Pétur Pétursson læknir var kærður af vaxtarræktarmönnum árið 1991.
Forsaga málsins er sú að læknirinn var í útvarpsþætti til viðtals og ræddi meðal annars um steranotkun á Íslandi og sagði það vera undantekningu ef karlmenn í vaxtarrækt notuðu ekki stera. Þá sagði hann einnig að „…eistun í þessum ræflum rýrna og verða ræfilsleg.“
Þessi ummæli voru nóg til þess að 35 vaxtarræktarmenn kærðu Pétur fyrir meiðyrði og kröfðu hann um 10,5 milljónir. Þá kröfðust þeir einnig að hann yrði dæmdur til fangelsisvistar.
„Þeir eru 35 sem hafa kært mig og því eru þetta 150 þúsund krónur á hvert eista. Þetta er ekki til annars en að hlæja að því. Það hefur yfirleitt verið þannig með meiðyrðamál að það er hlegið að þeim og sá sem kærir tapar alltaf, siðferðilega eða fyrir dómi. Ég tek þessu því með ró. Hins vegar tek ég því ekki með ró að það er í gangi umtalsvert magn af hormónalyfjum sem verið er beinlínis að hvetja unglinga til að nota. Ég er að vara við þessu því þetta er hættulegt,“ sagði læknirinn um málið í samtali við DV um málið.
„Það er alveg sama þótt einhverjir beljakar komi í fjölmiðla og fullyrði að þetta sé tóm lygi. Það er ljóst að þeir hafa hagsmuna að gæta í málinu og það þarf ekki mikla skynsemi til að sjá hver lýgur og hver hefur hag af því að ljúga. Ég hef ekki hag af því,“ sagði Pétur.
Mennirnir létu þó ekki nægja að kæra Pétur fyrir meiðyrði heldur kærðu þeir hann einnig til siðanefnd Læknafélags Íslands. Þar var Pétur áminntur fyrir ummælin.
„Ég fagna því að siðanefnd hefur tekið þetta erindi til meðferðar og úrskurðað í því eins og ég hafði vonað að hún myndi gera. Allur orðrómur um læknamafíu og að læknar standi saman sem einn maður með félaga úr sínum röðum virðist ekki eiga við. Þessi samtök virðast geta litið hlutlaust á málin,“ sagði Ólafur Sigurgeirsson í samtali við DV. Pétur var sjálfur mjög sáttur með niðurstöðu málsins.
„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu. Það er mjög óverulegt sem ég er áminntur fyrir. Hins vegar er efnislega tekið undir það sem ég hef sagt og ekki dregið í efa að það sé satt. Það eina sem þeir hafa við þetta að athuga er framsetningin og að ég hafi ekki gætt ýtrustu varkárni með alhæfingu minni. Ég veit að til þess að tekið sé eftir því sem sagt er þarf að setja það fram á ákveðinn hátt. Varnarorð mín hafa fengið umfjöllun og það er það sem skiptir máli. Á meðan ég er ekki áminntur um ósannsögli eða að hafa legið á liði mínu er ég ánægður,“ sagði Pétur Pétursson.
Máli kraftakarlanna var hins vegar vísað frá af Héraðsdómi Akureyrar.
„Þegar verið er að krefjast tveggja ára tukthúsvistar verður kröfugerðin að vera í samræmi við það sem tíðkast þegar um opinber mál er að ræða. Refsikröfunni var því vísað frá,“ sagði Pétur. „Mér skilst að lögmaður stefnanda sé flúinn á fjöll og hafi lokað farsímanum. Hann hefur ekki verulega ánægju af þessu máli. Það var málflutningur hér á mánudaginn en hann mætti ekki og sendi lögfræðimenntaðan dreng í staðinn. Það gerir ekkert til fyrir mig að þetta skuli ekki hafa verið tekið fyrir efnislega því landlæknir og siðanefnd lækna hafa fjallað um málið og sagt að varnaðarorð mín hafi haft við rök að styðjast og sú fullyrðing mín að misnotkunin sé útbreidd. Auk þess hafi ég verið í rétti og borið skylda til að vekja athygli á þeirri vá sem sterar geta haft í för með sér. Þar vann ég sigur því það var efnisleg umfjöllun,“ sagði Pétur Pétursson.