Guðni Kristjánsson var illa séður á elliheimili á Stokkseyri eftir að hann dreifði mannasaur í grennd þess árið 2002.
Íbúar á Stokkseyri voru allt annað en sáttir þegar mannasaur úr rotþró var dreift á tún í bæjarfélaginu. Lyktin var svo sterk að íbúar elliheimilis í bænum kvörtuðu til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
Guðni Kristjánsson staðfesti í samtali við DV árið 2002 hann hafi staðið fyrir þessu og að Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi sett sig í samband við sig vegna málsins. „Þeir voru að tala um reglur sem ég þekki ekki. Maður verður að kynna sér þær,“ sagði Guðni um málið en honum fannst heldur mikið gert úr málinu.
„Ég bý sjálfur nálægt þar sem ég sullaði þessu niður. Þetta hlýtur að vera einhver hystería. Það var nánast logn á Stokkseyri í gær og í morgun,“ segir hann um viðbrögð íbúa. „Við erum búin að gera þetta í áratugi og ég veit ekki hvernig bændur um allt land hegða sér í þessu. Eitthvað verður að gera við þetta og einhvers staðar endar þetta allt. Bændur setja jú skít á tún. Það er verið að tala um lífræna ræktun. Er einn skítur öðrum betri í þeim efnum?“ velti hann fyrir sér.
„Mannasaur er dálítið stórt að taka upp í sig. Við tölum um seyru þegar þetta hefur farið um rotþró. Það breytir því þó ekki að bannað er að bera seyru á tún og við höfum veitt manninum tiltal. Hann lofar betrun. Málinu er lokið,“ sagði Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, í samtali við DV.