Laugardagur 2. nóvember, 2024
3.3 C
Reykjavik

„Ég féll á föstudaginn langa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég átti ekki að fæðast. Ég var slysabarn, yngsta barn foreldra minna. Tilkoma mín frestaði löngu tímabærum skilnaði þeirra. Það var enginn möguleiki fyrir konur í þá daga að skilja með ungbörn. Það var ekki til það öryggisnet sem gat tekið við móður minni með fjögur börn, þar af eitt á brjósti,“ segir Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands.

 

Gunnar Smári er umdeildur maður. Hann á að baki langan feril sem blaðamaður, ritstjóri og framkvæmdastjóri fjölmiðlasamsteypu. Það hefur löngum gustað um hann. Hann á langan feril sem harðskeyttur blaðamaður og ritstjóri, ýmist dáður eða jafnvel hataður. Hann féllst á viðtal við Mannlíf þar sem allt væri til umræðu frá löngum ferli hans í framlínu íslenskra fjölmiðla og seinna á sviði stjórnmála og verkalýðsbaráttu. Fyrsta spurningin er hvað það sé sem hefur mótað hann. Hann vísar til barnæsku sinnar þar sem drykkja föður hans, Egils H. Hansen, litaði daglegt líf og fátæktin var skammt undan þrátt fyrir baráttu móður hans, Guðrúnar Rannveigar Guðmundsdóttur.

„Enginn hjálpaði eða skeytti um lítinn dreng sem var að reyna að reisa föður sinn á fætur“

„Þegar ég fæddist var alkóhólismi föður míns orðinn mjög slæmur og hann vann ekki nema aðra hverja viku. Hann eyddi nánast öllu sem hann aflaði í drykkjuna. Mér finnst þegar ég hugsa til baka að mamma var, fyrst þegar ég man eftir henni, í ástandi sem nú kallast áfallastreituröskun. Hún stóð sig þrátt fyrir það eins og hetja og hélt fjölskyldunni saman. Hún hélt fjölskyldufundi yfir kvöldmatnum og fór yfir viðburði dagsins hjá hverjum og einum. En það var ekki alltaf til matur. Við áttum ekki fyrir nýjum fötum og við höfðum ekki efni á því að fara til tannlæknis.“

Foreldrar Gunnars Smára skildu. Þá reyndi faðir hans sitt besta til að standa sig sem helgarpabbi. En það gekk á ýmsu.

„Mamma er af fyrstu kynslóð kvenna sem skilur við vonlausa manninn. Áður var slíkt varla í boði. Hún sýndi þá hetjulund að stíga út í óvissuna og skilja við karlinn. Mér þykir afar vænt um þau bæði og ber ekki nokkurn kala til þeirra þótt ég hafi komið illa nestaður úr æskunni. Pabbi var með illkynja sjúkdóm sem engin meðferð var til við í þá daga. Þau voru bæði að glíma við mjög erfiðar aðstæður. Eftir skilnaðinn reyndi pabbi að halda samskiptum við okkur börnin. Hann sótti mig oftast þar sem ég var yngstur, stundum okkur tvo yngstu. Í fæstum tilvikum gekk þetta vel hjá honum. Oftast datt hann í það og þá sátum við uppi með hjálparlausan drukkinn mann á undarlegustu stöðum, á tjaldstæði, í bíó, úti í Viðey.“

„Lífsglíma mín fyrstu áratugi fullorðinsáranna snerist að stóru leyti um að losna undan þessari skömm sem ég bar þó aldrei neina ábyrgð á. Það var samfélagið sem tróð þessu upp á mig.“

- Auglýsing -

Gunnar Smári rifjar upp sára minningu frá því faðir hans fór með hann á íþróttaviðburð í Laugardagshöllinni. Hann var sjö ára.

„Við vorum á handboltaleik. Hann þurfti að fara á salernið og ég fór með honum niður. Hann datt í stiganum, lá bjargarlaus á stigapallinum og pissaði í buxurnar. Fólkið sem gekk fram hjá hló að honum. Enginn hjálpaði eða skeytti um lítinn dreng sem var að reyna að reisa föður sinn á fætur. Það eru svona atburðir sem ég losna ekki við. Ég er alltaf með þennan dreng inni í mér og ég heyri hláturinn enn. Það er inngróið í mig að vantreysta múgnum, þessu samkomulagi og hvað er boðlegt og hvað ekki, hver fær að vera með og hverjum er haldið úti. Og niðri.“

Fyrirgefningin „Ég er ekki dómstóll og það er ekki mitt að fyrirgefa. Ég gat aðeins vonað að pabbi minn fyrirgæfi sjálfum sér. Með þessu viðhorfi náði ég sátt.“ Mynd / Hallur Karlsson

Gunnar Smári segir að fátækt barnæskunnar hafi fylgt honum upp úr æskunni sem skömm. En að það hafi verið skömm sem hengd var á hann.

- Auglýsing -

„Mamma varð fyrir fátækt sem samfélagið þröngvaði upp á hana. Eins er með skömmina út af pabba. Hann valdi sér ekki sitt hlutskipti. Það eina sem hann gerði af sér var að bera þennan banvæna sjúkdóm sem samfélagið neitaði að veita meðferð við. Ég upplifði skömm vegna þess að fötin mín voru slitin og gat á skónum. Í minningunni var ég votur í fæturna frá því ég var fimm ára og fram að fermingu. Lífsglíma mín fyrstu áratugi fullorðinsáranna snerist að stóru leyti um að losna undan þessari skömm sem ég bar þó aldrei neina ábyrgð á: Það var samfélagið sem tróð þessu upp á mig. Í dag skammast ég mín ekki fyrir hvaðan ég kem og enn síður fyrir foreldra mína. Enda ætti ég frekar að skammast mín fyrir samfélagið.“

Móðir Gunnars Smára leitaði allra leiða til að fá lækningu fyrir mann sinn. Hún ræddi við konur sem voru í sömu stöðu.

„Þetta var skömmu eftir að ég fæddist. Þau bjuggu þá í Hafnarfirði. Mamma gekk þá á milli kvenna sem áttu svona drykkjumenn. „Hvernig geturðu lifað við þetta?“ spurði mamma þá fyrstu. Sú sagðist hafa farið til læknis og fengið töflur sem leystu málin og létu henni líða vel. Það var valíum. Mömmu leist ekki á að taka sjálf lyf við veikindum pabba. Hún leitaði því til þeirrar næstu. Maðurinn hennar hafði hætt að drekka eftir að hann gekk í Hvítasunnusöfnuðinn. Mamma spurði hvort það væri ekki allt annað líf. Konan þvertók fyrir það. „Nú stendur hann yfir matarborðinu og messar yfir okkar, hvetur okkur til að taka Jesú Krist inn í hjarta okkar. Stundum velti ég fyrir mér hvort það væri ekki skárra að hafa hann drukkinn,“ svaraði konan. Sú þriðja sem mamma leitaði til sagði að hennar maður hefði gengið í AA-samtökin. Í þá daga var sú lausn ekki að allra vitorði eins og seinna varð. Konan sagði að það hefði breytt öllu. Mamma sá að þarna var von og lagði að pabba að mæta á fund. Hann gerði það fyrir mömmu en kom heim ósáttur. „Þarna voru tómar fyllibyttur,“ sagði hann og hélt áfram að drekka og mamma skildi við hann.

Móðir Gunnars Smára barðist um á hæl og hnakka í tilveru sem bauð ekki upp á mörg tækifæri. Það var mikilvægt fyrir hana að komast yfir íbúð og búa börnum sínum skjól. Hún ákvað að sækja um verkamannabústað. Þá komst hún að því að til að það yrði þurfti pólitík til. Hún varð að fara bónarveg.

„Hún þurfti þá að fara og hitta bæði Guðmund J. Guðmundsson, formann Dagsbrúnar og alþýðubandalagsmann, og líka Magnús L. Sveinsson, formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur og sjálfstæðismann, af því að þeir sátu í úthlutunarnefndinni. Fulltrúar fjórflokksins áttu þarna síðasta orðið og vildu að mömmu væri ljóst að hún væri að þiggja þessa íbúð úr þeirra hendi. Þegar hún kom heim var hún eldrauð af reiði, fannst hún hafa niðurlægt sig við að beygja sig fyrir þessari lygi. Auðvitað var hún ekkert að þiggja frá þessum mönnum. Hún átti allan rétt á þessari íbúð sem var byggð fyrir fátækt fólk með samstilltu átaki og fyrir skattfé og kom þessum körlum ekkert við. Það hefði frekar mátt skamma Sjálfstæðismenn fyrir að hafa staðið í vegi fyrir því áratugum saman að byggðar væru félagslegar íbúðir. Loksins þegar þeir létu undan notuðu þeir sér aðstöðu sína til að gera fólk að þiggjendum sínum.“

Faðir Gunnars Smára hætti að drekka á sextugsaldri, markeraður af sjúkdóminum, langvarandi drykkju og erfiðleikum.

„Hann átti samt mörg ágæt ár eftir það en gerði ekki upp við okkur syni sína eða aðra. Ég held að hann hafi einfaldlega ekki ráðið við það. Meðan við bræðurnir drukkum gátum við ekki rætt æskuna ógrátandi og það tók okkur langan tíma að fá frelsi frá henni. En ég dæmi pabba ekki og hef þar af leiðandi ekki ástæðu til að fyrirgefa honum. Ég er ekki dómstóll og það er því ekki heldur mitt að fyrirgefa. Ég gat aðeins vonað að pabba myndi auðnast að þiggja þá fyrirgefningu sem ég held að okkur standi öllum til boða, fyrir að vera mannleg og breisk. Ég náði alla vega sátt með þessu viðhorfi.“

Samstarfið við Jón Ásgeir „Ég fór aldrei í veiðiferðir eða á fyllerí með honum. Ég hef bara unnið að minni blaðamennsku.“ Mynd / Hallur Karlsson

Ungur alkóhólisti

Gunnar Smári hefur þurft á fyrirgefningu að halda sjálfur. Hann byrjaði að drekka mjög ungur og alkóhólisminn hafði mikil áhrif á líf hans.

