Það er alltaf erfitt að vakna daginn eftir að Ísland dettur úr Eurovision. Alveg sama hve oft það gerist, það bara er ekki hægt að venjast því. Vonbrigðin eru svo yfirgengilega mikil og fyrsta sem maður gerir er að líta á alla helstu vefmiðla og fullvissa sig um að kynnirinn hafi óvart sagt Írland þegar hann ætlaði í raun að öskra ÍSLAND!
Nú er eyðimerkurganga Íslands í Eurovision orðin aðeins of löng, og ættum við því að vera orðin vön því að keppa ekki í úrslitunum. En auðvitað bindum við alltaf vonir við að okkar lög komist áfram, sérstaklega þegar þau eru flutt jafn óaðfinnanlega og Ari Ólafsson flutti Our Choice í gær.
Þannig að þegar að vonbrigðin, svokölluð Eurovision-þynnka, skellur á erum við á Mannlífi með tíu ráð til að vinna á timburmönnunum bug:
1. Aragríma í seinni riðlinum
Byrjaðu strax að hlusta á öll lögin í seinni undanúrslitariðlinum, veldu þér uppáhalds sem á jafnframt góðan séns á að komast áfram samkvæmt veðbönkum, til dæmis Noregur eða Svíþjóð, og haltu með því eins og enginn sé morgundagurinn. Ef það hjálpar geturðu alltaf klippt út andlitið á Ara og fært það með skjánum þegar uppáhaldið þitt er að syngja svo flytjandinn virðist vera íslenskur.
2. Svona semurðu lag
Sestu niður í góðu tómi og hlustaðu á sigurlög síðustu tuttugu ára eða svo. Punktaðu niður hvað þau eiga sameiginlegt og reyndu síðan að semja besta Eurovision-lag allra tíma!
3. Það geta ekki allir verið gordjöss
Hringdu í Pál Óskar og biddu hann um að syngja fyrir þig. Sendu honum svo besta Eurovision-lag allra tíma sem þú varst að semja.
4. Gefðu þér tíma til að syrgja
Farðu í vinnuna og láttu eins og ekkert hafi í skorist. Þegar einhver byrjar að tala um Eurovision, afsakaðu þig og farðu inn á klósett til að gráta.
5. Ömurleg hugmynd
Farðu niður í Hörpu og finndu allar ástæður fyrir því að það væri ömurleg hugmynd ef Ísland myndi vinna Eurovision. En ekki láta gabbast og ráða þig í vinnu sem þjónustufulltrúi!
6. Ekki ýta á takkann!
Ekki kveikja á útvarpi, sjónvarpi eða lesa vefmiðla í dag. Það ýfir bara upp sárar minningar. Sárar, sárar minningar.
7. Skamm, Magnús Geir
Skrifaðu mjög harðort bréf til Magnúsar Geirs, sjónvarpsstjóra, þar sem þú heimtar tafarlaust að fá að sitja í valnefnd fyrir þessi blessuðu lög sem keppa í Söngvakeppninni, og bendir honum jafnframt á að Ísland hafi aðeins komist einu sinni upp úr undanriðlinum eftir að hann tók við störfum.
8. Þú hefur valið…
Prófaðu að taka textann úr Our Choice og syngja hann við ísraelska lagið TOY með henni Nettu. Það er sjúklega fyndið og á bókað eftir að koma þér í betra skap – sérstaklega þegar þú ímyndar þér Ara að gagga eins og hæna uppi á sviði.
9. Fánamóment
Vefðu íslenska fánanum um líkama þinn og hugsaðu um allt það góða í lífinu.
10. Is It True?
Svo verður þú að horfast í augu við það að Ísland keppir ekki á laugardaginn. Og það gæti farið svo að Ísland komist ekki heldur í úrslit á næsta ári, og þarnæsta og þarþarnæsta. Skrifaðu bréf sem þú átt aldrei eftir að senda þar sem þú listar upp allar tilfinningar sem bærast innra með þér er þú hugsar raunsætt um hlutina. Leyfðu þér að skrifa hvað sem er, og taktu þér allan tímann í heiminum sem þú þarft til að losa um tilfinningarnar. Þú mátt gráta, þú mátt hlæja, þú mátt syrgja. Náðu síðan í kveikjara, settu Is It True? á fóninn og kveiktu í bréfinu. Brenndu sorgina í burtu og byrjaðu að plana Eurovision-matinn fyrir fimmtudaginn og laugardaginn.