Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Lögregluþjónninn með haglarann: „Leit hann á okkur með drápsaugum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 19. apríl, árið 1990, átti sér stað atburður í Borgarnesi og í raun mesta mildi að málalyktir urðu ekki hörmulegri en raun bar vitni. Aðfaranótt sumardagsins fyrsta skaut ölvaður lögregluþjónn, á frívakt, úr haglabyssu á bifreið sem ekið var fram hjá fjölbýlishúsi þar í bæ.

Sem fyrr segir var sumardagurinn fyrsti handan hornsins og fjögur ungmenni voru í mesta sakleysi á rúntinum í blokkahverfi bæjarins. Sautján ára stúlku, sem var í bílnum, sagðist síðar svo frá: „Við vorum að keyra um í blokkahverfi þegar ég sá lögregluþjóna fyrir utan innganginn við eitt fjölbýlishúsið við Kveldúlfsgötu. Þeir virtust vera að reyna að komast inn – eitthvað var að. Ég vissi ekkert hvað var að gerast. Við keyrðum síðan eftir götunni og fórum hinum megin við húsið, svalamegin.“

Auk hennar voru í bílnum vinkona hennar, jafngömul, og tveir ungir karlmenn, rúmlega tvítugir að aldri. Að sögn stúlkunnar sagði einn mannanna skyndilega: „Sjáið þið manninn með byssuna.“ Þá litu þau öll upp og einn ungu mannanna sagði: „Sjáið þið manninn með byssuna?“ Á svölum einnar íbúðarinnar stóð maður sem þau vissu deili á og sennilega leist þeim ekki á það sem sáu. „Þá leit ég upp og sá mann, sem við vitum að er lögregluþjónn, úti á svölum með haglabyssu. Sá maður var ekki á vakt,“ sagði fyrrnefnd stúlka í samtali við DV á sínum tíma. Sagði stúlkan að maðurinn á svölunum hefði verið í úlpu og verið með haglabyssu í höndunum. Svalirnar tilheyrðu íbúð á miðhæð fjölbýlishússins. „Hann hafði greinilega verið að skjóta úr byssunni. Þegar hann sá okkur flýtti hann sér að setja önnur skot í byssuna. Hann miðaði síðan á bílinn og hleypti að minnsta kosti einu sinni af. Við beygðum okkur niður til að forðast skothríðina. Ég var á hægri ferð og beygði mig niður og náði því ekki að sjá alveg hvað var fram undan,“ sagði stúlkan sem sat undir stýri bifreiðarinnar. Stúlkan bætti við að þau hefðu orðið dauðskelkuð og skyldi engan undra það.

„Það heyrðust háir hvellir þegar skothríðin dundi á bílnum. Ég tók beygju og var næstum því búin að keyra á annan bíl. Skotin lentu á vinstri afturhluta bílsins. Ég leit aftur upp. Maðurinn virtist þá drífa sig að hlaða byssuna aftur til að skjóta. Ég var svo skelkuð að ég datt eiginlega úr sambandi á tímabili,“ hafði DV eftir stúlkunni.

Þegar þarna var komið sögu var klukkan að ganga fimm um morguninn.

Að sögn stúlkunnar biðu ungmennin ekki boðanna, óku á brott og beint niður á lögreglustöð til að kæra manninn. Þegar þau komu að lögreglustöðinni skoðuðu þau bifreiðina: „Ætli við höfum ekki verið í um fimmtíu metra fjarlægð frá manninum þegar hann skaut á okkur. Ég heyrði mikla hvelli þegar höglin lentu á bílnum. Við skulfum ansi vel á eftir. Þetta var hræðilegt og maður var í algjöru sjokki þegar þetta stóð yfir.“

- Auglýsing -

Sem fyrr segir sáu ungmennin í upphafi þessarar atburðarásar lögregluþjóna við húsið og því ljóst að þeir höfð heyrt af umræddum kollega sínum og því sem hann var að dunda sér við á svölunum.

„Skotmaðurinn hafði eitthvað verið að munda byssuna fyrr um nóttina. Við komum svo aftur að húsinu þegar búið var að ná manninum. Þá voru þrír lögregluþjónar komnir. Þegar skotmaðurinn var leiddur út leit hann á okkur með drápsaugum. Hann var leiddur niður, í Rambó-úlpu, var með bjór í hendinni og gekk óhandjárnaður út,“ sagði stúlkan.

Rúnar Guðjónsson sýslumaður vildi lítið tjá sig við DV og sagði að erfitt væri að segja nokkuð því um væri að ræða starfsmann lögregluembættisins. Gat Rúnar ekki einu sinni upplýst hvort skotglaði lögregluþjóninn hefði verið færður í fangageymslur í kjölfar atviksins.

- Auglýsing -

Í desember sama ár ákærði Ríkissaksóknari umræddan lögregluþjón og var krafist refsingar samkvæmt 4. málsgrein 220. greinar almennra hegningarlaga. Í henni segir: „Varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum skal sá sæta, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.“ Einnig var þess krafist að haglabyssa lögregluþjónsins yrði gerð upptæk. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -