Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-9 C
Reykjavik

Harmleikurinn um borð í varðskipinu Tý: „Hann leit fram starandi, tryllingslegu augnaráði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 7. janúar árið 1980 myrti Jón Guðmundsson tvo skipsfélaga sína með hníf á varðskipinu Tý. Fórnarlömb hans voru kornungir menn, þeir Jóhannes Olsen og Einar Óli Guðfinnsson. Eftir að hafa sært ungu mennina tvo til ólífis varpaði Jón D. Guðmundsson sér að öllum líkindum fyrir borð . Hann fannst aldrei.

Harmleikurinn um borð í varðskipinu Tý þennan dag í byrjun árs 1980 skók þjóðina og vakti mikinn óhug. Jóhannes Olsen var háseti á skipinu en Einar Óli Guðfinnsson var léttadrengur um borð. Þeir voru, eins og áður sagði, kornungir menn þegar lífið var hrifsað frá þeim – nánast drengir enn. Jóhannes var 22 ára gamall þegar hann lést, en Einar Óli einungis 18 ára.

Sá sem stakk þá til bana, Jón Guðmundsson, var 32 ára gamall og starfaði sem þriðji vélstjóri um borð. Hann var kvæntur, tveggja barna faðir.

Atburðarásin

Varðskipið Týr hafði ekki verið lengi á sjó þegar þessi hrollvekjandi atburður átti sér stað. Skipið hafði lagt úr höfn þann 4. janúar og var að fylgjast með loðnuskipum, norðaustan við Kolbeinsey árla þennan mánudagsmorgun þann 7. janúar. Jón hafði nýverið lokið vakt sinni þegar hann kom inn í eldhús skipsins, um klukkan níu að morgni. Þar voru þeir fyrrnefndur Jóhannes háseti og Steinar M. Clausen, bátsmaður, að skrafa saman og drekka kaffi. Atburðarásin virðist hafa verið afar hröð: Jón vélstjóri greip stóran brauðhníf úr rekka og einungis urðu stutt orðaskipti áður en hann rak hnífinn fyrirvaralaust á kaf í síðu Jóhannesar. Steinar bátsmaður tók þá á rás út úr eldhúsinu, sem var miðskips, upp í brú, tveimur hæðum ofar. Þar lét Steinar stýrimanninn vita af hinni voðalegu árás á Jóhannes. Jóhannes komst sjálfur við illan leik upp í brú þar sem hann öskraði: „Hann er brjálaður! Hann stakk mig!“

 

Eftir árásina á Jóhannes hafði Jón vélstjóri hlaupið út úr eldhúsinu og tekið á rás í átt að borðsalnum. Á þverganginum framan við eldhúsið var Einar Óli staddur. Það var nýbúið að taka jólaskrautið niður í skipinu og Einar Óli var að bisa með ryksuguna, en hann var að hefjast handa við að ryksuga í borðsalnum. Þar varð hann á vegi Jóns, sem kom hlaupandi – ennþá með hnífinn. Ekki varð þar neitt hik á Jóni vélstjóra, heldur stakk hann Einar Óla í brjóstið. Strax að því loknu hljóp hann í burtu og hvarf á braut. Enginn varð vitni að árás Jóns á Einar Óla.

- Auglýsing -

Vitanlega varð neyðarástand í skipinu. Hættuástand var tilkynnt og menn hlupu upp til handa og fóta. Jón vélstjóri var hvergi sjáanlegur, en enginn hóf þó leit að honum strax. Mikilvægara þótti að huga að hinum særðu. Nokkrir skipverjar voru staddir í eldhúsinu þegar Einar Óli náði að koma sér þangað. Hann hneig niður þegar inn í eldhúsið var komið.

Það varð strax ljóst að sár Jóhannesar var mjög alvarlegt, en Einar Óli var talinn hafa hlotið umtalsvert minni meiðsli. Jóhannes var með fullri rænu en afar kvalinn. Búið var um sár hans og honum gefið morfín til að lina þjáningarnar.

Siglt til Grímseyjar

Strax var haft samband við lækni í gegnum talstöð. Hann gaf fyrirmæli um hvernig huga skyldi að sárum mannanna tveggja. Bjarni Helgason skipherra fyrirskipaði að stefnan yrði umsvifalaust tekin á Grímsey. Þar skyldi bíða þeirra sjúkraflug sem færi með mennina beint á spítala þar sem reynt yrði að bjarga lífi þeirra. Símtöl við gæslu og lækna gengu nokkuð treglega. Þrátt fyrir það var sjúkraflug til reiðu og heilbrigðisstarfsfólk að leggja af stað með vélinni til Grímseyjar, þegar Jóhannes Olsen lést af sárum sínum. Það leið einungis um hálftími þar til Einar Óli Guðfinnsson var einnig látinn.

- Auglýsing -

Eins og áður sagði gerðu skipverjarnir sér sannarlega grein fyrir því að sár Jóhannesar var lífshættulegt, en dauði Einars Óla kom þeim öllum í opna skjöldu. Meiðsli hans höfðu á yfirborðinu virst minna alvarleg og það leit allt út fyrir að hann myndi lifa af fimmtíu mílna siglingu til Grímseyjar. Innvortis blæðingar virtust hinsvegar hafa verið umtalsverðar og lést Einar Óli af þeim. Þegar mennirnir voru báðir látnir tók skipið því nýja stefnu og hélt beint til Akureyrar.

Leitað að morðingjanum

Þegar margir skipverjanna hófu leit að Jóni vélstjóra, eftir að búið var að hlúa að hinum slösuðu eins og hægt var, tóku sumir þeirra sér kylfu í hönd. Þeir gátu ekki með nokkru móti vitað hverskonar ástandi Jón yrði í eða hvar hann héldi sig. Yngstu skipverjarnir læstu sig sumir inni í klefunum sínum meðan á leitinni stóð. Eftir að hafa tvívegis leitað af sér allan grun í skipinu, komust mennirnir að þeirri niðurstöðu að Jón væri þar hvergi. Þeir sáu að hurð á þyrluskýli skipsins hafði verið opnuð og þar hjá voru tveir blóðdropar. Það varð þeim því ljóst á þessum tímapunkti að Jón D. Guðmundsson hefði stokkið útbyrðis eftir að hafa stungið skipsfélaga sína tvo. Þegar mennirnir komust að þessari niðurstöðu var of langt um liðið og skipið komið nokkra vegalengd frá þeim stað þar sem þeir höfðu verið á meðan hinir vofeiflegu atburðir dundu yfir, til þess að nokkur von væri um að finna Jón vélstjóra á lífi. Í kulda eins og var á þessum árstíma geta menn einungis lifað í um nokkrar mínútur í sjónum á þessum slóðum. Auk þess var kolniðamyrkur, svo jafnvel ef þeir hefðu verið á sama stað ennþá hefði verið nær ógerningur að sjá Jón í sjónum.

Klukkan sex að kvöldi þessa örlagaríka dags lagðist varðskipið Týr að bryggju á Akureyri. Þar stigu rannsóknarlögreglumenn um borð og yfirheyrðu skipverjana. Að lokinni rannsókn á vettvangi voru lík þeirra Jóhannesar og Einars Óla flutt frá borði. Á meðan stóð áhöfn Týs heiðursvörð á afturþiljum skipsins.

Undarleg hegðun fyrir morðin

Verknaður Jóns var talinn hafa komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Fyrir sjórétti var reynt að komast til botns í því hvað gæti hafa gerst sem olli því að vélstjórinn framdi ódæðið. Við yfirheyrslur skipverjanna kom hinsvegar ýmislegt í ljós. Jón virtist hafa hegðað sér nokkuð undarlega allt frá því að Týr lagði frá höfn. Hann hafði verið órólegur, einrænn og svo höfðu sumir mannanna tekið eftir honum muldra eitthvað rugl við sjálfan sig þegar þeir höfðu horft saman á íþróttaþátt í sjónvarpinu. Hann hafði sést stika fram og aftur um gangana, eins og hann ætti erfitt með að vera kyrr. Sömuleiðis hafði sést til hans stara út í loftið og keðjureykja. Allt þótti þetta afar óvenjuleg hegðun fyrir Jón, sem venjulega var hinn besti starfsmaður, léttur og hress.

Skipverjarnir voru handvissir um að árásirnar hefðu verið gerðar í einhverskonar æðiskasti.

Steinar bátsmaður var eins og gefur að skilja lykilvitni í málinu, en hann var eins og áður sagði vitni að bæði aðdragandanum og árásinni á Jóhannes. Hann lýsti því hvernig hann heyrði Jón aldrei segja orð þegar hann keyrði hnífinn í síðu Jóhannesar. Ekki hafi hann heldur sagt orð að verknaðinum loknum, þar sem hann stóð með alblóðugan hníf í hönd, starandi á Jóhannes.

„Hann leit fram starandi, tryllingslegu augnaráði,“ sagði Steinar um Jón vélstjóra.

Um atburðarásina um borð í Tý þann 7. janúar árið 1980 sagði Jón Magnússon, lögfræðingur Landshelgisgæslunnar, daginn eftir harmleikinn:

„Hinn óhugnanlegi atburður sem varð um borð í varðskipinu Tý upp úr klukkan níu í gærmorgun verður ekki skýrður með nokkrum rökum og í fljótu bragði finnst ekkert sem bendir til að ástæða eða upphaf harmleiksins hafi orðið til eftir að Týr lét síðast úr höfn í Reykjavík, sl. föstudag.“

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 20. september 2021 og skrifaði Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir hann

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -