Fimmtudagur 24. október, 2024
1.6 C
Reykjavik

Paul Adalsteinsson reyndi að fjárkúga meðlimi konungsfjölskyldunnar- Ráðabrugg lukkuriddara

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Maður er nefndur Paul Adalsteinsson. Paul var af íslenskum ættum, en afi hans hét Páll Aðalsteinsson. Páll fluttist búferlum frá Íslandi til Grimsby á Englandi á fyrri hluta 20. aldar og var þar meðal annars skipstjóri. Paul fæddist árið 1976 í Aberdeen í Skotlandi. Foreldrar hans skildu árið 1985, þegar Paul var níu ára, en hann ákvað þá að taka upp ættarnafn breskrar móður sinnar, Elizabeth Strachan, og gekk þaðan í frá undir nafninu Ian Strachan. En allt um það.

Barst mikið á

Af ævi Ians segir fátt fyrr en hann komst í fréttir árið 2005. Um þær mundir gekk hann undir nafninu Charles Goldstein og gaf sig út fyrir að vera umsvifamikill fasteignasali og skreytti sig að auki með lögmannstitli. Þetta gerði honum kleift að dandalast eitthvað með elítunni þar og þá. Allt í fari hans bar þess merki að honum vegnaði vel; fötin voru klæðskerasaumuð og hann virtist lifa lífi þar sem kampavín og kavíar komu mikið við sögu. Vinum sínum sagði hann að hann hefði erft fúlgur fjár eftir ömmu sína og ekki voru bestu vinir hans neitt slor. Þeirra á meðal voru, að hans sögn, prinsarnir og bræðurnir William og Harry.

Bjó heima hjá mömmu

Ian var háður lyfseðilsskyldum lyfjum og var sagður bryðja þau eins og sælgæti. Til að verða sér úti um þau notaði hann ýmis nöfn; Ian Strachan, Paul Adalsteinsson, Charlie Goldstein og Paul Stein. Sögur af velgengni Ians voru verulega ýktar, svo ekki sé tekið dýpra í árinni, og reyndin allt önnur. Ian hafði fátt til að guma sig af; hann hafði gefist upp á háskólanámi og bjó heima hjá mömmu sinni. Í Daily Record sagði að fjölskylda Ians, sem hann hafði þá fjarlægst, hefði gert gys að fullyrðingum um elítulífsstíl Ians; hann væri svo sannarlega enginn „Kampavíns-Kalli (e. cham-pagne Charlie)“, eins og lögfræðingur hans síðar meir kallaði hann. Frændi Ians, hóteleigandi í Aberdeen, sagði: „Mér er til efs að hann eigi skyrtuna sem hann klæðist.“

Þannig var nú það.

- Auglýsing -

Svæsið myndband

Árið 2005 fékk Ian frábæra hugmynd til að hagnast verulega, eða svo hélt hann. Ian og maður að nafni Sean Mc-Guigan hugðust verða sér úti um 50.000 sterlingspund með fjárkúgun. Þeir réðust ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, því fórnarlambið tilheyrði bresku konungsfjölskyldunni. Félagarnir sögðust hafa í fórum sínum myndskeið sem sýndi helsta aðstoðarmann, „right hand man“, þess konungborna sniffa kókaín af miklum móð og nota við athöfnina kreditkort frá Harrods. Harrods-kort ku víst vera afar fáséð og ekki á hvers manns færi að komast yfir slíkt. Það var þó ekki allt, því einnig átti myndbandið að sýna aðstoðarmanninn og þann konungborna stunda kynlíf saman á meðan nektardansmey frá Stringfellow-klúbbnum horfði á, sú hét Cindy. Einhver annar konungborinn er einnig nefndur til sögunnar, en sá dinglaði kynfærum sínum að Ian; „waved his willy“, eins og segir á vefsíðu Daily Mail.

Enginn vildi kaupa

- Auglýsing -

Þegar þarna var komið sögu höfðu þeir kumpánar leitað hófanna hjá Max nokkrum Clifford. Max þessi ku ekki hafa verið vandaður pappír um þær mundir og hrærðist í vafasömum kreðsum. Hann var einkum þekktur fyrir að reyna að selja slúðurblöðunum frásagnir af ástarævintýrum fólks sem eitthvað átti undir sér. Þegar félagarnir Ian og Sean viðruðu möguleg viðskipti við Max Clifford, kom á daginn að ekki einu sinni hann vildi snerta á því sem þeir höfðu að bjóða. Þeir reyndu að selja öðrum dagblöðum myndbandsupptökuna, en sneru bónleiðir til búða. Því var fátt annað í stöðunni en að ganga beint til verks og kúga fé út úr þeim konungborna, sem var hvorki meira né minna en systursonur Elísabetar Englandsdrottningar.

Gripnir glóðvolgir

Frá því er skemmst að segja að þetta ráðabrugg lukkuriddaranna fór ekki sem skyldi og þeir voru handteknir 11. september, 2007. Lögreglan fékk 50.000 sterlingspund sem nota átti sem beitu til að hafa hendur í hári fjárkúgaranna og Ian og Sean voru handteknir á hóteli í London af óeinkennisklæddum lögreglumönnum úr hryðjuverkadeild bresku lögreglunnar. Þeir félagar, Ian og Sean, áttu sennilega von á hinum konungborna, eða fulltrúa hans, með 50.000 pund í farteskinu og eflaust kom handtakan þeim í opna skjöldu. Ian og Sean voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Belmarsh-fangelsi og skyndilega staddir í hringiðu fjölmiðlanna, en ljóst var að þeir myndu aldrei komast í álnir með þeim hætti sem þeir hugðust. Þeir sóttu um lausn gegn tryggingu 2. nóvember og aftur 8. desember, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Báðir lýstu yfir sakleysi sínu við forréttarhöldin 20. desember, 2007. Ian og Sean þurftu nú að að huga að vörnum í málinu, en réttarhöldin hófust 14. apríl, 2008.

Vafasamur verjandi

Í fararbroddi í vörn Ians var Giovanni Di Stefano, alræmdur og margdæmdur svikahrappur. Hann mun vera réttindalaus með öllu í þeim efnum. Á meðal viðskiptavina hans, að eigin sögn, má nefna Saddam Hussein, forseta Íraks, Slobodan Milosevic, forseta Serbíu, og glyspopparann, kynferðisbrotamanninn og barnaníðinginn Gary Glitter. Di Stefano hefur verið bannað að koma nálægt slíkum málum í Bretlandi og hefur ekki réttindi til að starfa sem lögmaður á Ítalíu. Sagan segir að hann hafi verið útlægur ger frá Bandaríkjunum og enginn aufúsugestur á Nýja-Sjálandi, en þarlend yfirvöld hafa bannað honum að flytjast til landsins. Giovanni Di Stefano hefur verið sakfelldur fjórum sinnum á Írlandi og Bretlandi, alla jafna fyrir svik og pretti. Dómari einn sagði um Di Stefano að hann væri: „einn mesti svikahrappur í heimi.“ Árið 2013 fékk Giovanni Di Stefano 14 ára dóm eftir að hafa verið fundinn sekur um 27 ákæruatriði, meðal annars að villa á sér heimildir. En allt þetta er önnur saga.

Velvild, ekki hagnaðarvon

Við réttarhöldin vísuðu Ian og Sean báðir sakargiftum á hendur sér á bug. Þeir fullyrtu hins vegar að þeir hefðu haft að leiðarljósi hagsmuni systursonar Elísabetar drottningar og velferð. Þeim hefði verið umhugað um að forða honum frá fári miklu. Ekki var lagður trúnaður á þá útskýringu; tilgangurinn hefði eingöngu verið að komast yfir fé. Í maí, 2008, voru Ian Strachan og Sean McGuigan sakfelldir fyrir tilraun til fjárkúgunar. Hvor um sig fékk fimm ára dóm, en kostnaður vegna rannsóknarinnar og réttarhaldanna mun hafa farið yfir eina milljón sterlingspunda. Ekki hafði þá verið gerð tilraun til fjárkúgunar á hendur konungsfjölskyldunni í meira en eina öld og var það mat margra að hin kostnaðarsömu réttarhöld hefðu verið helst til „yfirdrifin viðbrögð“. Ian Strachan afplánaði tæplega helming dómsins.

Ian flýr land

Það bar til tíðinda árið 2010 að Ian Strachan, sem þá hafði leitað á bernskuslóðir í Skotlandi, hefði flúið land og þannig sennilega rofið skilorð sem fylgdi styttingu afplánunar hans á bak við lás og slá. Ekki var vitað hvert Ian hafði farið, en talið nokkuð víst að áfangastaður hans hefði verið ríki sem ekki hafði framsalssamning við Bretland. Í Daily Record er haft eftir Ian: „Ég var búinn að fá nóg af þessu. Þeir hótuðu að henda mér aftur í grjótið ef ég setti mig upp á móti dómnum sem ég fékk.“ Ian fullyrti að hann hefði gengist undir lýtaaðgerðir og breytt útliti sínu svo hann yrði óþekkjanlegur. Að hans sögn kostuðu aðgerðirnar 34.000 sterlingspund. „Ég verð á flótta, þar til sakleysi mitt verður sannað,“ sagði Ian. Stjórnvöld í Skotlandi gáfu út handtökuskipun á hendur Ian, en talið var að hann nýtti sér tvöfaldan ríkisborgararétt, íslenskan og breskan, á flóttanum.

Aflimun og farbann

Segir ekki meira af ævintýrum Ians fyrr en árið 2013. Þá lenti hann í því óhappi að falla niður af svölum. Fallið var 10 metrar og það segir sig kannski sjálft að slíkt er engum manni hollt. Taka þurfti af Ian vinstri fótlegg auk þess sem mjaðmagrindin hlaut verulegan skaða af. Í kjölfarið neytti Ian kókaíns reglulega og drakk stíft, að sögn til að þola óbærilegan sársauka vegna aflimunarinnar. Ætla má að sjaldan hafi verið lognmolla þar sem Ian Strachan var á ferð. Í desember, 2015, varð hann enn og aftur fréttaefni breskra fjölmiðla. Þá var hann staddur í Dúbaí undir nafninu Charles Goldstein. Þar hafði hann, að eigin sögn, þjáðst í átta mánuði og vegabréfið hafði verið tekið af honum. Honum var meinað að yfirgefa landið fyrr en hann hefði greitt 100.000 sterlingspund sem hann var krafinn um af lúxusbílaleigu þar í landi, vegna skemmda á bíl sem hann hafði leigt. Sjálfur sagðist Ian vera fórnarlamb svika, að hann skuldaði minna en 1.000 pund og skemmdirnar á bílnum, Audi R8, hefðu verið til staðar þegar hann tók hann á leigu. „Mér líður eins og ég sé í hryllilegri, niðdimmri holu. Allt sem ég átti, hefur Dúbaí haft af mér. Ég hef tapað gjörsamlega öllu,“ sagði Ian.

Síðustu skilaboðin

Eftir tíu mánaða dvöl í Dúbaí komst Ian heim til Englands. Segir sagan að hann hafi flúið frá Dúbaí og komist til Íran og þaðan með einhverjum leiðum heim á gamlar slóðir. Þangað kominn tók hann upp fyrri siði í West End. Árið 2016 fékk Ian Strachan hjartaáfall í tvígang, í bæði skiptin vegna kókaínneyslu, var sagt. Einnig varð hann þekktur að ofbeldisfullri hegðun í garð móður sinnar. Á aðfangadagskvöld, árið 2016, fannst Ian látinn heima hjá sér. Hann hafði þá innbyrt feiknin öll af lyfseðilsskyldum lyfjum; codein, maxicodone, xopicone og fleira. Lyfjunum hafði hann blandað saman við mjólk. Um þetta leyti hafði Ian orðið sífellt árásargjarnari í garð móður sinnar. Hann hafði þó snætt hádegisverð með henni 23. desember. Síðar sama dag hafði móðir hans heimsótt hann og farið um klukkan 21.30 um kvöldið. Um sólarhring áður en hann fannst látinn hafði hann sent móður sinni textaskilaboð: „Þú vilt fá lík, nú hefur þú fengið það. Það verður öðruvísi dagur á morgun, ég mun ekki verða hér.“

Heimildir: Daily Record, The ScottishSun, Daily Mail, Scotsman, Wikipedia,mbl.is, visir.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -