Föstudaginn 7. mars árið 1981 strandaði báturinn Sigurbára VE-249, á Skógarsandi. Sjö menn voru í áhöfn bátsins en tókst að bjarga þeim öllum.
Vestmannaeyjaradíó tilkynnti björgunarsveitinni Víkverja frá Vík í Mýrdal klukkan 10:50 föstudagsmorguninn 7. mars 1981, að Vestmannaeyjabáturinn Sigurbára VE-249 hefði strandað á Skógarsandi. Björgunarsveitin, sem var þaulvön álíka björgunum, var ekki í miklum vandræðum með að bjarga öllum sjö áhafnarmeðlimum bátsins, þó veður hafi verið ansi slæmt á köflum en bæði rok og sandbylur tafði björgunina eilítið. Aðstaða á strandstaðnum var afar erfið vegna veðursins en skipverjar á Sigurbáru náðu að skjóta línu í land en þá var leki kominn að skipinu og því ekki seinna vænna að verða bjargar í land.
Hér má lesa frétt Dagblaðsins um hið frækilegu björgun:
Sigurbára VE-249 strandaði á Skógarsandi
Sjö mönnum bjargað í roki og sandbyl
skipbrotsmenn fluttir að Skógum — leki kominn að skipinu, vél óvirk og rafmagn fór af
Vestmannaeyjabáturinn Sigurbára VE 249 strandaði skömmu fyrir hádegið í gær á Skógasandi, skammt austan Jökulsár á Sólheimasandi. Á bátnum var sjö manna áhöfn og tókst björgunarsveitinni Víkverja frá Vík í Mýrdal að bjarga áhöfninni í land. Allir voru komnir heilir á húfi í land á fimmta tímanum í gær. Að sögn Hannesar Hafstein í gær tilkynnti Vestmannaeyjaradíó Slysavarnafélaginu kl. 10.50 í gær að Sigurbáran væri strönduð vestan Dyrhólaeyjar. Jafnframt var tilkynnt að úti fyrir væru fjögur skip ásamt varðskipinu Tý. Björgunarsveitin Víkverji í Vík í Mýrdal var þegar ræst út. Sveitin lagði af stað kl. 11.35 og fór veghefill fyrir, því ófærð var mikil. Ferðin sóttist vel og var sveitin komin á strandstað kl. 13.05. Aðstaða á strandstað var mjög erfið, mikið rok á norð-austan og varla sást út úr augum vegna sandroks. Skipverjar á Sigurbáru gátu skotið linu í land, en skipið hafði strandað í grjóturð, um 200 metra frá landi. Leki var kominn að skipinu, vélin orðin óvirk og rafmagn farið af því. Samband náðist við skipið um kl. 13.30. Skömmu eftir að línan náðist færðist skipið vestar og nær landi. Ákveðið var að koma togvírum frá Sigurbáru í land og voru þeir settir fastir í veghefilinn til þess að reyna að halda í við skipið. Mjög braut á skipinu á þessum stað.
Fyrsti skipverjinn náðist í land kl. 15.43 og síðan hver af öðrum unz allir voru komnir í land kl. 16.13. Hlé varð þó að gera meðan verstu hryðjurnar gengu yfir. Þegar allir voru komnir í land voru skipbrotsmenn fluttir að Skógum. Að sögn Hannesar Hafstein gekk björgunin með miklum ágætum, enda björgunarsveitin Víkverji mjög reynd í björgunum. sem þessum. Sigurbára VE er stálskip, 127 lestir að stærð, smíðað á Seyðisfirði árið 1978.