Föstudagur 28. febrúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Hið dularfulla hvarf Þverárhrossanna: „Enn ófundnir og útlitið versnar stöðugt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í byrjun ársins 1987 hurfu sjö hross sporlaust frá bænum Þverá í Öxarfirði.

Málið var hið furðulegasta því þrátt fyrir gríðarmikla leit fundust hrossin ekki fyrr en fimm mánuðum síðar en voru þau þá öll. Staðsetningn þótti afar furðuleg og var jafnvel tala um að huldufólk hafi haft hönd í bagga í málinu.

Hér má lesa frétt Morgunblaðsins sem birtist í byrjun febrúar 1987, um hvarf hrossanna:

Öxarfjörður: Sjö hross horfin sporlaust

Skinnastað, öxarfirði NÓTT eina I byrjun janúar hvarf hópur sjö hrossa úr hagagirðingu á bænum Þverá I Öxarfirði. Mikil leit hefur síðan verið gerð að þeim bæði á landi og úr lofti en án árangurs. Hrossin virðast týnd og tröllum gefin. Að sögn Kristjáns bónda Benediktssonar á Þverá hurfu hrossin úr girðingu að næturlagi kringum 9. janúar sl. Hrossin voru sjö talsins þar af fímm tamin eða bandvön og tvö trippi með mæðrum sínum. Var strax haldið uppi spurnum um hrossin en þau sáust hvergi. Síðan var mikil leit gerð um heiðar á vélsleðum og bar hún engan árangur. Sáust hvergi spor hvað þá hestar. í síðustu viku var leitað á flugvél um allar heiðar allt norður af Sléttuheiði og suður á Hólsfjöll. Leitarskilyrði voru góð, bjart veður og gott skyggni, en hvergi sást til hrossanna. Alhvítt var til heiða en auð jörð í lágbyggðum að sögn Kristjáns. Örvæntir Kristján bóndi nokkuð um hrossin, þó kvað hann betra að finna þau dauð en ekki.

Um tveimur vikum síðar höfðu hrossin sjö enn ekki komið í leitirnar og var eigandi þeirra, Kristján Benediktsson áhyggjufullur. Morgunblaðað fjallaði um þetta 17. febrúar og hér má lesa þá frétt:

Þverárhrossin enn ófundin

HESTARNIR mínir eru enn ófundnir og útlitið versnar stöðugt,“ sagði Kristján Benediktsson á Þverá í Öxarfirði í gær. Leitað var úr lofti á sunnudag á Núpasveitarheiði, Sléttuheiði og í vesturhluta Þistilfjarðar án árangurs. Jóhannes Árnason í Höskuldarnesi á Sléttu fór á einshreyfils flugvél sinni ásamt Kristjáni bónda og þriðja manni. Kristján sagði að veður hafi verið bjart og stillt, en ekki hafi viðrað vel til leitar á laugardag og nú sé skyggni aftur orðið slæmt. „Ég veit satt að segja ekki hvað næst er til ráða. Það er hugsanlegt að hrossin hafi farist einhvers staðar. Við vitum eiginlega ekki hvar skal næst leita því það er er nú þegar búið að leita hér um allt, á svo stóru svæði, bæði á flugvél og á vélsleðum,“ Ekkert hefur spurst til hrossanna sjö frá Þverá síðan 10. janúar síðastliðinn. Um er að ræða fimm fullorðna hesta og tvö trippi.

Það var ekki fyrr en í júní, heilum fimm mánuðum síðar að hrossin fundust. Höfðu þau farið upp á fjallið Sandfell í mikilli ófær og hrapað fram af bjargi þar og drepist. Tíminn fjallaði um fundinn 9. júní 1987:

