Linda Ósk Wiium ákvað 19 ára gömul að ganga í norska herinn árið 1991 en DV sagði frá málinu árið 1992
Linda flutti út til Noregs en hún hafði áður unnið í blikksmiðju og á útvarpsstöð og útskrifast úr einkaritaraskóla á Íslandi. „Ég ætlaði mér ekkert sérstaklega að fara í herinn. Ég var atvinnulaus í sex mánuði og mér fór að leiðast. Þá sótti ég um að komast í norska herinn og fékk inni í apríl 1991. Þá var ekki aftur snúið,“ sagði Linda. Hún, eins og allir aðrir byrjaði sem óbreyttur hermaður en fékk fljótlega stöðuhækkun og varð flokksstjóri. Hún lauk svo árs herskyldu í landgönguhernum.
„Þetta var meiriháttar, það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Aginn var mikill. Þetta var erfitt og kostaði blóð, svita og stundum tár. Samheldnin var gífurleg. Vináttan, sem skapaðist milli hermanna, var nokkuð sem maður kynnist ekki undir öðrum kringumstæðum,“ en hún var ein fáum konum í norska hernum.
„Ég held að ég sé eina íslenska konan sem hefur verið í norska hernum. Mér var tekið rosalega vel. Auðvitað finnast leiðinda gaurar inn á milli. Maður verður bara að hafa bein í nefinu. Ég þurfti að horfa upp á að minnsta kosti fjórar stelpur gefast upp eftir nokkra daga í hernum. Þær þoldu hvorki líkamlega né andlega álagið.“
En Linda hætti hernum eftir herskylduna og var atvinnulaus um tíma en hún sóttist þá eftir ásamt vinkonu sinni að komast í friðgæslusveitir Sameinuðu Þjóðanna og sagðist ætla að stefna á að vera atvinnuhermaður.
„Við verðum tilbúnar ef kallið kemur og erum hvergi bangnar. Þetta er tækifæri sem maður fær bara einu sinni. Ég verð að berjast fyrir friðinum. Ég óttast ekkert ástandið í Júgóslavíu eða Líbanon. Ég gæti þess vegna verið send til Íraks,“ sagði Linda Ósk um framtíðina. „Ég hef lært að bera vopn og beita þeim ef með þarf. Það er aðeins einn hlutur sem ég hræðist. Þeir sem hafa verið á vígvöllunum segjast sumir hafa pissað á sig þegar þeir stóðu i fyrsta skipti fyrir framan byssuhlaup óvinanna. Ég vona að það komi ekki fyrir mig,“ sagði Linda að lokum í samtali við DV.