Laugardagur 18. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Ólga eftir að leynileg upptökutæki fundust á skrifstofu þjóðleikhússtjóra: „Fullkomlega meinlaust“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Uppi varð fótur og fit í Þjóðleikhúsinu sumarið 1981 þegar leynileg upptökutæki fundust á skrifstofu þjóðleikhússtjóra.

Í Baksýnisspegli kvöldins kíkjum við á áhugaverða frétt frá árinu 1981 en þá um sumarið varð mikil ólga hjá starfsfólki Þjóðleikhússins eftir að leynileg upptökutæki fundust á skrifstofu Sveins Einarssonar, þáverandi þjóðleikshússtjóra.

Sveinn Einarsson

Sveinn hafði farið utan með leikhóp að sýna uppfærslu á leikritinu Stundarfrið í Þýskalandi og Danmörku en bað um að gólfteppi yrði fjarlægt á skrifstofu hans á meðan hann væri úti, og parket lagt þar í staðinn. Erfiðlega gekk að losa skáp sem þurfti að færa við framkvæmdirnar en síðar komu í ljós leiðslur úr földum upptökutækjum sem staðsett voru bakvið skápinn.

Sveinn gerði lítið úr málinu og sagði tækin hafa verið þar þegar hann hafi tekið við sem þjóðleikhússtjóri árið 1973 og að hann notaði tækin ekkert. Þegar blaðamaður Vísis spurði hann af hverju hann hefði látið endurnýja tækin, ef hann notaði þau aldrei, svaraði Sveinn því til að það hefði verið til öryggis, skyldi hann þurfa á því að halda.

Haldinn var fundur í Þjóðleikhúsinu vegna málsins en þar virðist hafa náðst sáttir enda starfaði Sveinn sem þjóðleikhússtjóri í tvö ár til viðbótar eftir upptökumálið. Seinna sama mánuð skilaði Sveinn af sér greinagerð um málið þar sem hann sagðist aldrei hafa notað tækin og sé nú búinn að láta fjarlægja búnaðinn af skrifstofunni.

Hér má sjá umfjöllun Tímans um málið:

- Auglýsing -

FÖLDU UPPTÖKUTÆKIN VALDA MIKILLI ÓLGU

– mikil fundahöld í Þjóðleikhúsinu í dag

Mikil ólga er meðal starfsfólks Þjóðleikhússins eftir að leynileg upptökutæki fundust sl. þriðjudagsmorgun á skrifstofu þjóðleikhússtjóra. Er ljóst aö þjóðleikhússtjóri hefur verið í þeirri aðstöðu að geta tekið upp öll samtöl og fundi sem átt  hafa sér stað á skrifstofu hans og kann margt af starfsfólkinu því illa. Nýlega fór Sveinn Einarsson þjóðleikhússtjóri utan með leikhópi frá leikhúsinu sem sýndi uppfærslu á leikritinu Stundarfrið í Þýskalandi og Danmörku. Bað hann um að gólfteppi sem er á skrifstofu hans yrði fjarlægt en parket sett á í þess stað á meðan að hann væri erlendis. Til að koma parketinu á, þurfti að færa forláta skáp á skrifstofunni til en gekk illa að losa hann. Síðar komu i ljós leiðslur sem lágu bakvið hann. sem smiðirnir sem unnu verkið kunnu ekki skil á. Fylgdu þeir leiðslunum og kom þá í ljós falinn hljóðnemi í gluggaköppum yfir glugga. Við enn betri athugun kom i ljós fótrofi svipaður og notaður er við ljósaskipti í bílum, við innanvert skrifborð þjóðleikhússtjóra sem hægt var að setja upptökutækin á stað með. Segulbandstækið var einnig tengt við símann á skrifstofunni, þannig að hægt var að taka upp öll símtöl, sem áttu sér stað í gegnum hann. Símahlerunin hefur verið skýrð á þann hátt, að oft komi til ráðninga á erlendum skemmtikröftum eða leikurum erlendis frá í gegnum síma, þar sem skriflegir samningar liggi ekki fyrir. Í þeim tilvikum sé gott að hafa upptökur af símtölunum, ef mál gerast blandin og menn verða ekki ásáttir um hvað var samið. Starfsmenn Þjóðleikhússins eru nokkuð dúsir við síma upptökurnar en hins vegar skilja þeir ekki þá leynd sem viðhöfð var við uppsetningu hljóðnemans á skrifstofu þjóðleikhússtjóra. Eru menn sárastir vegna þess möguleika sem var á að taka upp persónuleg samtöl, sem þar áttu sér stað. „Það eru ýmsir starfsmannanna að rifja upp nú hvað þeir hafi sagt þarna og maður hefur fullkomna ástæðu til að láta sér detta í hug það versta, fyrst þetta var svona”, sagði einn starfsmaður Þjóðleikhússins í samtali við Tímann. „Ég frétti um þetta, og alls konar sögur sem væru í gangi. Mér fannst því rétt að fara þarna niður eftir og kynna mér hvað væri til í þessu”, sagði Haraldur Ólafsson, formaður þjóðleikhúsráðs í samtali við Tímann. „Ég hef ekki rætt þetta við neinn og veit ekki annað en þetta sé allt eðlilegt. En ég veit ekki allt”, sagði Haraldur. Í dag er fundur í þjóðleikhúsráði og má búast viö að upptökutækin verði þar m.a. til umræðu. „Ég vil ekki úttala mig um þetta mál”, sagði Flosi Ólafsson, formaður Félags leikara við Þjóðleikhúsið í samtali við Tímann í gær. Tíminn reyndi að ná sambandi við Jóhönnu Norðfjörð, formann starfsmannafélags starfsfólks í Þjóðleikhúsinu en tókst ekki. Starfsfólk Þjóðleikhússins mun ætla að hittast í dag og ræða þetta mál. Á fundi með nokkrum starfsmönnum Þjóðleikhússins á miðvikudagsmorgun kvaddi Sveinn Einarsson sér hljóðs í upphafi fundar og kvaðst vona að enginn færi að væna hann um að hafa misnotað upptökutækin.

„Fullkomlega meinlaust“

— segir Sveinn Einarsson

„Það hafa engin samtöl verið tekin upp á þessi tæki“, sagði Sveinn Einarsson, þjóðleikhússtjóri, í samtali við Tímann, þegar hann var spurður að því til hvers upptökutækin væru notuð, sem fundust á skrifstofu hans. „Það er hægt að tengja þau, þegar maður þarf að hafa samband við útlönd, og það er allt og sumt. Síðan er hægt að spila af spólum ef við þurfum á slíku að halda“, sagði Sveinn. … — En nú eru þetta ekki einungis símahlerunartæki? „Það eru einnig til hljóðnemar inn í herberginu, en þeir hafa ekki verið notaðir”, sagði Sveinn. — Starfsmenn þurfa þá ekki að óttast, að persónuleg samtöl þeirra við þig hafi verið tekin upp á segulband? „Ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta bara svona grípur um sig. Þetta eru nákvæmlega eins upptökutæki og eru í annarri hverri skrifstofu í Reykjavík.” — Hvað hefur þessi háttur verið hafður á lengi? „Það var svona tæki þegar ég kom í húsið”, sagði Sveinn, „og hefur víst verið alla tíð, að því er mér hefur skilist. Hins vegar lét ég endurnýja þau í vetur. Þau hafa ekki verið notuð í neinum öðrum tilgangi en nauðsynlegt er, og annað aldrei staðið til. Þannig er þetta fullkomlega meinlaust, og það sem meira er, þetta hefur ekkert verið notað. Fólkið í húsinu vill helst ekki að það verði gert neitt veöur út af þessu, því þetta er eðlilegur hlutur, og alls ekki neitt fréttaefni”, sagði Sveinn Einarsson, þjóðleikhússtjóri. 

Vísir fjallaði einnig um málið og gekk svolítið hart að þjóðleikhússtjóranum sem svaraði fimlega. Hér er brot úr þeirra umfjöllun:

„Það er enginn búnaður undir teppi á skrifstofu minni mér vitanlega”, svaraði Sveinn Einarsson Þjóðleikhússtjóri beinni spurningu Vísis um það efni, „en það er hægt að setja í samband tæki, skilst mér”, sagði Sveinn

- Auglýsing -

Blaðamaður spurði Svein til hvers hann væri að láta endurnýja búnað, sem aldrei væri notaður. „Vegna þess að það koma upp dæmi, sem hefðu getað gert það að verkum eftir að farið var að nota simann meira”. En hvers vegna ertu með búnað til að taka upp inni á skrifstofunni, ef þú þarft ekki á því að halda? „Hvernig væri ef ég þyrfti á því að halda og segði: við skulum taka þetta samtal upp á band?” Er auðvelt að gangsetja upptökutæki þitt án þess að aðrir verði varir við? „Ég kann ekki um það að segja”. Hvar var búnaðurinn til að setja tækið i gang staðsettur? „Nú er ég bara ákaflega illa að mér tæknilega”. En þú vissir hvernig átti að setja þau i gang? „Ég þurfti einu sinni á þvi að halda.varðandi samtal við útlendan mann, það er rétt. Þá fékk ég starfsmann til þess að ganga frá þvi”. Þú veist þá ekki hvar þessi tæki eru? „Ég veit til dæmis ekki hvar þessi hljóðnemi var staðsettur, hef ekki hugmynd um það”. Er uppsetning þessara tækja óbreytt frá þvi þú lést endurnýja þau? „Já”. Geturðu fengið starfsmann til að sýna okkur hvernig þessi búnaður er og hvernig hann er settur i gang? „Við skulum athuga það”, sagði Sveinn Einarsson Þjóðleikhússtjóri.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -