Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Íslensk yfirvöld ráku veikan rússneskan dreng úr landi: „Metum mannúðina meira en hegningarlögin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mál hins 11 ára gamla Yazan Tamimi er ekki eina dæmið í Íslandssögunni þar sem yfirvöld ætla sér að vísa veiku barni úr landi.

Árið 1921 flutti nefnilega til landsins 15 ára gamall rússneskur piltur, en hann var á vegum Ólafs Friðrikssonar ritstjóra Alþýðublaðsins. Drengurinn, Natan Friedman, hafði misst föður sinn sem var sonur þekkts verkalýðsforingja í Rússlandi, þegar hvítliðahersveitir tóku hann af lífi. Var ætlun Ólafs að ættleiða drenginn en eftir að í ljós kom að hann væri haldinn slæmum augnsjúkdómi, lagði landlæknir til við yfirvöld að drengnum yrði bannað að búa hér á landi. Stjórnarráðið fyrirskipaði að drengnum yrði komið í gufuskipið Botníu, sem færi frá landinu fjórum dögum eftir að hann kom til landsins.

Natan Friedman.

Ólafur taldi að ástæða yfirvalda væri af pólitískum toga, en ekki tengd ótta um útbreiðslu augnsjúkdómarins eins og haldið var fram, enda hefðu engar ráðstafanir verið gerðar til að einangra Natan eftir að sjúkdómurinn kom í ljós. Safnaði Ólafur því að sér mannskapi til þess að meina lögreglu aðgang að heimili hans, þegar til stóð að sækja Natan með valdi og flytja af landi brott. Tókst að halda köldum örmum laganna frá drengnum en aðeins fyrst um sinn.

Lögreglan safnaði 50 manna hópi hvítliða og slökkviliðsstjórinn 15 til viðbótar og réðust svo til atlögu. Komst lögreglan inn í hús Ólafs eftir að hafa sprengt hurðina og fann þar piltinn falinn bakvið rúmgafl en þegar hann var leiddur út úr húsinu beið lögreglunnar múgur og margmenni sem safnast hafði saman fyrir utan húsið og gerði heiðarlega tilraun til að hindra lögregluna í störfum hennar, enda mat fólk mannúðina meira en lögin. Eftir talsverðar stympingar tókst lögreglunni ætlunarverk sitt og flutti drenginn á brott og síðar aftur til Rússlands.

Að endingu var Ólafur og nokkrir menn til viðbótar dæmdir í hæstarétti í nokkurra daga fangelsi fyrir athæfið. Hér fyrir neðan má lesa umfjöllun Pressunnar frá árinu 1989 en neðar en það má lesa um nöturleg örlög Natans.

RÚSSNESKUR DRENGUR SENDUR BROTT MEÐ VALDI

Þann 1. mai árið 1922 var kveðinn upp dómur í Hæstarétti íslands. Málið var höfðað af hálfu réttvísinnar gegn sex mönnum er reyndu að hindra lögregluyfirvöld í því að flytja rússneskan dreng af landi burt, samkvæmt skipun ráðuneytis.

Forsaga málsins er sú að haustið 1921 fluttist til íslands, á vegum Ólafs Friðrikssonar ritstjóra, 15 ára gamall rússneskur drengur, Natan Friedman að nafni. Drengurinn var sonur þekkts verkalýðsforingja er hvítliðahersveitir höfðu líflátið. Var ætlun Ólafs að taka drenginn að sér og ala hann upp. Fljótlega eftir komuna kom það í ljós að drengurinn var haldinn næmum, illkynjuðum augnsjúkdómi sem óþekktur var í landinu. Að fengnum tillögum augnlækna í Reykjavík lagði landlæknir til við stjórnarráðið að piltinum yrði bannað að dvelja hér á landi. Skipaði stjórnarráðið svo fyrir að drengurinn skyldi fara burt ekki síðar en með gufuskipinu „Botníu“, er fara átti fjórum dögum síðar.

Pólitískar ofsóknir

- Auglýsing -

Eftir að Ólafi hafði verið birt tilkynningin urn að senda ætti rússneska piltinn af Iandi burt reyndi hann að semja við stjórnarráðið um styrk handa piltinum næstu árin, en án árangurs. Þann dag er „Botnía“ átti að leggja úr höfn sendi lögreglustjóri yfirlögregluþjón og tvo lögregluþjóna heim til Ólafs. Er þeir spurðust fyrir um drenginn svaraði Ólafur því að hann hefði ekki hugmynd um hvar hann væri.

Ólafur Friðriksson

Máli sínu til stuðnings bauð hann lögreglustjóranum að leita í húsinu, en því boði var ekki tekið. Yfirlögregluþjónninn hringdi yfir á lögreglustöð og tilkynnti að margir menn væru fyrir utan húsið í þeim tilgangi að hindra lögregluna í að ná piltinum. Kom það heim og saman við það er Ólafur hafði ritað í Alþýðublaðið, en hann var ritstjóri þess. í greinaskrifum fullyrti hann að um pólitískar ofsóknir gegn sér væri að ræða en ekki áhuga heilbrigðisyfirvalda á því að hefta útbreiðslu augnsjúkdómsins, þar sem þau hefðu engar ráðstafanir gert til að einangra piltinn eða koma honum í sjúkrahús. Sagði hann meðal annars: „Hér á að fremja hrópleg rangindi, og af því ég álít að það eigi að fremja þau á þessum dreng, af því að hann á mig að, þá ætla ég að nota allar aðferðir, og hverja þá, sem hentugust virðist, til að þessi rangindi verði ekki framin á drengnum.“

Fannst bakvið rúmgafl

Er lögreglustjóri frétti um ástandið bað hann A.V. Tulinius slökkviliðsstjóra að safna að sér mönnum eftir því sem hægt væri og aðstoða við að ná rússneska piltinum ef með þyrfti. Safnaði lögreglustjóri 50 mönnurn og slökkviliðsstjóri 15 mönnum. Beið hópur þessi í nánd við hús Ólafs á meðan lögreglustjóri fór heim að húsinu, ásamt lögregluliði. Hafði lögreglustjóri meðferðis réttarúrskurð fyrir því að gera mætti húsleit eftir rússneska piltinum, Er hann hitti Ólaf sagðist Ólafur ekki vita hvar pilturinn væri niðurkominn. Las þá lögreglustjóri upp húsleitarúrskurðinn og skipaði honurn að opna stofuhurðirnar fram í forstofu, sem voru læstar, en Ólafur neitaði.

Gerð var tilraun til að brjóta upp þakið á húsi Ólafar svo hægt væri að komast inn.

Lögreglustjóri skipaði þá mönnum þeim er inni í stofunni voru að opna, en þeir sinntu því ekki og svöruðu að Ólafur réði því hvort að opnað yrði. Lét lögreglustjóri þá brjóta upp hurð sem var á milli forstofunnar og svefnherbergis Ólafs og var fyrir innan stór skápur, er dreginn hafði verið fyrir hurðina. Inni í stofunni voru 17 menn. Bauð lögreglustjóri mönnum þessum að ganga út og hlýddu þeir því. Hóf lögreglan þá leit í íbúðinni og fann drenginn eftir langan tíma í fylgsni sem var bak við rúmgafl hjónanna og lá þar undir stiga.

- Auglýsing -

„Metum mannúðina meira en hegningarlögin“

Þegar lögreglan var búin að finna piltinn fór Ólafur Friðriksson út á tröppur við suðausturdyr hússins, en þar hafði safnast að múgur og margmenni, og kallaði hann til fólksins: „Nú eru þeir búnir að finna rússneska piltinn og koma bráðum með hann grátandi, en við látum hann ekki fara.“ Um líkt leyti fór og Hendrik Ottósson út úr íbúðinni og lét orð falla um að ekki ætti að líða lögreglunni að fara með piltinn og sagði hann orðrétt: „Við metum mannúðina meira en hegningarlögin.“ Rétt á eftir kom Sæmundur Gíslason lögregluþjónn út á tröppurnar við suðausturdyr hússins með drenginn. Ekki hafði verið rudd braut fyrir hann í gegnum mannfjöldann eins og ráðgert hafði verið. Stóð mannfjöldinn í þyrpingu fast upp við tröppurnar. Er Sæmundur kom út þrifu tveir menn, er stóðu sitt hvorum megin við tröppurnar, í fætur hans. Til þess að verjast falli varð hann að sleppa rússneska drengnum og grípa í handrið. Var lögreglukylfa tekin af honum og hann barinn með henni og sömuleiðis yfirlögregluþjónn sem næstur honum gekk. Kona Ólafs fór inn í hús með drenginn ásamt Ólafi og nokkrum öðrum mönnum. Gerðu þá lögreglufulltrúinn og tveir lögregluþjónar með honum tilraun til að komast á eftir þeim inn í húsið, en þeim var varnað inngöngu. Kom annar lögregluþjónninn fæti á milli og hurðar og karmsins, en þá barði Ólafur á fótinn á honum með steini er kastað hafði verið að utan inn um glugga, svo að lögregluþjónninn varð að draga fótinn til sín og lögreglan frá að hverfa. Enginn hlaut alvarleg meiðsli við ryskingarnar.

Sprengdu upp hurðina

Ólafur Friðriksson skýrði svo frá fyrir rétti að það hefði verið ætlun sín að hafa piltinn ekki á heimilinu þann 18. nóvember, þann dag er „Botnía“ átti að leggja úr höfn, heldur fela hann einhvers staðar annars staðar en vera sjálfur heima og hafa menn hjá sér til að villa lögreglunni sýn. En svo fór að hann fann engan stað er hann vildi láta piltinn í og kvaðst hann hafa treyst því að drengurinn myndi ekki finnast þar sem hann var falinn. Eftir 18. nóvember hafði Ólafur vörð manna í húsi sínu dag og nótt. Voru það aðallega menn sem til hans komu af sjálfsdáðum og hétu liðsinni sínu. Þriðjudaginn 22. nóvember skipaði stjórnarráðið skipstjórann á björgunarskipinu „Þór“, Jóhann P. Jónsson, aðstoðarlögreglustjóra og fól honum sérstaklega að bæla niður mótþróa þann gegn lögregluvaldinu sem því hafði verið sýndur. Kvaddi hann marga borgara bæjarins til liðs við sig og fór í broddi lögregluliðsins og varalögregluliðs þessa miðvikudaginn 23. nóvember heim til Ólafs Friðrikssonar, sem var heima og hafði í kringum sig rúmlega 20 manna vörð. Var hús Ólafs lokað en Ólafur var í forstofunni og nokkrir menn með honum og voru þeir vopnaðir spýtum. Tilkynnti aðstoðarlögreglustjórinn Ólafi að hann væri kominn til þess að taka hann fastan. Ólafur neitaði tilmælum um að gefa sig Iögreglunni á vald og opna húsið. Tjáði þá aðstoðarlögreglustjóri Ólafi að hann bæri alla ábyrgð á afleiðingum þess að óhlýðnast skipuninni. Lét hann þar næst sprengja upp hurðina og fór inn með mönnum sínum. Menn þeir er i húsinu voru sýndu ekki mótþróa og létu taka sig fasta „án þess að gjöra sig seka um óskunda á mönnum eða munum“. Voru þeir fluttir í fangelsi en öllum sleppt að lokinni lögregluyfirheyrslu, öðrum en Ólafi Friðrikssyni og Hendrik Ottóssyni. Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, Ólafur sat inni til 30. nóvember en Hendrik Ottósson til 29. sama mánaðar.

Drengurinn fannst uppi á lofti í húsinu og var hann fluttur þaðan og hafður í sóttvarnarhaldi þar til hann var sendur af landi brott. Ólafur sagði fyrir rétti að hann hefði ekki búist við því að yfirvöld myndu hlutast frekar um að taka Natan Friedmann með valdi vegna sáttaboðs er hann sagðist hafa fengið frá stjórninni þann 23. nóvember. Hins vegar hefði hann heyrt að liðsafnaður hefði verið í bænum og því haft vörð í húsi sínu dag og nótt eftir 18. nóvember. Ólafur óskaði eftir að bókað yrði eftir sér að hann teldi alla mótspyrnu gegn lögreglu og ofbeldi við hana í málinu sér að kenna og án hans gjörða myndi henni enginn mótþrói hafa verið sýndur. í dómi aukaréttar Reykjavíkur var einn aðili sýknaður, þrír aðilar voru dæmdir til að þola hver um sig fangelsi við vatn og brauð 3×5 daga. Refsing Hendriks Ottóssonar var ákveðin fangelsi við vatn og brauð 4×5 daga. Refsing Ólafs Friðrikssonar var ákveðin fangelsi við vatn og brauð 6×5 daga. Refsing aðilanna þriggja var lækkuð og var ákveðin fangelsi við vatn og brauð 2×5 daga en refsing Ólafs Friðrikssonar var ákveðin 8 mánaða betrunarhúsvinna. Að öðru leyti var dómur aukaréttar óraskaður.

Nöturleg örlög Natans

Þjóðviljinn fjallaði einnig um málið á fjörutíu ára afmæli atburðarins, þann 30. nóvember 1961. Hér fyrir neðan má lesa brot úr þeirri umfjöllun en þar fær íhaldið á baukinn en hvítliðar söfnuðu peningi handa Natani, sem hann þáði ekki. Þá segir frá nöturlegum örlögum Natans, sem talinn er hafa látist í útrýmingarbúðum nasista.

Hér er brot úr umfjöllun Þjóðviljans:

Það er til marks um hræsni íhaldsins, að það hafði hafið samskot til styrktar Nathan Friedman! Og það var sjálfur hvítliðaflokkurinn, sem hóf þau! Morgunblaðið tilkynnti 24. nóvembei’: „Rússneski drengurinn. Flokkurinn, sem tók hann, hefir þegar skotið saman 3000 kr. handa honum og samskötum verður haldið áfram. Verður þeim veitt viðtaka á skrifstofu Mbl.“ . Alþýðublaðið svarar þessu þannig: „Þetta „mannúðarverk“!I mun alstaðar mælast eins fyrir, hjá öðrum en óaldarflokknum. Þessi peningaplástur er hreint þorparabragð og sýnir betur en nokkuð annað harðýðgi og miskunnarleysi, óaldarlýðsins.“ Að sjálfssögðu gat Nathan Friedman ekki anna[ en vísað þessum hræsnisfullu mútum á bug: náungarnir sem handtóku hann og stóðu fyrir að brjóta niður allt hans líf, ætluðu að sýna „göfugmennsku‘‘ sína með því að rétta honum þessa sömu gömlu 30 peninga. Sjálfsagt hafa þeir margfaldað hina klassísku tölu með hundrað til þess að sýna jafnframt ríkidæmi íslenzks peningaskríls. Fé þetta mun að lokum hafa farið til greiðslu á bifreiðaleigu og stríðsöli því, sem hernum var úthlutað hvíta daginn.

Þann 25. nóv. skrifaði Nathan Friedman yfirlýsingu, sem birtist á þýzku í blöðum Reykjayíkur daginn eftir?. Þar segir m. ~a. (fr.ísl. þýð;):-, „Ég íýsi því yfir, að fé því. sem hvítliðarnir hafa safnað handa mér óska ég ekki eftir og mun ég heldur ekki veita viðtöku, þar sem ég er enginn betlari.  Og ég mun ekki hverfa héðan, fyrr en faðir minn og móðir vilja ekki lengur hafa mig. Nathan Friedman.“

Þann 28. nóvember var drengurinn fluttur af skyndingu mikilli um borð í „Gullfoss“. Fósturmóðir hans fékk ekki að vita, á hvaða tíma skipið ætti að fara, „þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, fyrr en á allra síðustu stundu, og gat hún því ekki komið öllum fötum hans með eða búið hann út sem hún vildi.“ (Alþbl. 29. nóv.).

Þegar, er drengurinn kom til Danmerkur var honum fengin sjúkravist á Eyrarsundsspítala. Um miðjan marz 1922 var hann útskrifaður af spítalanum sem alheilbrigður. Sést af því,hversu alvarleg veikindi hans hafa verið.

Jón Magnússon, hinn lítt skörulegi foi’sætisráðherra Islands, hafði lofað Ólafi Friðrikssyni og konu hans því, að þau fengju að ráðstafa drengnum í Danmörku eins og þau vildu, og munu þau hafa haft í huga að koma honum fyrir hjá venzlafólki frú önnu. Þetta loforð sviku íslenzk yfirvöld. Tilmælum af hálfu danskra yfirvalda um að drengnum yrði veitt landvistarleyfi hér eftir að hann var albata var vísað á bug af Jóni Magnússyni og kumpánum hans. Var þá drengnum vísað burt úr Danmörku, og kom hann til Sviss í byrjun apríl 1922.

Þar dvaldist hann um tíma hjá föðurbróður sínum, en settist síðan að í Frakklandi, og vann fyrir sér sem mynzturteiknari í fataverksmiðju. Hann kom öðru sinni til Íslands árið 1931, en festi ekki rætur hér og fluttist aftur til Frakklands. Síðustu fréttir bárust af honum árið 1942, og líkur benda til þess, að nazistar hafi ákveðið honum örlög í Auschwitz, eins og svo mörgum öðrum gyðingum. Víst er, að hann lét lífið á styrjaldarárunum. Sigurður Eggerz, sem tók við forsætisráðherraembætti eftir að Jón Magnússon hafði siglt sinni pólitísku fleytu í strand á Öndverðu ári 1922, hélt sömu lítilmennskustefnunni í þessu máli og fyrirrennari hans. Veitti hann Ólafi og konu hans aldrei neina hjálp til þess að heimta drenginn aftur heim til Íslands.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -