Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Mjög sorglegt og erfitt að horfa á bræður mína veslast upp og fara frá sjálfum sér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikararnir Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, eða Laddi, hafa verið þjóðareign í áratugi, sem er hreint ótrúlegt að segja af því að það eru tvö eldhress unglömb sem sitja á móti blaðamanni á Mokka á Skólavörðustíg einn eftirmiðdag í lok júní.

 

Þið hljótið að hafa upplifað áföll í lífinu eins og allir aðrir?

„Við ættum bara ekkert líf ef við hefðum ekki upplifað áföll,“ segir Edda. „Sem betur fer af því að áföllin gera mann að þeirri manneskju sem maður er. Þroski manns felst í því hvernig maður tekst á við áföll. Það er mjög áhugavert að fylgjast með sjálfum sér í því ferli.“

„Sem betur fer hefur maður ekki lent í stórkostlegum áföllum, heldur bara svona þeim sem allir lenda í, að missa foreldra sína og systkini sem er alltaf sorglegt, en sem betur hefur maður ekki misst börnin sín,“ segir Laddi. „Maður vill nú helst fara á undan, ég held að það væri mesta áfallið sem maður gæti lent í að sjá á eftir barninu sínu.“

Foreldrar Ladda létust bæði rétt fyrir áttræðisaldurinn og hann hefur misst tvo bræður sína. „Þeir voru ungir, annar bara rétt um sextugt þegar hann fékk alzheimer sem er mjög sérstakt, svona ungur maður, og svo hinn bróðir minn er frekar nýfarinn, 75 ára, og það var svipað með hann. Hann fékk Parkinsons-veiki og út frá henni heilabilun. Þetta var mjög sorglegt og erfitt að horfa á bræður mína veslast upp og fara frá sjálfum sér og verða einhverjir allt aðrir, vera svona innilokaðir í sjálfum sér. Missa málið, annar bróðir minn missti alveg málið. Þetta er hræðilegt og mjög sorglegt. Það var svo vont að fara svona, báðir alveg frábærir drengir.“

Edda segist ekki geta annað en verið á hnjánum full þakklætis. „Ég á pabba sem er fjörgamall, hann er að verða 97 ára og hann er svo stórkostleg manneskja með heilann í lagi og ofboðslega skemmtilegur og kærleiksríkur. Svo á ég fjögur börn og ég á barnabörn og þetta er allt fólk sem er á lífi, er hraust og heilbrigt og ég er óendanlega þakklát fyrir það.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: Edda og Laddi um pressuna að vera alltaf skemmtileg: „Djöfull var hann fúll, maður“

Viðtalið hér er hluti af stærra viðtali við Eddu og Ladda, sem verður birt í fullri lengd á fimmtudagskvöld.

Sjá einnig: Edda og Laddi: „Við megum ekki endurskrifa fortíðina”

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -