréf Haralds Johannessens þar sem hann óskar eftir því að ég tjái mig ekki um málefni stofnunarinnar við blaðamenn heldur vísi öllum erindum sem varða tengsl við fjölmiðla til Fangelsismálastofnunar. Ég held ég verði að halda mig við það, þar til ég fæ fyrirmæli um annað,“ sagði svo Jón í svari sínu til DV.