Þverárhestarnir fundnir

- Auglýsing -

– í sjónmáli frá bænum

Hestarnir sjö frá Þverá sem leitað hefur verið að síðan í byrjun janúar fundust í sjónmáli frá bænum sl. föstudag. Hestarnir hafa hrapað til bana í Sandfelli sem er 525 metra hátt fjall sunnan við Þverá og fundust hestarnir um 150 metra frá brún fjallsins, á þessum stað er skál í fjallinu og þar lágu hestarnir með nokkru millibili í smá gilskorningi. Hestarnir voru mjög laskaðir eftir fallið og hafa greinilega látist samstundis og einnig er ljóst að þeir hafa ekki staðið í svelti fyrir fallið. Enginn getur skilið hvernig hestarnir komust þarna upp eða hvað þeir hafa verið að gera þangað. Það voru bræðurnir Gunnar og Björn Víkingur Björnssynir frá Sandfellshaga sem fundu hestana er þeir voru að sleppa lambám á þessum slóðum, í fyrstu héldu þeir að kindur væru þarna í fjallinu en þegar betur var að gáð kom í ljós hvers kyns var og var aðkoman ekki skemmtileg. Kristján Benediktsson bóndi á Þverá sagði það mikla bót í máli að hestarnir væru fundnir en í vetur hefur verið gerð mikil leit að þeim, án efa víðtækasta leit að búfé sem fram hefur farið á íslandi. Kristján hefur orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni við missi hestanna því eftir þeim upplýsingum sem hann hefur fengið bætir búfjártrygging hans ekki tjón af þessu tagi. Einnig var leitin að hestunum kostnaðarsöm en þó sagði Kristján að kostnaður sinn hefði verið sáralítill miðað við hve leitin var umfangsmikil. Fjöldi manns hefði leitað að hestunum án þess að taka greiðslu fyrir vinnu sína eða kostnað af notkun tækja og vildi Kristján koma á framfæri þakklæti til allra þessara manna. Á sunnudagskvöld voru hestarnir dregnir niður hlíðina og grafnir.



Jón G. Hauksson, fréttaritari DV á Akureyri skrifaði pistil í DV um hið dularfulla mál og sagði þar að sagan um huldufólk hefði „fengið byr undir báða vængi í Öxarfirði“. Pistilinn má lesa hér:

Dularfullur dauði Þverárhrossanna

Sagan um huldufólkið hefur fengið byr undir báða vængi í Öxarfirði, svo dularfullt þykir mönnum hvar týndu hrossin frá Þverá komu í leitirnar. Þau fundust á föstudaginn í gili ofarlega í fjallinu Sandfelli sem er um 3 km frá Þverá. Fjallið blasir við frá bænum. Enginn skilur hvað hrossin vom að gera uppi á fjallinu, hvað þá hvernig þau komust upp. Fjallið var kolófært í vetur, harðfrosið þegar hrossin týndust. „Það er fyrir mestu að hrossin em fundin. Ég varð að finna þau,“ segir Kristján Benediktsson, bóndi á Þverá, við DV í gær. Flestir skýra atburðinn þannig að hrossin hafi fælst og steðjað upp á fjallið, farið þar út á fönn og hrapað 100 metra niður snarbratta hlíðina, í gil ofarlega í fjallinu. Hestamir stöðvuðust á steinum, hastarlega. Sumir þeirra vom mölbrotnir. Fjórir vom ofar en þrír neðar í fjallinu, þeir höfðu farið fram af lítilli klettabrún þar. Næstneðstur var Lýsingur, foringi hópsins, 15 vetra, alinn upp á Þverá og hafði aldrei farið frá bænum. Hrossin voru öll ójárnuð og ekkert bar það með sér að brotnað hefði úr hófunum þegar þau klöngruðust upp fjallið. Og aldrei er vitað til þess að hross hafi farið upp Sandfell. Það sem meira er; fjallið var kolófært í vetur og vart fyrir aðra en vel útbúna klifurmenn að komast upp. Vélsleðamaður ætlaði í vetur að þeysa upp melrindann norðaustanmegin í fjallinu en það er eini staðurinn sem er uppgengur. Vélsleðamaðurinn varð að snúa við, svo miklir svellbunkar vom á leiðinni. Kristján bóndi flaug meðfram hlíð fjallsins í vetur. Engin vegsummerki sáust þá, ekki einu sinni jarðrask. Hrossin hurfu frá bænum snemma í janúar. Það var eins og jörðin hefði gleypt þau. Þótt hrossin séu fundin er málið bara enn dularfyllra. Seint á sunnudagskvöld vom hrossin dregin niður fjallið og urðuð við rætur Sandfells.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -