Aldamótin 1999 til 2000 voru full hörmunga í lífi Karls Olgeirssonar, starfsmanns Nóa-Siríus. Þessi dugnaðarforkur og hvers mann hugljúfi, brotnaði saman við framleiðslu á Malta súkkulaðikexi, og grét eins og barn.
Með því hófst svikasaga mannsins sem síðar var nefndur Súkkulaðisvindlarinn á síðum fjölmiðla.
Bílslys og andlát
Aðspurður sagði Karl samstarfsmönnum frá að dóttir hans hefði lent í alvarlegu bílslysi í Svíþjóð og væri háls- og hryggbrotin og auk þess að vera með ónýt nýru. Hún ku hafa verið á banabeði og óljóst hvernig færi.
Samstarfsmenn Karls voru eðlilega slegnir yfir þessum tíðindum og ekki bætti úr þegar móðir Karls lést skyndilega aðeins viku eftir slysið hryllilega. Bylgja samúðar reis upp meðal vinnufélagana sem fundu mikið til með samstarfsmanni sínum sem hafði þurft að þola svo mikla sorg. Ekki bætti úr skák þegar Karl gat stunið upp, á milli ekkanna, að nú væri gott að hafa eiginkonu sína sér við hlið. Hún hefði aftur á móti látist úr krabbameini, aðeins átta mánuði inn í hjónabandið.
Ekki átti af hörmungum Karl að ganga, því tveimur dögum eftir andlát móðurinnar lést fyrrnefnd dóttir á skurðarborðinu í Svíþjóð.
Peningarnir rúlla inn
Samstarfsmenn Karls sáu að við svo búið mátti ekki standa og meira þyrfti til en faðmlög og tissjú til að bæta líðan hans. Örn Ottesen, fjármálastjóri fyrirtækisins, greip til heftisins og skrifaði í snari upp á ávísun að upphæð 200 þúsund krónum og létu starfsmenn sitt ekki eftir liggja. Þeir hófu þegar söfnun þar sem bæði starfsfólk og foreldrar þeirra létu fé að hendi renna. Lagt var upp með að ná 500 þúsund krónum svo Karl gæti nú farið til Svíþjóðar auk þess sem fyrir lá jarðarfararkostnaður.
Mörg hundruð þúsundum var safnað en heimildir rokka nokkuð um hversu há upphæðin var sem á endanum safnaðist.
Jarðarförin sem aldrei var
Eftir nokkurn tíma fóru tvær grímur að renna á samstarfsfólkið. Sér í lagi þegar kom að jarðarför móðurinnar sálugu sem virtist hafa fengið einhvers konar flýtimeðferð í Fossvogskirkjugarði, svo hratt gengu hlutirnir fyrir sig að sögn Karls. Örn bað verksmiðjustjórann að kanna málið betur og hringdi hinn síðarnefndi í Fossvogskapellu til að spyrjast nánar fyrir um útförina. Þar kannaðist enginn við umrædda konu né að nokkur jarðarför í hennar nafni hefði, eða stæði til, að færi fram.
Í janúar 2000 komst upp um lygasögur Karls og lagði fyrirtækið umsvifalaust fram kæru á hendur honum til lögreglu. Vart þarf að taka fram að Karl missti vinnuna.
Erni fjármálastjóra var ekki skemmt og sagði það háalvarlegt mál þegar fólk léki sér með tilfinningar annarra á þennan hátt. „Maðurinn átti samúð allra hér enda var ég á því að hann ætti að fá verðlaun fyrir leiklist, þvílík var frammistaða hans,“ sagði Ómar í viðtali við DV á sínum tíma.
Missti það sem kærast var
En hann missti ekki bara vinnuna, hann missti líka harmónikuna sína. Í viðtali við DV, sem fluttir ítarlegar fréttir af málinu, sagði hann fréttaflutning blaðsins hafa orðið til þess að hann missti það sem honum var kærast. Harmoníkuna sína. „Nágranni minn keypti harmoníkuna fyrir mig og greiddi fyrir með raðgreiðslum á krítarkorti sínu og ég borgaði honum síðan mánaðarlega afborgun. Eftir að hann las um mig í DV þá kom hann rakleiðis hingað upp og tók harmoníkuna. Þó var ég búinn að greiða allar afborganirnar nema fyrir desember en þá átti ég ekki pening,“ sagði Karl síðar í viðtali við DV.
Karl sagði við DV nokkru síðar ekki fara út fyrir dyr því hann skammaðist sín svo mikið. „Ég verð að leita mér hjálpar. Þetta er eitthvað sjúklegt sem ég ræð ekki við. Mig vantaði peninga og því spann ég söguna upp,“ sagði súkkulaðisvindlarinn.
Karl sá mikið eftir gjörðum sínum og viðurkenndi brot sín hikstalaust. Hann sagðist glíma við lygafíkn og hygðist leita sér hjálpar við henni.
Karl var einn af örfáum svikahröppum, sem upp hefur komist um, sem viðurkenndi brot sín. Það er eitthvað sem sjaldan sést og verður ekki af honum tekið.
Baksýnisspegill þessi birtst fyrst 1. júlí 2021 og skrifað Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir hann.