Ólafur Þór Ragnarsson og fjölskylda hans lentu í ótrúlegu atviki árið 1996. „Ég var í móki á spítalanum alveg þar til á fimmtudag að ég fór að taka aðeins við mér. Þó var ég mjög hissa að systur minar hér í borginni væru ekki enn komnar í heimsókn. Um kvöldið kom hjúkrunarkona inn til mín og sagðist hafa séð mynd af mér í sjónvarpinu þar sem sagt var að ég væri týndur og það stæði yfir leit að mér,“ sagði Ólafur Þór Ragnarsson við DV um málið árið 1996. Þannig var mál með vexti að Ólafur var á gangi í Fossvogskirkjugarði þegar það leið yfir hann. Hann vaknaði mörgum klukkutímum síðar og náði að koma sér á Sjúkrahús Reykjavíkur sem var skammt frá. Hann bað um að haft yrði samband við aðstandendur sína en af einhverri ástæðu var það ekki gert og lýsti fjölskylda Ólafs eftir honum og var hann talinn týndur í þrjá daga. „Það fyrsta sem ég gerði var að gefa hjúkrunarfólki upp símanúmer konunnar minnar og systur svo þær væru ekki áhyggjufullar því ég áttaði mig á að ég hafði verið týndur í marga klukkutíma. Læknar á slysadeild sáu á sjúkraskýrslum að ég hafði verið í rannsóknum á Landspítalanum og sendu mig þangað síðar um nóttina. Þegar þangað kom ítrekaði ég að hringt yrði heim til mín og í systur mína og látið vita af mér. Því var lofað og ég var því frekar rólegur þegar ég var sprautaður í mænuna og missti meðvitund. Þetta hefur auðvitað verið hræðilegur tími fyrir aðstandendur mina og vini sem voru skelfingu lostnir og töldu að eitthvað ægilegt hefði komið fyrir mig,“ sagði Ólafur en Landspítalinn og Sjúkrahús Reykjavíkur vildu ekki tjá sig um Ólaf og hans mál en samkvæmt heimildum DV var málið í rannsókn á báðum stöðum til að komast að því hvað klikkaði. „Við settum þann viðbúnað í gang sem okkur fannst tilhlýðilegur samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum um manninn. Það er það eina sem ég vil segja um þetta mál en það sem skiptir öllu máli er að maðurinn fannst á lífi,“ sagði Jónas Hallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um þetta stórfurðulega mál á sínum tíma.