Hin sex ára Linda Rós átti sér einskis ills von þriðjudaginn 21. október árið 1975 þegar hún lék sér með vinkonu sinni í gangingum á Asparfelli 10 en húsið var þá ekki fullklárað. Konan sem passaði telpurnar hafði brugðið sér í þvottahúsið en kom hlaupandi þegar skaðræðisóp heyrðust úr Lindu litlu.
Köttur hafði sést væflast um í blokkinni í nokkra daga en það var einmitt hann sem var valdur af öskrum telpunnar litlu. Þegar barnfóstran Bára kom að telpunum var Linda Ósk á hnjánum og reyndi að verja sig fyrir trylltum kettinum sem læsti klærnum í þá stuttu. Kötturinn lét ekki af árás sinni fyrr en Bára sparkaði í hann.
Svo illa farin var Linda litla eftir klær kattarins að flytja varð hana á spítala þar sem hún gekkst undir aðgerð. Andlitið fór verst en hún hlaut einnig sár á hársvörðinn, á bakið og á lærið. Sagði móðir telpunnar í viðtali við blaðamenn að hún hefði ekki vilja ímynda sér hvernig þetta hefði endað ef enginn fullorðinn hefði verið á staðnum. Kötturinn, sem hafði sést leika sér við 10 mánaða barn fyrr um daginn, lét sig hverfa og þegar Dagblaðið fjallaði um málið daginn eftir, var hann ekki enn fundinn.
Hér má lesa frétt Dagblaðsins:
KÖTTUR RÉÐST Á SEX ÁRA TELPU
„Má ekki til þess hugsa hvað gerzt hefði ef fullorðinn hefði ekki komið að“, segir móðirin
„Þetta var alveg hræðilegt. Það blæddi svo mikið”, sagði Jórunn Melax, móðir Lindu Óskar 6 ára telpu, sem köttur réðst á i Asparfelli 10 í gær. „Kona húsvarðarins hringdi i mig í vinnuna en Linda var í pössun hjá Báru, konu í húsinu. Ég fór beint upp á Slysavarðstofu. Þeir gátu ekkert gert. Það varð að fara með hana á Landakot og kalla út sérfræðing til að gera aðgerðina. Það þurfti að taka tugi spora. Andlitið var verst og hún var lika klóruð i hársverðinum, á bakinu og á lærinu.” segir Jórunn. Þær voru tvær telpurnar að leik inni í ganginum í Asparfelli 10. Húsið er ekki fullfrágengið og aðaldyr vantar í suðurhlið. Svartur köttur hefur verið að flækjast um í blokkinni í nokkra daga og kom kona húsvarðarins að kettinum að leik við 10 mánaða gamalt barn á stofugólfinu fyrr um daginn. Bára sem passar telpurnar tvær var í þvottahúsinu, þegar hún heyrði veinin í telpunni og hvæsið í kettinum. Var Linda litla á hnjánum til að reyna að verja sig. Kötturinn hætti ekki fyrr en Bára sparkaði í hann. „Ég get ekki til þess hugsað hvað hefði skeð ef ekki hefði verið einhver fullorðinn í nánd”, segir Jórunn. Leitað hefur verið að kettinum, en hann hefur enn ekki fundizt. Linda Ósk liggur nú á Landakoti og líður vel eftir atvikum.