Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Þrír lögregluþjónar rotuðust í viðureign við þrjá drukkna hnefaleikamenn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Allt ætlaði um koll að keyra í lok dansleiks í Listamannaskálanum í september árið 1943, þegar þrír hnefaleikakappar hófu að berja mann og annan.

Þrír félagar úr hnefaleikaheiminum í Reykjavík á stríðsárunum ákváðu að skella sér á dansleik kvöld eitt í september og tóku með sér flösku af Svarta dauða, sem var bannað að gera á þessum dansleik. Eftir að tilraun hafði verið gerð til að reka mennina út án árangurs, var hætt við það, enda stutt í lok dansleiksins. En eitthvað var einum þeirra, Hrafni Jónssyni laus höndin þetta kvöld en hann barði tvo menn við fatageymsluna, nánast upp úr þurru.

Fjórir lögreglumenn voru sendir á vettvang eftir að hinir tveir saklausu ballgestir lágu í valnum eftir barsmíðar hnefaleikameistarans Hrafns Jónssonar. Þrír þeirra lágu óvígir eftir að hafa reynt að handtaka ofbeldismennina. Endaði einn þeirra illa slasaður á Landspítalanum en höfuðhögg sem sá fékk átti eftir að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir hann en lengi á eftir þjáðist hann af höfuðkvölum.

Hér má lesa frétt Þjóðviljans af málinu:

Þrír lögregluþjónar slasast í viðureign við drukkna menn

Einn þeirra liggur nú á Landspítalanum

Rétt eftir miðnætti í fyrrinótt voru 3 lögregluþjónar slasaðir í viðureign við drukkna menn, sem þeir ætluðu að handtaka. Einn hinna drukknu manna náði kylfu eins lögregluþjónsins og barði þá síðan unz þeir lágu óvígir. Lögregluþjónarnir sem meiddust voru þessir: Geir Jón Helgason, Aðalsteinn Jónsson og Kjartan Jónsson. Ölvuðu mennirnir voru: Hrafn Jónsson. hnefaleikameistari, Sigurjón Þórðarson og Andrés Bjarnason — einnig hnefaleikarar.

Hrafn og félagar hans voru á dansleik í Listamannaskálanum í fyrrakvöld. Þegar kl. var að verða 2 kom kona Hrafns að dyrunum og var tregða á að hleypa henni inn en þó varð það úr. En rétt á eftir voru Hrafn og félagar hans komnir með svarta dauðaflösku á borðið hjá sér. Jónas Lárusson fór þá til þeirra og sagði þeim að þetta væri ekki leyft þarna inni og bað þá fara út. Lögregluþjónn fór einnig til þeirra og bað þá einnig þess sama, en þeir skeyttu því engu, en þar sem dansleikurinn var að verða búinn var þetta látið liggja kyrrt. Rétt á eftir fór Andrés Bjarnason fram í fatageymslu, var þar fyrir ungur maður og stjakaði Andrés honum óþyrmilega frá sér. Hafði maðurinn orð um það hvað þetta ætti að þýða og fékk  hann þegar hnefahögg. Maður sem var nærstaddur sagði þá að lögreglan skipti sér ekkert af því þótt hnefaleikararnir gengju um og berðu menn — þeir væru líklega of sterkir. Var maður þessi þegar sleginn svo hann lá. Og lenti nú allt í slagsmálum.  Var þá hringt til lögreglunnar og voru 4 lögregluþjónar sendir og nokkru síðar aðrir 4. Kjartani Jónssyni lögregluþjóni tókst að handsama Sigurjón Þórðarson og hélt hann honum með kylfunni, — en enginn lögregluþjónanna notaði kylfuna til að slá með henni. Kom þá Hrafn að og tókst að ná kylfunni af Kjartani og sló hann síðan í rot. Leikurinn hafði nú borizt út í dimmt portið fyrir utan. Þegar Aðalsteinn Jónsson kom þar að fékk hann högg aftan frá utan úr myrkrinu, þegar hann snéri sér við fékk hann önnur, unnz hann lá. Geir Jón Helgason sá þá að Kjartan var að rísa á fætur blóðugur, og spurði hann: Hver barði þig? Var þá svarað úr skugganum: Hann er hér! Og dundu höggin síðan á lögregluþjóninum. Hákoni Kristóferssyni tókst þá að ná Hrafni og halda honum og voru þeir félagarnir allir handsamaðir. Lögregluþjónarnir þrír voru allir mikið meiddir. Kjartan Jónsson fékk 7 cm. langan skurð á höfuðið og 1 cm. á breidd, þar sem hann er breiðastur, ennfremur brákað nef.

- Auglýsing -
Geir Jón Helgason

Aðalsteinn Jónssón fékk þrjá skurði á höfuðið, einn 7 cm, annan 3 cm. og þann þriðja 2 cm. langan. Ennfremur hefur hann líklega handleggsbrotnað. Geir Jón Helgason meiddist mest. Fékk hann 2 högg á höfuðið aftanvert og heilahristing. Er 7 cm. langur skurður á höfði hans. Liggur hann í Landspítalanum illa haldinn. — Hnefaleikararnir voru allir fluttir í fangelsi.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -