Íslendingur nokkur sat á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur, á spjalli við tvær íslenskar stúlkur og þrjá þýska togarasjómenn en í fyrstu virtist sem vel færi á með fólkinu. Það breyttist þó á augabragði er togarasjómaðurinn stökk upp úr þurru upp og misþyrmdi Íslendingnum.
Baksýnisspegill kvöldsins fjallar um leiðindaratvik sem varð í maí árið 1971 þegar þýskur togarasjómaður réðist, að því er virtist að ástæðalausu á Íslending sem sat honum til samlætist á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur en áður en fólk vissi af var sá þýski farinn að láta hnefahöggin dynja á Íslendingnum. Samkvæmt Alþýðublaðinu, sem fjallaði um líkamsárásina var ekki um að ræða „heiðarleg slagsmál“ heldur hafi virst sem sjóarinn hafi verið að fá „útrás fyrir ofbeldishneigð sína“.
Eftir árásina flúði Þjóðverjinn ásamt þremur félögum sínum, en í ljós kom að þeir áttu enn eftir að greiða fyrir gos sem þeir höfðu pantað sér til að blanda í áfengi. Voru fjórir sterklegir lögreglumenn sendir á eftir þeim og náðust þjófarnir en árásarmaðurinn ekki.
Hér má sjá grein Alþýðublaðsins um málið á sínum tíma:
Íslendingi misþyrmt
Í einu kaffihúsanna í miðborginni gerðist það í gær, að ölvaður þýzkur togarasjómaður réðst á Íslending, sem þar var, og misþyrmdi honum. Allt gerðist þetta mjög snöggt, en togarasjómaðurinn þýzki hafði þó nægan tíma til að láta hnefahögg dynja á Íslendingnum. Á kaffihúsinu var nokkur fjöldi manna og þar af um tíu þýzkir togarasjómenn. Þeir sátu við tvö borð, en tveir eða þrír úr hópi þeirra sátu við borð með tveimur íslenzkum stúlkum og íslendingnum. Það virtist sem vel færi á með þessu fólki, þar til einn Þjóðverjinn stekkur á fætur og ræðst á Íslendinginn með hnefa höggum. En það var ekkert líkt því, sem oft er kallað „heiðarleg“ slagsmál heldur virtist þessi þýzki sjómaður fá útrás fyrir ofbeldishneigð sína. Og hann var ekki fyrr búinn að svala ofbeldisþrá sinni, en hann hypjaði sig í burtu af kaffihúsinu og þrír félagar hans með honum. Þá kom hins vegar í ljós, að þeir áttu eftir að borga gos- drykki, sem þeir höfðu keypt, og notað til að blanda áfengi, þvert ofan í reglur, sem þeim höfðu verið gerðar ljósar. Lögreglan var síðan kölluð til, og áður en langt um leið voru fjórir fílefldir lögregluþjónar komnir’ á staðinn. Höfðu þeir hendur í hári þriggja þeirra sem læðst höfðu út, en árásarmaðurinn sást hvergi. Voru þeir síðan látnir borga gosdrykkina og þar við sat. En Íslendingurinn, sem fyrir barsmíðinni varð, á eflaust eftir að finna lengi til eymsla.