Leiðindamál kom upp í Keflavík í kringum áramótin 1983 og 1984 en þá rifust vinkonur um símahappdrættisvinning Sjálfsbjargar.
Ung kona datt í lukkupottinn þegar hún tók þátt í símahappdrætti Sjálfsbjargar og vann sér inn glæsilega bifreið. Babb kom hins vegar á bátinn þegar vinkona hennar gerði kröfu til vinningsins en hún var skráð fyrir símanum sem hringt var úr.
DV sagði frá málinu þann 2. janúar 1984 en þar segir að unga konan hafi leigt hús sem vinkona hennar hafði haft í Keflavík en þær ákveðið, vegna símaskorts í bænum yrði símanúmerið áfram skráð á vinkonuna. Hin unga kona keypti sér síðan miða í símahappdrætti Sjálfsbjargar í gegnum síma vinkonunnar og vann glæsilega bifreið, sem hin gerði síðan kröfu í, að minnsta kosti helminginn. Ekki fylgdi fylgdi frétt DV um málalyktir en málið fór í hendur lögmanna.
Hér má lesa frétt DV um málið:
Deilur um vinning í símahappdrætti Sjálfsbjargar:
Vinkonan vill fá hlut í vinningnum
Mikið deilumál er komið upp á milli tveggja kvenna í Keflavík vegna vinnings í símahappdrætti Sjálfsbjargar. Hefur vinningurinn — nýr og glæsilegur bíll — verið „frystur” hjá Sjálfsbjörg á meðan verið er að útkljá málið. Eins og kunnugt er eru miðarnir í símahappdrættinu merktir nafni og símanúmeri þess sem skráður er fyrir hverjum síma. Stendur deilan um vinninginn glæsilega á milli stúlku sem skráð er fyrir viðkomandi síma og þeirrar sem nú hefur afnot af honum en það var hún sem keypti miðann. Stúlkan sem er handhafi miðans hafði fyrir nokkrum mánuðum fengið íbúð á leigu í Keflavík sem kunningjakona hennar hafði haft. Fylgdi íbúðinni sími og þar sem mikil símaekla er í Keflavík og þar margir á biðlista eftu síma ákváðu þær að síminn í íbúðinni yrði áfram á nafni hinnar. Hefur hún borgað öll gjöld af honum eins og vera ber og þar á meðal borgaði hún happdrættismiðann með símanúmerinu á, sem kom nú fyrir jólin. Á þennan miða kom svo vinningur en stúlkan sem skráð er fyrir símanum gerir nú kröfur til að fá hann eða hluta hans. Málið er nú komið i hendur lögfræðinga og á meðan þeir eru að reyna að finna einhvern flöt á því, verður vinningurinn ekki afhentur.