Skíðafantur stórslasaði hina sjö ára gömlu Emelíu Dögg árið 1997 en Dagur-Tíminn sagði frá.
Forsaga málsins er að Emelía Dögg var á skíðaæfingu í Hlíðarfjalli þegar ungur maður var að bruna niður Hjallabrekku og klessti á Emelíu með þeim afleiðingum að hún lærbrotnaði. Ungi maðurinn stakk af í kjölfarið.
„Hann keyrði á mig á miklum hraða og sársaukinn var rosalegur. Hann datt líka en stóð svo á fætur og sagði ussuss, ekki hafa hátt, og fór síðan,“ sagði Emilía Dögg en samkvæmt fréttum þurfti hún að vera í sjö vikur á legudeild á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Hægfara sjúkrabíll
„Hann hefur ekkert reynt að hafa samband við okkur eftir slysið og reyndar hefur ekkert heyrst frá starfsmönnum í Hlíðarfjalli,“ sagði Hafdís Kristjánsdóttir, móðir Emelíu, um manninn sem slasaði Emelíu. Þá hafi sjúkrabíll verið gífurlega lengi að mæta á svæðið til að sækja Emelíu.
„Það er bannað að bruna beint niður og það segja skilti sem eru á öllum lyftuskúrum. Almenna skíðareglan er að auki sú, að sá sem fer fram úr öðrum á að víkja,“ segir Ívar Sigmundsson, forstöðumaður Skíðastaða í Hlíðarfjalli. Hann sagði einnig að reglubrot væru alltof algeng á svæðinu.
„Það er mjög sjaldgæft að svona slys verði við árekstur. Ég man sérstaklega eftir tveimur tilvikum þetta alvarlegum á öllum þessum tíma. Og ég þekki ekki dæmi þess að menn yfirgefi vettvang,“ sagði Ívar að lokum.