„Ég gerði margt sem hefði ekki átt að gera og lét ógert annað sem hefði átt að gera. Ég vissi ekki betur en að ég gæti drukkið. Ég byrjaði með fínmannsdrykkju. Ég hélt það lyfti mér upp yfir ástandið á pabba, sem var aðeins skör fyrir ofan það að vera róni. Ég sá hann teyga í sig Hvannarótarbrennivín niður í hálfa flösku. Ég gat því aldrei drukkið Hvannarótarbrennivín, kúgaðist ef ég fann lyktina. Ég drakk viskí með klaka og aðrar fínar tegundir og spjallaði við vini mína um stjórnmál og bókmenntir. Ég hafði á þessum tíma enga innsýn í sjúkdóm föður míns, taldi hann mislukkaðan mann. Ef ég gætti mín á að verða ekki mislukkaður hlyti ég að geta drukkið. Eftir barnadrykkju slapp ég að mestu við unglingadrykkju þar sem ég var í heimavistarskóla í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp en svo tók við svona óhófsneysla ungkarla þegar ég fór á Súgandafjörð að vinna í fiski þegar ég var sextán ára. Eftir þetta sumar vildi fjölskyldan að ég færi í menntaskóla en ég flosnaði fljótt upp frá námi. Vinur minn smyglaði inn hassi um haustið. Ég kom til hans í heimsókn og var þar mánuðum saman. Eða þannig man ég þetta alla vega. Ég veit ekki hvort ég var orðinn alkóhólisti þarna en næstu árin bar ég þennan sjúkdóm, reyndi að vinna og standa mig, axla ábyrgð og vera elskulegur og almennilegur maður en neyslan þvældist alltaf fyrir og skemmdi. Ég var að breytast í föður minn. Ég reyndi að lifa sem alkóhólisti en gat það svo ekki, sjúkdómurinn var sterkari en ég. Þegar ég var 28 ára fór ég loks í meðferð og áttaði mig eins og margir aðrir á fyrsta fyrirlestri hvað það var að vera alkóhólisti.“

Gunnar Smári var allsgáður í rúm tvö ár. Svo kom fallið.

„Ég féll og það átti sér langan aðdraganda. Ég gerði allt eftir bókinni, reyndi að gera allt rétt, en var andlega og tilfinningalega ófullnægður. Ég lifði lífi broddborgara, en vantaði einhvern tilgang. Ég ákvað í raun hálfu ári áður að ég yrði að byrja aftur að drekka, var að verða klikkaður og þurfti lyfið sem ég hafði notað áður í sömu aðstæðum, áfengið. Ég fór því í partí starfsfólksins á knæpunni Tveimur vinum og öðrum í fríi, á föstudaginn langa og fékk mér gin í tónik. Ég fann ekki til áhrifa og hugsaði með mér að ég gæti höndlað þetta. Þá fékk ég mér auðvitað aftur að drekka næstu helgi og það gekk ágætlega. Þá datt ég í það helgina þar á eftir og þá hófst þriggja ára tímabil þar sem ég drakk nánast upp á dag.“

Þremur árum eftir fallið fór Gunnar Smári aftur í meðferð. Þá hætti hann alveg og hefur verið edrú í rúm 24 ár.

Rekinn af Pressunni

Gunnar Smári varð ritstjóri með Kristjáni Þorvaldssyni á Pressunni skömmu eftir að hann hætti að drekka. Innan við þrítugt var hann kominn með mikla ábyrgð og hafði haslað sér völl á vettvangi fjölmiðlanna þar sem hann átti eftir að starfa næstu áratugina. Pressan var í þann tíma í eigu Alþýðuflokksins og hafði gengið illa um tíma.

„Kristján kom frá Sunnudagsblaði Moggans en ég kom frá DV þar sem ég hafði verið lærisveinn Jónasar Kristjánssonar. Áður hafði ég unnið á NT og Helgarpóstinum með Halldóri Halldórssyni ritstjóra. Halldór hafði þann hátt á að hann las hluta úr setningum í greinum sem ég hafði skrifað og spurði hvaðan ég hefði þetta. Þannig þurfti ég að verja hverja einustu setningu mörgum sinnum. Ég fékk því ótrúlega góða skólun sem ungur blaðamaður. Við fengum strax meðbyr á Pressunni. Blaðið hafði þá aðeins selst í um 2000 eintökum. Við gjörbreyttum blaðinu. Á fimmtu viku seldum við yfir níu þúsund eintök. Pressan stækkaði mjög hratt. Seinna keypti Friðrik Friðriksson blaðið af flokknum. Alþýðuflokkurinn var einhver besti útgefandi sem ég hef haft. Það var aldrei svo mikið sem andað á ritstjórnina þótt við værum stöðugt að rugga bátum.“

Samstarfið við Friðrik gekk vel framan af. En smám saman þyngdist andrúmsloftið.

„Þá byrjaði tímabil sem ég hef lent í síðar. Ég var lykilmaður í að halda ritstjórninni saman og þróa blaðið og útgefandinn beygði sig undir það. En eftir því sem tíminn leið jókst vilji hans til að taka þetta allt yfir. Það endaði með því að Friðrik rak mig og ég tók við sem afleysingaritstjóri á tímaritinu Heimsmynd, sem Herdís Þorgeirsdóttir átti á þessum tíma. Ég leysti hana af í barneignaleyfi en þegar því sleppti stofnaði ég tímaritið Eintak. Egill Helgason, seinna sjónvarpsmaður, var ritstjóri með mér og Andrés Magnússon skaffaði umbrotstölvu og var með okkur í þessu. Fljótlega áttaði ég mig á að tímaritið gekk ekki upp og við breyttum Eintaki í vikublað milli jóla og nýárs. Ég lýsti því þá yfir af nokkrum hroka að ég væri að fara í samkeppni við líkið af sjálfum mér, Pressuna. Friðrik sá við mér og vikuna sem Eintak kom út var Pressan með nektarmyndir af Lindu Pétursdóttur fegurðardrottningu. Við misstum af þeirri athygli sem fylgja hefði átt nýju blaði. Nokkrum mánuðum seinna neyddi Prentsmiðjan Oddi okkur í sameiningu við Pressuna og Morgunpósturinn varð til. Páll Magnússon var settur inn sem ritstjóri við hlið mér að kröfu fjárfesta. Hann átti að passa strákinn.“

Friðrik varð útgefandi nýja blaðsins. Pálmi Jónasson blaðamaður hafði skrifað grein um Jón Ólafsson athafnamann og tengsl hans við undirheima og fíkniefnasölu á árum áður. Jón Ólafsson hafði samband við Gunnar Smára og sýndi því skilning að málið færi út. Gunnar Smári segist hafa verið nokkuð undrandi á þessum viðbrögðum, hafði ekki áður lent í manni sem tók ótíðindum jafn vel. En svo dró til tíðinda.

„Blaðið var farið í prentun þegar Friðrik birtist náfölur og spurði hvort ég ætlaði að drepa hann. „Veistu ekki að ég stend illa fjárhagslega?“ spurði hann. Jón hafði þá metið það svo að hann myndi ekki ná að stöðva mig og þess í stað náð til útgefandans og snúið upp á hann. Ég sagði að blaðið væri farið. Friðrik greip þá til þess að stöðva prentun blaðsins í krafti stöðu sinnar sem útgefandi. Þar með myndi hann sýna þessum mönnum að hann hefði gert allt sem hann gat. Ég hringdi í stjórnarmenn útgáfunnar og óskaði eftir stjórnarfundi sem var haldinn um morguninn þar sem ákvörðun útgefandans var hnekkt og blaðið prentað. Friðrik hætti og síðan hef ég varla séð hann.“

Gunnar Smári segist aldrei hafa verið búningsherbergjamaður eða veiðikofamaður. Í gegnum tíðina hafi hann átt samskipti við auðmenn og fólk úr viðskiptalífinu, en ekki bundið trúss sitt við þá umfram það sem starfið kallaði á.

„Ég var í stjórn Fréttablaðsins frá upphafi með Jóni Ásgeiri, en ég fór aldrei í veiðiferðir eða á fyllerí með honum, við vorum ekki félagar. En við unnum saman að því að byggja upp Fréttablaðið, fjölguðum útgáfudögum, stækkuðum dreifisvæðið og svo framvegis. Þess á milli vann ég bara að minni blaðamennsku. Eitt helsta hlutverk ritstjóra og útgefanda er að gæta þess að blöðin fái að vera í friði og verja ritstjórnir gegn peningavaldinu, stjórnmálafólki og allskonar liði sem vill ráðgast með fjölmiðlana.“

Gjaldþrot Fréttatímans „Ég var sakaður um að hlaupa frá launagreiðslum þótt ég væri aðeins einn eigenda. Ég afði lagt hluta af ævisparnaði mínum í reksturinn og hann tapaðist.“ Mynd / Hallur Karlsson

Aftur í meðferð

Eftir að Morgunpóstinum sleppti hófst hálfgerð eyðimerkurganga. Gunnar Smári fór í seinni meðferðina. Eftir það fékk hann hvergi vinnu.

„Ég sótti meira segja um á Mogganum og sem umbrotsmaður á DV en hvorki Jónas Kristjánsson né Styrmir Gunnarsson vildu ráða mig. Styrmir sagði að Mogganum væru fengur að fá mig en spurði svo: „En heldurðu að þér liði vel á Mogganum?“ Ég skildi að þetta var aðferð hans til að segja mér að ég væri ekki velkominn þangað. Og þótt ég hafi sagt að mér myndi örugglega líða vel á Mogganum fékk ég ekki vinnuna.“

Eitt stærsta ævintýrið á ferli Gunnars Smára var stofnun Fréttablaðsins. DV-feðgar, Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson fengu hann til liðs við sig til að gera fríblað. Fréttablaðinu var stefnt gegn Morgunblaðinu sem var risinn á fjölmiðlamarkaði. Blaðið sá dagsins ljós en feðgarnir voru settir út af sakramentinu. Útgáfan fór í þrot en Gunnar Smári var þess viss að blaðið ætti mikla möguleika á markaði. Hann leitaði leiða til að endurreisa blaðið. Hann hafði að leiðarljósi að fá kaupmenn í Reykjavík til liðs við sig.

„Davíð Oddsson forsætisráðherra var á þessum tíma við það að beygja alla fjölmiðla undir sig. Og hann þoldi ekki Fréttablaðið. Það varð einmitt okkar stærsta eign, að mínu mati, það að Davíð var í nöp við blaðið. Það skapaði skjálfta í kringum það.“

„Ég þekkti söguna frá því Morgunblaðið var við það að fara í þrot snemma á seinustu öld og var bjargað af kaupmönnunum í Reykjavík. Ástæðan er sú að kaupmennirnir þurfa að hafa fjölmiðil til að halda uppi sambandi við sína kúnna. Kaupmennirnir í Reykjavík höfðu sömu hagsmuni af því að halda Fréttablaðinu gangandi, þótt ekki væri nema til að halda niðri auglýsingaverðinu hjá Morgunblaðinu. Við Ragnar Tómasson lögmaður keyptum Fréttablaðið gegn loforði um að gera upp við blaðburðarbörnin. Ragnar kom á fundi með okkur og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda Baugs. Hann lýsti því seinna að það hefði tekið mig 15 sekúndur að selja Jóni Ásgeiri hugmyndina. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hitti Jón Ásgeir. Í framhaldinu fékk ég Árna Hauksson, einn eigenda Húsasmiðjunnar, til að taka þátt í að byggja brú svo við gætum komið blaðinu aftur af stað. Reksturinn gekk vel frá fyrsta degi. Blaðið var rekið með hagnaði fyrsta hálfa árið eftir endurreisn og ætíð eftir það. Það þurfti því ekki alla þá peninga sem reiknað var með í upphafi og reyndist vera frábær fjárfesting fyrir þessa kaupmenn. Þetta varð algjört ævintýri. Og við höfðum allt í einu tækifæri til að fella Moggann sem hafði drottnað yfir íslenskum fjölmiðlamarkaði áratugum saman og Mogginn hefur ekki borið sitt barr síðan. Það var óendanlega mikilvægt, Mogginn hafði legið eins og mara yfir samfélaginu með sín íhaldssömu viðhorf. Davíð Oddsson forsætisráðherra var á þessum tíma við það að beygja alla fjölmiðla undir sig. Og hann þoldi ekki Fréttablaðið. Það varð einmitt okkar stærsta eign, að mínu mati, það að Davíð var í nöp við blaðið. Það skapaði skjálfta í kringum það. Og ég gagnrýndi Davíð linnulaust, fyrst og fremst frá hægri því þar var hann veikari fyrir. Hann átti auðvelt með að verjast andmælum frá vinstri. Í dag vilja sumir halda því fram að ég hafi verið sturlaður nýfrjálshyggjumaður en rökin fyrir því eru flest sótt í þessa gagnrýni á Davíð, þar sem ég var að snúa nýfrjálshyggjunni upp á Davíð. Hann sveik allt sem hann þóttist standa fyrir, þóttist vilja samkeppni en vildi drepa allt sem ekki beygði sig undir vilja hans og flokksins. Ég leyfði mér sem blaðamaður að nota sjónarhorn til að kasta ljósi á stöðu mála og með því að meta verk Davíðs frá sjónarhorni nýfrjálshyggjunnar var augljósast að það var ekki nokkurn skapaðan hlut að marka manninn. En eins og flestir blaðamenn aðhylltist ég engan flokk og í raun engar kenningar. Ef ég mætti á kjörstað á þessum tíma, skilaði ég auðu. Ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn og myndi örugglega panta tíma hjá sálfræðingi ef mér dytti það í hug. Sjálfstæðisflokkurinn er pólitískur armur kolkrabbans, sem var eitrað afl í því samfélagi sem ég ólst upp í.“

Svikin loforð

Gunnar Smári segir að afleiðingin af upprisu Fréttablaðsins hafi orðið sú að þar hafi orðið til eign sem hægt var að leika sér með. Fyrst tók Fréttablaðið yfir Vísi og DV og síðan keyptu Jón Ásgeir og Pálmi Haraldsson í Fons Norðurljós með Stöð 2, Bylgjunni og fleiri miðlum innanborðs. Þá keyptu eigendurnir Vodafone og þá voru fjölmiðlarnir orðnir hluti af skráðu félagi í kauphöll. „Með sameiningunni var svínað á okkur í minnihlutanum í Fréttablaðinu, t.d. mér og Árna Haukssyni. Fréttablaðið var skuldlaust í góðum rekstri en Norðurljós í raun sokkin í skuldir og miðlar þess í mikilli stöðnun. Við reyndum árangurslaust að búa okkur til stöðu með því að setja hlutina okkar saman, en urðum auðvitað undir. Höfðum ekkert afl í stóru karlana. En á þessum tíma trúði ég að fjölmiðlarnir væru vel settir innan skráðs félags, ritstjórnarlegt frelsi þeirra var varið í samþykktum. Þegar hrunið kom reyndist þetta blekking. Þá tóku auðmennirnir miðlana einfaldlega af markaði og ráðguðust með þá að vild.“

Gunnar Smári hætti sem ritstjóri Fréttablaðsins í árslok 2005 og var gerður að yfirmanni 365, fjölmiðlahluta félagsins, sem seinna var skírt Dagsbrún. Ári síðar var hann gerður að forstjóra Dagsbrúnar. Fyrir lá stjórnarsamþykkt að stækka fyrirtækið með samruna og kaupum á fyrirtækjum. Sena var keypt og einnig Kögun. Dagsbrún var orðið að fyrirtæki sem var með media, telecom og IT. Þá lá líka fyrir samþykkt um að kaupa prentsmiðju í Englandi og að starta Fréttablaði í Danmörku, blaði sem seinna var nefnt Nyhedsavisen.

„Eftir hrun var ég flokkaður meðal helstu gerenda í bólunni sem leiddi til hrunsins, var settur á lista í fjölmiðlum með stórkapítalistum eins og ég hafi verið einhver auðmaður. Það segir hins vegar allt um stöðu mína að mín er hvergi getið í rannsóknarskýrslum Alþingis, blandaðist á engan hátt í nokkurt af hrunmálum saksóknara, var ekki einu sinni vitni, var ekki í Panamaskjölunum og tengdist engum slíkum málum.“

„Allt var þetta gert á fáeinum mánuðum í ársbyrjun 2006. Svo kom Íslandskreppan um páskana og hlutbréf féllu í kauphöllinni. Fyrir lá hlutafjárloforð frá eigendum um að bakka upp þessi kaup á fyrirtækjum en þegar hlutabréfaverðið féll varð ljóst að þeir gátu ekki sótt meira lánsfé í bankann á móti hækkun bréfanna sem þeir áttu. Þessi leið, sem ákveðin hafði verið, að stækka Dagsbrún hratt féll þar með. Eigendurnir gátu ekki eða ætluðu ekki að standa við hlutafjárloforðin og þar með var fyrirtækið allt of skuldsett. Og þeir hlutuðu félagið niður til að fela slóðina. Og kenndu mér um hvernig fór, eins og ég hafi verið einskonar dávaldur sem hafi gabbað her manna til að vaða út í mýri. Ég var þá í þeirri stöðu að ég hafði fengið allskonar fólk til að koma til liðs við okkur í Danmörku til að undirbúa Nyhedsavisen en treysti ekki lengur þeim sem voru að bakka útgáfuna upp. Ég kom því á milliliðalausum tengslum milli dönsku fjárfestanna og yfirmannanna við Baug, svo þeim yrði lofað stuðningi án minnar milligöngu. Nyhedsavisen kom út um haustið og ég vann hjá félagi sem hélt utan um verkefnið í rúmt ár en þátttaka mín fjaraði út. Blaðið kom út fram á haust 2008, en þá var tæpt ár síðan ég hætti. Ég fór til Afríku þar sem ég og Alda Lóa, konan mín, ættleiddum dóttur. Það var það markverðasta sem gerðist hjá mér 2007. Ég seldi hlutina mína í Dagsbrún fyrir árslok 2006, lifði á þeim peningum en tók aldrei út launin mín í Danmörku. Við hrunið tvöfölduðust þau síðan vegna falls krónunnar. Það er saga mín sem kapítalista.

Eftir hrun var ég flokkaður meðal helstu gerenda í bólunni sem leiddi til hrunsins, var settur á lista í fjölmiðlum með stórkapítalistum eins og ég hafi verið einhver auðmaður. Það segir hins vegar allt um stöðu mína að mín er hvergi getið í rannsóknarskýrslum Alþingis, blandaðist á engan hátt í nokkurt af hrunmálum saksóknara, var ekki einu sinni vitni, var ekki í Panamaskjölunum og tengdist engum slíkum málum. Samt bý ég enn þá við það í dag að fólk talar til mín eins og ég sé einn af helstu gerendum hrunsins.“

Gunnar Smári Egilsson
Mynd / Hallur Karlsson

Gjaldþrot Fréttatímans

Gunnar Smári snéri aftur á fjölmiðla eftir nokkurt hlé þegar hann hóf að skrifa um mat í vikublaðið Fréttatímann, sem stofnað hafði verið til með framlagi frá bandaríska auðmanninum Robert Jenkins. „Ég missti í raun málfrelsið eftir hrun en reyndi að endurheimta það með því að skrifa um mat, en var kannski fyrst og fremst að skrifa um áhrif kapítalismans á neyslu okkar og menningu,“ segir Gunnar Smári. Hann var kosinn í stjórn SÁÁ og varð svo formaður samtakanna í tvö ár. Síðar keypti hann hlut í Fréttatímanum og var ritstjóri blaðsins í rúmt ár, breytti blaðinu og bætti við útgáfudögum en blaðið fór í þrot. Gunnar Smári var gagnrýndur fyrir að hafa hafa stokkið frá borði og skilið starfsfólkið eftir bjargarlaust.

„Við Alda Lóa bjuggum í París í ár en hún vildi fara aftur heim. Um það leyti var lagt að mér að koma að Fréttatímanum. Ég fékk Árna Hauksson og Sigurð Gísla Pálmason til að koma að þessu sem fjárfestar. Ég átti 29 prósent í félaginu, ef ég man rétt. Við ákváðum að fjölga útgáfudögum í tvo og seinna í þrjá. Hugsunin var sú að ná að auka tekjurnar meira en kostnaðinn og ná þannig einhverjum rekstrargrunni undir blaðið. En eins og með Fréttablaðið í upphafi þá er fjárfest í tapi á leiðinni, það tekur tíma fyrir tekjurnar að brúa kostnaðinn. Þetta gekk ágætlega til að byrja með en þegar styttist í kosningar 2016 féllu allar tekjuáætlanir og auglýsingarnar drógust saman. Mér var sagt að auglýsendur hefðu sagt að þeir ætluðu ekki að auglýsa í þessum kommúnistasnepli. Það sem átti að verða nokkuð jafn vöxtur á vaxandi markaði varð að nauðvörn. Ég reyndi flest til að bjarga rekstrinum og sóttist meðal annars eftir framlögum frá almenningi og það leit ágætlega út. Eigendurnir féllust á að fella niður skuldir, allir nema Jenkins sem átti enn 90 milljóna króna kröfu á félagið, stofnframlagið. Þar með var ekki hægt að safna fé meðal almennings, því það átti að fara í rekstur en ekki til að borga niður skuldir. Menn Jenkins tilkynntu að þeir ætluðu að taka yfir félagið og kröfðust þess að ég myndi hætta. Ég fór því heim en gat ekki sagt neinum ástæðuna, því menn Jenkins ætluðu að tilkynna breytingarnar eftir nokkra daga. Það dróst og á endanum hættu þeir við. Þá ákvað framkvæmdastjórinn með öðrum stjórnarmönnum að koma út blaðinu sem var í vinnslu og bað mig að raska því ekki. Þegar blaðið var á leið í prentsmiðju og ég ætlaði niður á blað til að segja starfsfólkinu frá stöðunni sagði hann mér að hann hefði sent starfsfólkið heim. Um morguninn las ég síðan fréttir um stórkostleg svik mín, að ég hefði svikið starfsfólkið um laun og flúið af hólmi. Gefið var í skyn að ég hefði stungið af með launin. Hið rétta er að ég lagði það litla sem ég átti í reksturinn síðustu vikurnar og borgaði því starfsfólkinu í raun úr eigin vasa og gekk frá þessari útgáfu án þess að hafa tekið eina krónu úr fyrirtækinu. Ekki einu sinni launin mín, því ég borgaði þau í reynd sjálfur. En ég sé ekki eftir því. Fréttatíminn var mjög gott blað, róttækasta og besta fríblað sem gefið hefur verið út. Í gegnum það drógum við mikla samfélagsgagnrýni og í tengslum við það kynntist ég mörgu fólki sem ég hef unnið með síðan í ýmiss konar baráttu.“

„Sólveig hafði komið að stofnun Sósíalistaflokksins og ég lagði að henni að leiða framboð til stjórnar. Hún neitaði í fyrstu en ég lagði hart að henni. Ég reyndi allt og þóttist meira að segja hafa dreymt pabba hennar, Jón Múla Árnason.“

Hallarbylting í Eflingu

Eftir þetta lauk afskiptum Gunnars Smára af fjölmiðlum. En þá tók við nýr kafli. Hann stofnaði Sósíalistaflokk Íslands stuttu síðar og sneri sér meðal annars að endurnýjun verkalýðsforystunnar. Gunnar Smári beitti sér fyrir hallarbyltingu í Eflingu þegar Sólveig Anna Jónsdóttir tók þar við stjórnartaumunum sem formaður. Seinna reyndi hann að hjálpa Heiðveigu Maríu Einarsdóttur til að ná kjöri til formanns Sjómannafélags Reykjavíkur. Hann segist vera stoltur af þeim afskiptum.

„Það var auglýst eftir framboði til stjórnar Dagsbrúnar. Það var vika til stefnu. Ég spurði fólk hvort það hefði ekki áhuga á því að bjóða sig fram. Á örfáum dögum formaðist framboð. Sólveig hafði komið að stofnun Sósíalistaflokksins og ég lagði að henni að leiða framboð til stjórnar. Hún neitaði í fyrstu en ég lagði hart að henni. Ég reyndi allt og þóttist meira að segja hafa dreymt pabba hennar, Jón Múla Árnason. Mér fannst óendanlega mikilvægt að hún byði sig fram, bæði sem láglaunakona á leikskóla og sem sá snillingur sem hún er. Hún samþykkti á endanum og náði glæsilegu kjöri. Ég var einskonar kosningastjóri B-listans og saman bjuggum við til frábæra kosningabaráttu. Síðar sat ég undir þeim áróðri Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og fleiri að þetta væri plott hjá mér til að komast yfir þrjá milljarða í sjóðum Eflingar. Áróður þessara karla tekur á sig ævintýralegar myndir. Seinna þegar Heiðveig María sagði mér hvernig hún vildi efla kjarabaráttu sjómanna vildi ég strax allt gera til að hjálpa henni. Hún hefði orðið frábær talskona sjómanna en einhverri spilltustu forystu nokkurs verkalýðsfélags veraldar tókst að verjast því að sjómenn fengju að kjósa sér forystu í Sjómannafélagi Íslands. Það má segja að forystan hafi rænt völdum með því að reka Heiðveigu úr félaginu og komast þannig hjá kosningu.“

Hin Reykjavík

Það gustar enn um Gunnar Smára. Eins og áður sagði stofnaði hann Sósíalistaflokkinn strax eftir fall Fréttatímans. Forsaga þess er að hann hafði áður stofnað hóp á Facebook sem hann kallaði Ísland – tuttugasta fylki Noregs og var í orði kveðnu vettvangur Fylkisflokksins, sem sagðist ætla að berjast fyrir innlimun Íslands í Noreg. Gunnar Smári segir að það hafi verið gjörningur til að undirstrika fáránleikann í fullveldisumræðunni á þessum árum, en í reynd hafi þetta orðið vettvangur til að draga fram ólík kjör almennings á Íslandi, í Noregi og á Norðurlöndunum. Á nýársdag 2017 ákvað hann hins vegar að breyta nafninu á þessum hópi í Sósíalistaflokk Íslands og þegar viðtökurnar urðu glimrandi gerði hann alvöru úr þessu. „Við höfum síðan verið að byggja upp hreyfingu, fremur en flokk. Það vantar ekki fleiri flokka sem kópíera gömlu flokkana á hnignunarstigi þeirra, eru aðeins forysta án jarðsambands. Það sést t.d. á sviplegum örlögum Besta flokksins og Bjartrar framtíðar. Við höfum því lagt áherslu á endurreisn verkalýðshreyfingarinnar og annara almannasamtaka sem berjast fyrir hagsmunum almennings. Það er ekki gert til að tryggja áhrif Sósíalistaflokksins í þessum samtökum heldur vegna þess að því hærra sem barátta almennings rís, því virkari verður pólitísk þátttaka almennings og það er forsenda þess að Sósíalistaflokkurinn geti vaxið.“

Fæstir trúðu því að Sósíalistaflokkurinn ætti sér lífsmöguleika, en annað kom á daginn. Flokkurinn náði í fyrstu kosningabaráttu sinni manni inn í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Við ákváðum að bjóða fram fulltrúa þess þriðjungs fólks sem hefur það verst í Reykjavík. Við köllum það Hin Reykjavík. Það er verið að byggja lúxusíbúðir og hótel í Reykjavík – en það er ekkert byggt í Hinni Reykjavík. Það er góðærisbóla í Reykjavík – en það er ekkert góðæri í Hinni Reykjavík, þar ríkir stöðnun og kaupmátturinn rýrnar. Þetta var svona grunntóninn, upprisa hinna kúguðu gegn auðvaldinu og elítustjórnmálunum sem töluðu mest um að Reykjavík væri skemmtileg. Flokkurinn mældist með nánast ekkert fylgi sex vikum fyrir kosningar en við fengum meira fylgi en Framsókn, VG, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn.

Gunnar Smári segir að andstæðingar hans og flokksins hafi reynt að skaða flokkinn með því að þrástagast á að hann væri hættulegur maður.

„Í kosningasjónvarpinu spurði Einar Þorsteinsson, sem ætíð gengur fram eins og sérstakur fulltrúi Valhallar í Ríkissjónvarpinu, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalista, hvernig hún gæti boði sig fram fyrir flokk sem Gunnar Smári Egilsson tengdist, eins og ég væri barnaníðingur eða margdæmdur þjófur. Einar hefur verið lykilmaður í kosningaumfjöllun RÚV í mörgum kosningum, en hann spurði aldrei í kosningasjónvarpi út í Panamaskjölin, sem þó voru ástæða kosninga, aldrei um uppreist æru-málið, þótt það væri líka ástæða kosninga, aldrei um fjármálafortíð Bjarna Benediktssonar, sem þó var tilefni lögbanns í aðdraganda kosninga og fór í raun aldrei út í stórkostlega spillingu spillingaflokkanna. En honum fannst við hæfi að draga gjaldþrot róttæks fríblaðs inn í umræðuna eins og einhvert stórkostlegt svikamál. Kannast einhver við það? Þetta var lítið gjaldþrot á allan mælikvarða miðað við umfang rekstrarins og af því urðu engin eftirmál, eigendurnir sjálfir töpuðu 60% af því fé sem tapaðist.“

Stefnir ekki á þing

Gunnar Smári segist ekki vera í vafa um að Sósíalistaflokkurinn nái inn á þing. Hann segir að flokkurinn sé í raun kominn yfir þann þröskuld og sé enn að vaxa. Hann sjái það einfaldlega á fjölgun félaga í flokknum. Hann segir ástæðuna vera að flokkurinn eigi raunverulegt erindi, það sé kominn tími til að vinstri snúi aftur eftir niðurlægingu nýfrjálshyggjunnar.

Gunnar Smári segist ekki eiga sér draum um að verða þingmaður eða ráðherra.

„Ég hef sjálfur engin áform um að fara á þing. Ég sé mig ekki fyrir mér í ræðustól Alþingis að tala um fundarstjórn forseta. Ég er bestur í að byggja upp baráttuna og halda utan um hana, ekkert ósvipað og ég byggði upp blöð á sínum tíma, blöð sem voru í raun í sífelldri endursköpun, Pressan, Eintak, Fókus, Fréttablaðið, Fréttatíminn. Mikilvægasta verkefnið er að byggja upp virka stjórnmálaþáttöku almennings og fylkja ólíkum hópum saman til baráttu gegn þeim sem hafa rænt almenning völdum sínum og lífsafkomu. Það er verkefnið, framboð til þings er aðeins hluti af þessari baráttu, alls ekki lokamarkmið. Lokamarkmið er að alþýðan taki völdin sem tilheyra henni, taki þau af auðvaldinu, og sendisveinum þess, og móti samfélag að eigin hagsmunum og væntingum.“

Sú spurning vaknar hvað það sé sem Gunnar Smári vilji með stofnun stjórnmálaflokks og uppstokkun í verkalýðshreyfingunni. Hann vísar til æsku sinnar.

„Það eru sjálfsagt mörg svör við þessu. Við erum öll flókin og marglaga. En af því þú spurðir í upphafi um æskuna get ég sagt að ég er enn með litla drenginn hennar mömmu inn í mér, þennan sem var alltaf votur vegna þess að hann átti ekki góða skó. Og líka soninn hans pabba, þann sem hlustaði á hláturinn þegar fólk gekk fram hjá honum, skyldi eftir hjá honum skömm í stað þess að hjálpa honum. Samfélagið okkar er ekki alltaf gott og það er óþarflega oft vont við þau sem síst eiga það skilið. Við eigum betra skilið. Sósíalismi er í raun lítið annað en einmitt sú sannfæring, að við eigum betra skilið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -