Hinn átján ára Þorsteinn Baldvinsson átti nokkuð góðan veiðidag föstudaginn 17. október árið 1975 en hann náði að fella sex rjúpur. Dagurinn átti þó eftir að breytast í hálfgerða martröð.
Seyðfirðingurinn Þorsteinn keyrði eftir vel heppnaða veiðiferð að frystihúsinu í bænum og spjallaði þar við félaga sína sem voru að landa. Eftir löndunina fór vinur hans, Gunnar upp í bílinn til Þorseins en þegar annan pilt bar að sem bað um far, var veiðiriffill Þorseins fyrir í sætinu. Gunnar greip þá byssuna og fyrir klaufaskap tók hann óvart í gikkinn. Gerði hann ekki fyrst grein fyrir því hvað hefði gerst en hvellur heyrðist vel í bílnum. Hélt hann fyrst að skot hefði farið úr hlaupinu og í gegnum hurð í bílnum. Svo reyndist því miður ekki því Gunnar horfði á vin sinn, Þorstein, spennast allan upp í bílstjórasætinu. Svo sá hann gat á peysu hans. Hann hafði óvart skotið vin sinn í gegnum framsætið og í bak hans. Kallað var eftir lækni undireins og hann fluttur á sjúkrahús. Eftir stutta stund þar var farið með hann flugleiðis til Reykjavíkur. Þar tókst að bjarga lífi hans.
Hér má sjá frétt Dagblaðsins um voðaskotið:
VARÐ FYRIR VOÐASKOTI
18 ára piltur slasast á Seyðisfirði, úr hœttu
Átján ára gamall piltur varð fyrir voðaskoti úr haglabyssu i gær austur á Seyðisfirði. Var pilturinn fluttur á sjúkrahúsið á Seyðisfirði og síðan með flugvél til Reykjavíkur. Að sögn Hauks Árnasonar, læknis á Slysavarðstofu Borgarsjúkrahússins, var hinn slasaði ekki í lífshættu en rannsókn var ekki alveg lokið er DAGBLAÐIÐ spurðist fyrir um líðan hans. Pilturinn, Þorsteinn Baldvinsson, var að koma af rjúpnaveiðum. Hafði hann einhleypta haglabyssu liggjandi i aftursæti bifreiðar sinnar. Ók hann að frystihúsi Norðursildar, þar sem tveir kunningjar hans komu upp í bifreiðina. Annar þeirra handlék byssuna og hljóp þá skot úr henni og í gegnum bakið á sæti ökumanns og í bak Þorsteins. Varð nærstatt fólk strax vart við skothvellinn og voru læknir og lögregla látin vita þegar í stað. Kom sjúkrabíllinn að vörmu spori og læknirinn, Magni Jónsson, einnig. Var farið með hinn slasaða á sjúkrahúsið. Gerði læknirinn að sárum hans til bráðabirgða og kannaði þau. Síðan var farið með Þorstein og Magna lækni upp á Egilsstaði, þar sem Flugleiðaflugvél í áætlunarflugi beið þeirra tilbúin að fara í loftið. Hafði verið tilkynnt um komu þeirra og beið flugvélin eftir þeim og fór læknirinn með Þorsteini til Reykjavíkur. ,,Það er ekki ennþá lokið við að röntgenmynda sjúklinginn,” sagði Haukur Árnason læknir, ,,en eftir því sem bezt verður séð er ástæða til að ætla að hann sé ekki i lífshættu.” Þetta er fyrsta slysið, sem verður eftir að rjúpnaveiðitíminn hófst í ár, og vonandi um leið það síðasta.Vonandi verður það til alvarlegrar áminningar um að menn gæti ýtrustu varkárni í meðferð skotvopna. ,,Ekki er hægt að sjá annað en þetta hafi verið óviljaverk,” sagði Erlendur Björnsson, bæjarfógeti á Seyðisfirði við fréttamann DAGBLAÐSINS.
Daginn eftir birti Dagblaðið viðtal við þann sem skaut Þorstein, fyrir slysni í bakið. Sagðist hann telja sig vera heppinn mann að ekki hafi farið verr og að hann hefði verið niðurbrotinn eftir slysið.
Hér má lesa viðtalið:
Óvarkárni í meðferð skotvopns:
TEL MIG MIKINN GÆFUMANN AÐ EKKI FÓR VERR
segir pilturinn, sem varð þess valdandi að skot hljóp úr byssu og sœrði eiganda byssunnar
„Ég hélt fyrst að skotið hefði farið út í hliðina á bílnum, en svo sá ég að Þorsteinn stirðnaði upp. Þá leit ég í framsætið og sá gatið á peysunni hans. Ég hljóp út úr bílnum og opnaði hurðina hjá honum.” Þetta er hluti af frásögn Gunnars Guðlaugssonar á Seyðisfirði. Hann var svo ólánssamur með ógætilegri meðferð haglabyssu að valda því, að vinur hans, Þorsteinn Baldvinsson, varð fyrir slysaskoti. Þennan föstudagseftirmiðdag var Gunnar ásamt öðrum manni staddur niðri á bryggju við fiskverkunarhús Norðursildar. Þeir voru nýlega konnir úr róðri á Farsæli SF 65, sem er 12 tonna bátur, sem hefur róið með linu undanfarið. Að þessu sinni höfðu þeir fengið tæplega 2 tonn af fiski. Mest var það þorskur, nokkuð af ýsu og steinbít, en ein lúða. Þarna var Gunnar við annan mann að landa aflanum, þegar Þorstein Baldvinsson bar þar að á bifreið sinni, sem er af gerðinni „Fiat—125”. Í bílnum með Þorsteini var maður í framsæti. Komu þeir báðir út úr bilnum. „Við hættum að landa og tókum tal saman, enda var Þorsteinn landmaður á Farsæli”, sagði Gunnar Guðlaugsson, „Og maðurinn, sem með honum var, kunningi okkar líka. Þeir fóru síðan inn í bílinn en við kláruðum að landa úr bátnum. Þá fór ég inn í bílinn líka. Þar lá þá haglabyssan ásamt skotpakka og skotbelti. Steini var að koma af skytteríi utan af Vestdal með 6 rjúpur, sem hann hafði fengið. Þegar við vorum að leggja af stað, stöðvaði okkur maður á planinu og bað um að fá akstur heim. Ég hélt þá á byssunni og lá skeftið i kjöltu minni en hlaupið í sætinu. Ég spurði um leið og ég færði hlaupið fram, svo að maðurinn gæti setzt: „Er skot í byssunni?” Þorsteinn svaraði því neitandi, en bætti við: „annars er öryggið á.” Ég ætlaði að opna byssuna, en hefi komið við gikkinn í staðinn fyrir lásinn — og skotið hljóp úr byssunni. Ég gerði mér litla grein fyrir því, hvað gerðist þarna næst. Byssan sló ekki mikið, að mig minnir, en í henni var skot með höglum nr. 4, „Seller-Bellon”. Ég hélt fyrst að skotið hefði farið út um hliðina á bílnum en ekki bakið á framsætinu. Svo sá ég að Þorsteinn stifnaði upp í sætinu, og ég sá gatið á peysunni hans.” Gunnar kvað Þorstein hafa talað við sig. Hefði hann ekki misst meðvitund þarna niður frá. „Það var Sigurður Júlíusson, sem hljóp og hringdi í lækni. Var farið með Steina upp á spítala og síðan suður til Reykjavíkur. Ég var niðurbrotinn maður eftir þetta, og ég tel mig mikinn gæfumann, að ekki skyldi fara verr. Ég og við félagar Steina hér heima biðjum fyrir kveðjur til hans. Við óskum þess eins, að honum batni til fulls og það sem allra fyrst, svo að hann geti komið hingað austur heim til sin”, sagði Gunnar Guðlaugsson að lokum.