Fimmtudagur 23. janúar, 2025
1.6 C
Reykjavik

Vélsleðamenn björguðu skíðamanni frá drukknun: „Það mátti ekki tæpara standa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinn sextán ára Steinar Steinarsson bjargaði lífi skíðamanns, ásamt tveimur félögum sínum er þeir komu á vélsleðum sínum í Jósefsdal í apríl árið 1995. Skíðamaðurinn hafði fallið niður um vök á lóni sem myndast hafði í dalnum.

Hrein tilviljun réði því að þrír vaskir vélsleðakappar, þeir Steinar Steinarsson, Höskuldur Þorsteinsson og Þorsteinn Höskuldsson, tóku eftir gönguskíðamanni sem fallið hafði niður um vök í Jósefsdal en þeir höfðu rétt áður spáð í að fara aðra leið og því kraftaverki næst að skíðamaðurinn lifði raunina af. Samkvæmt Steinari mátti varla á tæpara standa en Þorsteinn náði að fara út á vökina og koma til hans reipi en gönguskíðamaðurinn var þá orðinn ansi þrekaður.

DV sagði frá málinu á sínum tíma:

Skíðamaður féll niður um ís í Jósefsdal: Mátti ekki tæpara standa

-segir einn þriggja björgunarmanna

„Hann lá á fjórum fótum á skörinni þegar við sáum hann. Hann var örmagna eftir tilraunir sínar við að komast til lands. Það brotnaði jafnharðan undan honum ísinn og hann var greinilega við það að gefast upp,“ segir Steinar Steinarsson, 16 ára vélsleðamaður, sem kom ásamt tveimur félögum sínum, Höskuldi Þorsteinssyni og Þorsteini Höskuldssyni, að gönguskíðamanni sem fallið hafði niður um vök í lóni sem myndast hefur í Jósefsdal. Steinar og félagar hans fóra á þremur vélsleðum á sunnudag frá Bláfjöllum og ákváðu að fara í Jósefsdal. Þegar þangað kom sáu þeir gönguskíðamann. „Við ókum áfram inn dalinn og stoppuðum og spjölluðum saman. Við vorum að spá í að fara aðra leið til baka en ákváðum svo að fara sömu leið. Þegar við komum til baka sáum við manninn liggjandi á ísskörinni,“ segir Steinar. Þeir félagar óku þegar að vatninu til að bjarga honum en það brotnaði jafnóðum undan honum ísinn. „Maðurinn var um 30 metra frá landi og við reyndum að koma til hans reipi sem við vorum með en það náði ekki. Þá reyndi Þorsteinn félagi minn að fikra sig út á ísinn en hann brast strax undan honum. Við fórum þá hinir tveir til að ná í lengra reipi til fólks sem við vissum af hinum megin í dalnum. Þegar við komum aftur hafði Þorsteini tekist að koma til hans reipinu,“ segir Steinar. Þeim tókst að draga manninn til lands en hann skarst nokkuð á ísnum við það. „Hann var orðinn mjög þrekaður þegar við náðum honum á þurrt og ég er sannfærður um að það mátti ekki tæpara standa. Ef ekki hefði sést til hans er afskaplega lítill möguleiki til þess að hann hefði haft þetta af,“ segir Steinar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -