Föstudagur 13. september, 2024
1.8 C
Reykjavik

Ósyndur sjómaður bjargaði konu frá drukknun en fékk svo reikning fyrir sjúkrabíl: „Þetta er sárt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Spánverjinn Óskar Montes bjargaði lífi konu sem féll í Reykjavíkurhöfn en fékk svo bakreikning fyrir sjúkrabílnum og var hreint ekki ánægður.

Sjómaðurinn Óskar Montes hafði árið 1994 búið á Íslandi í níu ár en hann vann um borð í Vestmannaey. Í lok desember 1993 vann hann hetjudáð þegar kona sem hafði verið farþegi í skipi hans féll í sjóinn við Reykjavíkurhöfn. Stökk okkar maður rakleitt á eftir konunni, þrátt fyrir að kunna sjálfur ekki að synda. Kafaði Óskar á eftir konunni og náði að draga hana upp og halda á floti í dágóðan tíma áður en þeim var báðum bjargað upp á land.

Óskar var aðframkominn þegar aðra bar að og gafst hreinlega upp og var fluttur með sjúkrabíl á Borgarspítala en fyrir þann flutning fékk hann 5.000 króna reikning sem hann var afar ósáttur með, enda hafði hann bjargað lífi konunnar og ætti ekki að þurfa að borga krónu fyrir það. Þá var hann einnig ósáttur við að vera klæddur í larfa og útskrifaður af sjúkrahúsinu auk þess að þurfa að borga leigubílinn aftur í skipið.

Hér má lesa umfjöllun DV frá 1994:

Maður sem var hætt kominn við björgun konu í Reykjavíkurhöfn:
Láta mig borga fyrir að hætta Iífi mínu

– sendur reikningur fyrir sjúkrabíl, klæddur í larfa og útskrifaður

„Þetta er sárt. Mér er alveg sama um þennan pening. Þetta eru ekki nema 5000 krónur. Þeir geta kannski notað þetta í eitthvað en mér dettur ekki til hugar að borga þetta. Það er prinsippmál. Ég hætti lífi mínu til að hjálpa konunni svo á að láta mig borga fyrir það. Það er tómt rugl,“ segir Óskar Montes, sjómaður um borð í Vestmannaey.
Óskar, sem er frá Spáni en hefur búið hér í 9 ár, var hætt kominn í lok desember þegar hann kastaði sér eftir konu sem hafði fallið á milli skips og bryggju í Reykjavíkurhöfn. Konan hafði verið um borð í Vestmannaey, togara sem Óskar er skipverji á. Óskar, sem er ósyndur, lét það ekki aftra sér frá að henda sér í sjóinn. Honum tókst að kafa á eftir konunni og halda henni á floti í talsverðan tíma.

Fékk reikning

Þegar aðrir komu á vettvang var Óskar hins vegar orðinn örmagna og gafst hreinlega upp. Honum var bjargað á land ásamt konunni, sem hann hafði bjargað, og fluttur með sjúkrabíl á Borgarspítala. Fyrir sjúkrabílinn fékk Óskar svo sendan nýlega 5000 þúsund króna reikning sem hann talar um hér að framan.
„Mér líður aldrei vel á sjúkrahúsum þannig að ég spurði hvort ég mætti ekki fara. Svarið var jú. Gallabuxurnar mínar, skyrta og skór voru sett rennblaut í plastpoka. Ég var klæddur í svakalega stórar nærbuxur, stórar gammosíur, sokka og plastboka yfir þá. Yfir mig fékk ég svo stórt teppi og var sagt að fara út. Ég fór niður og hringdi á leigubíl sem keyrði mig niður í skip. Leigubílinn þurfti ég svo að borga sjálfur. Þetta myndi aldrei koma fyrir á Spáni. Ég var reiðubúinn að fóma lífi mínu og svona er komið fram við mann. Ég er ekki að óska eftir heiðursmerki en þetta fannst mér fúll gróft,“ segir Óskar.

Þurfti lækni og lyf

Óskar eyddi svo gamlárskvöldi á hótelherbergi á Hótel Borg þar sem hann veiktist eftir volkið í sjónum. Hann fór til vinafólks síns í Mosfellsbæ og þar var kallað á lækni því alltaf versnaði heilsan. Í ljós kom að hann hafði fengið snert af taugaáfalli. Hann þurfti að kaupa lyf, sem hann borgaði sjálfur, því hann fékk martraðir í langan tíma á eftir. Í samtals tvær vikur lá hann í veikindum en var ekki frá vinnu þar sem sjómannaverkfallið stóð yfir þegar þetta var. Loks má geta þess að hann týndi linsum, sem hann notar, þegar hann stakk sér í sjóinn eftir konunni og þurfti að kaupa nýjar fyrir 20 þúsund krónur.
Þrátt fyrir þetta segist Óskar munu endurtaka þetta ef á þurfi að halda en menn ættu þó að hugsa hvernig komið er fram við þá sem em að reyna að koma einhverju góðu til leiðar. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -