Það var ófögur sjón sem blasti við starfsmönnum leikskólans Furukots á Sauðárkróki þegar þeir mættu til vinnu einn dag í október árið 1995
Miklar skemmdir höfðu verið unnar á leikskólanum. Spýtur lágu út um alla lóð og leiktæki og húsið sjálft verið skemmt. Niðurfallsrör voru rifin niður og brotin af húsinu og þá hafði stigi upp í kastala verið mölbrotinn. Þá hafði mannasaur verið troðið innan um bréfalúgu leikskólans.
„Við höfum ekkert á móti því að börnin séu að leika sér hér á kvöldin, en það er slæmt ef að örfáir einstaklingar eru að skemma fyrir heildinni. Það er greinilegt að hér um helgina hafa verið á ferð eldri krakkar. Það þarf krafta til að framkvæma þær skemmdir sem hér voru unnar. Síðan er það sem okkur þykir einna verst, að hér hefur fólk verið að gera þarfir sínar, sandkassinn virðist t.d. vera vinsæll til þess“, sagði Sigríður Stefánsdóttir, leikskólastjóri Furukots, í viðtali við Feyki árið 1995 um málið.