Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Kristjana stakk nýfætt barn sitt fimm sinnum – Átti barnið með stjúpa sínum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðfararnótt 6. ágúst árið 1913 fæddi Kristjana Guðmundsdóttir, 22 ára ógift kona í Furufirði, barn í baðstofu móður sinnar og stjúpa, þeirrar Elínar Jónsdóttur og Árna Friðriks Jónssonar. Enginn hafði vitað af meðgöngunni og ól hún það án þess að nokkur heimilismanna vaknaði. Hvað síðan gerðist var púslað saman eftir frásögn Kristjönu, Elínar og Ragnheiðar Jónsdóttur, yfirsetukonu.

Hófu holdlegt samræði

Fimm árum áður, árið 1908 hafði Árni Friðrik, þá 28 ára að aldri, kvænst Elínu, sem var ekkja með fjögur börn, meðal annars Kristjönu. Sumarið 1912 byrjar Árni að stunda „holdlegt samræði” við stjúpdóttur sína, Kristjönu og viðurkenndu bæði síðar að um þrjú slík tilvik hefði verið að ræða.

Kristjana hafði veturinn 1911 til 1912 verið í námi í Reykjavík til yfirsetu og má því teljast makalaust að hún hafi ekki gert sér grein fyrir að hún væri vanfær fyrir en tveimur til þremur dögum áður en að hún ól barnið eins og hún hélt síðar staðfastlega fram. Í umfjöllun og dómsorði þeirra tíma er hvergi efast um þá fullyrðingu hennar.

Ýtti frá hugsuninni

Kristjana sagði síðar fyrir dómi að þegar hún hafi fundið hreyfingar barnsins hafi hún álitið að töluvert væri eftir af meðgöngunni og hún myndi taka á málunum þegar að fæðingu kæmi. Sagði hún hafa ýtt hugsuninni frá sér en þó hefði henni komið til hugar að sennilega væri best að deyða barnið með að klippa í sundur naflastrenginn.

- Auglýsing -

Um kvöldið 5. ágúst finnur hún til verkja og ógleði og fæðir barnið um fimmleitið um morgunin. Sagði hún hjarta barnsins hafa slegið en ekkert hljóð hafi aftur á móti heyrst í því. Sagðist hún hafa gripið til skæra sem lágu á náttborði og ætlað að klippa naflastrenginn en verið óstyrk og því hefðu skærin runnið til í hendinni á henni og farið í barnið. Við yfirheyrslur síðar sagði hún skærin hafa verið á borðinu af tilviljun en ákæruvaldið dró það mjög í efa. Hvergi er þess getið í heimildum hvors kyns barnið var.

Garnirnar lágu úti

Þegar Elín, móðir hennar, fór á fætur um morgunin sá hún hvar barnið lá í rúminu hjá Kristjönu og var naflastrengunninn óklipptur. Elín bar vitni um að barnið hefði augljóslega verið dáið því það var orðið kalt. Ómögulegt er að geta sér til um viðbrögð hennar hvað þá samtal hennar við dóttur sína,  en má ætla að henni hljóti að hafa verið brugðið.  Tók Elín líkið af barninu eftir að hafa klippt á milli, setti í fat og út í skemmu. Var barnið það illa skorið á kvið að garnirnar lágu út. Því næst sendi Elín bróðir sinn með bréf til Ragnheiðar Jónsdóttur, yfirsetukonu á Höfðaströnd og bað hana um að senda krampalyf en best væri þó ef hún kæmi sem og Ragnheiður gerði.

- Auglýsing -

Ragnheiður sá strax hvað hafði átt sér stað en sá sér ekki fært vegna kostnaðar að senda sýslumanni bréf sem hún þó gerði með næstu póstferð sem ekki var fyrr en 20. ágúst, tæpum tveimur vikum síðar. Var þá búið að jarða barnið.

Með fullri ráð og rænu

Sýslumaður brást skjótt við og lét umsvifalaust grafa barnið upp og gerði héraðslæknir líkskoðun. Fundust tvær stungur á hálsi þess og þrjár á kvið. Héraðslæknir hélt því ennfremur fram að barnið hefði verið fullburða við fæðingu og fæðst lifandi. Hann hafnaði alfarið að barnið hefði kafnað, stungurnar hefðu orðið því að bana. Sýslumaður hafnaði því einnig að skærin hefði runnið til í hendi Kristjönu með þeim afleiðingum að barnið fékk fimm stungur.

Sýslumaður taldi að um ásetningsbrot væri að ræða þótt að Kristjana mótmælti því og bar fyrir sig að muna lítið atburði. Sýslumaður benti þá á hversu vel Kristjana hefði falið fæðinguna í þögn sem sannaði að hún hefði aldrei ætlað barninu líf. Hún hafi ennfremur farið fram á að fá krampalyf frá Ragnheiði sem sýndi að hún hafi verið með fullri ráð og rænu.

Dómur fellur

Þegar Elín fann líkið af barninu kvað Árni bróður sinn vera föður barnsins og fékk hann til að samþykkja það og skrá sig sem föður í kirkjubók. Þegar yfirvöld komu hins vegar að málinu og hófu yfirheyrslur gaf Árni sig og viðurkenndi að hafa barnað stjúpdóttur sína.

Bæði Kristjana og Árni voru kærð fyrir sifjaspell auk þess Kristjana var ákærð fyrir morðið á barninu. Bæði voru dæmd til betrunarhússvinnu, Árni í átta mánuði en Kristjana í þrjú ár. Ennfremur voru þau dæmd til að greiða laun talsmanns síns, fimm krónur, svo og laun sækjanda og verjanda, alls fimmtán krónur.

Ekki er að finna heimildir hvað síðar varð um þau Kristjönu og Árna né hvort Elín hafi slitið hjónabandinu í kjölfar atburðanna.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 12. júlí árið 2021 og var það Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir sem skrifaði hann

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -