Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Sveinbjörn skrapp til Reykjavíkur eftir góða síldarvertíð – Hvarf sporlaust við þekkt sukkhús

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjómaðurinn Sveinbjörn Jakobsson hvarf sporlaust í Reykjavík í október 1930. Hafði hann beiðið leigubílsstjóra að skutla sér til baka að því húsi sem hann hafði sótt hann áður, svo hann gæti sótt pening fyrir farinu. Aldrei fór hann þó inn í húsið og hefur ekki sést síðan.

Sveinbjörn Jakobsson var fæddur í Reykjavík 25. janúar árið 1884 en sem barn flutti hann með fjölskyldu sinni í Stykkishólm og síðar til Ólafsvíkur. Kvæntist hann Guðlaugu Jónsdóttur frá Svefneyjum og áttu þau saman dótturina Sigríði en hún fæddist 1908. Guðlaug lést hins vegar aðeins fáum árum eftir að þau hófu hjúskap. Var Sveinbirni lýst sem frekar fámálum manni, meðalmanni á hæð, nokkuð grönnum og dökkhærðum.

Blaðið Íslendingur sagði frá hvarfi Sveinbjarnar og annars manns, Péturs Guðmundssonar, sem hvarf um svipað leiti en hann fannst mánuði síðar.

Sveinbjörn Jakobsson frá Ólafsvík, fullorðinn mann, vantar síðan á fimtudagskvöld, og Pjetur Guðmundsson vjelstjóra, sömul. fullorðin mann, vantar einnig síðan á föstudagskvöld. Leit eftir þeim hefir engan árangur borið ; óttast menn, að Pjetur hafi fallið í höfnina af slysni, en hinsvegar er sagt, að Sveinbjörn hafi haft peninga meðferðis og verið búinn að týna þeim, þegar síðast frjettist til hans akandi í bifreið um borgina.

Alþýðublaðið sagði einnig frá hvarfinu:

Sveinbjörn Jakobsson úr Ólafsvík var staddur hér í Reykjavík og dvaldi hjá dóttur sinni. Hann hefir ekki sést síðan á fimtudaginn. Var í fyrstu ekki leitað að mun, því að haldið var, að ekki væri neitt athugavert við, þótt hann kæmi ekki þangað heim þá þegar; en hann hafði ráðgert að fara heimleiðis í fyrra kvöld. Þegar hans varð þá enn ekki vart, var fengin aðstoð lögreglunnar til að leita að honum, en hann var ekki fundinn í gærkveldi, og vita menn ekki, hvað af honum hefir orðið.

Kvöldið örlagaríka

- Auglýsing -

Fram kemur í bókinni Saknað: Íslensk mannshvörf eftir Bjarka H. Hall segir að á fimmtudaginn 9. október 1930 hafi Sveinbjörn farið að húsinu Sauðagerði til að sækja heim Jósefínu Eyjólfsdóttur sem þar bjór. Jósefína er talin vera fyrirmynd spákonunnar Karólínu í kvikmyndinni Djöflaeyjunni eftir Friðrik Þór Friðriksson, sem byggð er á samnefndum bókum Einars Kárasonar. Húsið var á sínum tíma þekkt sem sukkhús en þar var algengt að menn drykkju þar nokkuð óheflað.

Eftir að Sveinbjörn hafði dvalið um dágóða stund hjá Jósefínu var pantaður leigubíll handa honum en leigubílsstjórinn Skúli Eggertsson mætti og keyrði Sveinbirni að Laugavegi 33 en þá kom babb í bátinn. Sveinbjörn var ekki með krónu á sér en farið kostaði þrjár. Bað hann þá Skúla að skutla sér til baka til Jósefínu svo hann gæti sótt krónurnar sem hann skuldaði. Það gerði Skúli og sagðist Sveinbjörn rétt ætla að skjótast inn og sækja peninginn. En Skúli beið og beið og var orðinn nokkuð óþolinmóður þegar hann sá eiginmann Jósefínu, Halldór Sigurðsson, ganga eftir götunni. Skúli stoppaði hann og sagði honum frá því að hann væri að bíða eftir Sveinbirni. Fór þá Halldór inn á heimili sitt en kom aftur skömmu síðar og sagði Skúla að Sveinbjörn hefði ekki komið aftur inn á Sauðagerði. Taldi Halldór líklegt að hann hefði farið fótgangandi eftir göngustíg sem lá frá þeim og að Meistaravöllum en þar hafði hann dvalið í nokkra daga hjá dóttur sinni Sigríði og eiginmanni hennar, Hjalta Einarssyni. En sú kenning reyndist ekki rétt því þangað snéri hann ekki aftur þann daginn.

Dóttir Sveinbjarnar var orðin ansi óþreyjufull þegar faðir hennar skilaði sér ekki stuttu fyrir brottför á heimferðardeginum. Hafði hún því samband við lögreglu og upphófst þá viðfangsmikil leit að sjómanninum. Ekki fannst tangur né tetur af Sveinbirni að undanskilinni húfu sem hann hafði klæðst daginn sem hann hvarf. Í ljósi þess að talið var að hann hefði haft meðferðist talsvert fé (þrátt fyrir að hafa sagst ekki geta borgað farið með leigubílnum) sem hann hafði unnið inn á nýlokinni síldarvertíð, var talið líklegt að mannshvarf hans hefði borið að af mannavöldum. Skúli leigubílsstjóri stóð fastur á sínum framburði en aldrei fannst nokkurt sem gat útskýrt hvað hefði orðið um Sveinbjörn Jakobsson.

- Auglýsing -

Við gerð baksýnisspegilsins var notast við heimildir úr bókinni Saknað: Íslensk mannshvörf eftir Bjarka H. Hall.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -