Leikararnir Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, eða Laddi, hafa verið þjóðareign í áratugi, sem er hreint ótrúlegt að segja af því að það eru tvö eldhress unglömb sem sitja á móti blaðamanni á Mokka á Skólavörðustíg einn eftirmiðdag í lok júní.
Samkvæmt lögum eru þau bæði orðin eldri borgarar, eða heldri borgarar ættum við kannski frekar að segja, en það hefur líklega aldrei verið jafnmikið að gera hjá þeim og núna þrátt fyrir aldurinn og fordæmalausa tíma það sem af er árinu, sem sáu þó til þess að dró úr verkefnum hjá þeim að einhverju leyti. Nú á föstudag lítur nýjasta verkefni þeirra ljós á stóra tjaldinu, kvikmyndin Amma Hófí, og þau segjast bæði vera bæði spennt og kvíðin fyrir útkomunni. „Gunnar Björn hringdi í mig fyrir þónokkrum árum síðan, þá var þetta nú bara á hugmyndastigi. Svo dróst þetta á langinn, það náðist ekki í pening og svona, en svo hafðist myndin fyrir rest,“ segir Laddi og brosir, aðspurður um aðkomu hans að myndinni. En er hún skrifuð með þau í huga?
„Já, mig grunar það,“ svarar Laddi.
„Já, ég gæti alveg trúað því vegna þess að það eru líka mörg ár síðan við sátum saman og fórum yfir,“ segir Edda. „Þá var Gunnar Björn að kynna fyrir mér hugmyndina og mér fannst hún alveg svakalega skemmtileg og ég vissi að hann langaði að fá okkur saman í myndina. En þá var þetta allt á hugmyndastigi.“
„En hann var alveg örugglega með okkur í huga,“ ítrekar Laddi.
Gunnar Björn sem þau vísa til er Gunnar Björn Guðmundsson, sem bæði leikstýrir og skrifar handritið að Ömmu Hófí. Hann á að baki myndir eins og Astrópíu og Gauragang.
Sjá einnig: Edda og Laddi um pressuna að vera alltaf skemmtileg: „Djöfull var hann fúll, maður“
Fortíðin verður ekki ritskoðuð
Samfélagið þróast og grínið með, hverju má gera grín að og hverju ekki. Breski gamanleikarinn John Cleese gagnrýndi nýlega BBC fyrir að ætla að ritskoða Monty Python-hópinn sem Cleese var hluti af, þar sem grín þeirra væri ekki viðeigandi í dag. Hvað finnst ykkur, má gera grín að öllu?
„Nei, ekki í dag,“ segir Laddi ákveðinn og Edda samsinnir því. Einu sinni mátti gera grín að öllu nema forsetanum, svo er þetta alltaf að þróast og breytast, nefnir blaðamaður. „Já, svo mátti gera grín að forsetanum. Mínum karakterum hefur í dag fækkað um tvo, þeir eru bara komnir inn í skáp og eru bannaðir í dag,“ segir Laddi. „Færeyska konan mun aldrei lifna við aftur,“ bætir Edda við.
Sjá einnig: „Mjög sorglegt og erfitt að horfa á bræður mína veslast upp og fara frá sjálfum sér“
En hvað finnst ykkur um ritskoðun á eldra gríni, líkt og BBC vill gera?
„Ég spring í loft upp af hneykslan. Þú tekur ekki gamalt efni og breytir því … söguna, hvað ætlarðu að gera, endurrita söguna?“ segir Edda ákveðin. „Hvað með alla kúgunina og viðbjóðinn, morðin, hvernig konum og fötluðum hefur verið haldið niðri, ætlarðu að endurrita þetta allt saman af því það er óþægilegt? Sama er með grín, þú getur ekki endurskrifað grínið og ýtt því öllu til hliðar, það heitir ritskoðun og er ömurlegt athæfi, þangað megum við aldrei fara. Við megum ekki endurskrifa fortíðina. Aftur á móti skulum við diskútera gamla grínið, hvort það á við í dag eða ekki. Þetta er alveg forkastanlegt,“ segir Edda. Og Laddi er sammála. „Þetta gerir maður bara ekki. Okkar karakterar eru saga og við myndum ekki bjóða upp á þá í dag, en við strikum ekki yfir þá og látum sem þeir hafi aldrei verið til.“
Viðtalið hér er hluti af stærra viðtali við Eddu og Ladda, sem verður birt í fullri lengd á fimmtudagskvöld.