Arion banki fækkar starfsfólki um eitt hundrað.
Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag. Sviðum bankans fækkar um tvö og ýmis verkefni færast til innan bankans með það að markmiði að einfalda starfsemina. Þetta kemur fram á vef Arion banka.
Mannlíf greindi fyrst frá skipulagsbreytingunum á sunnudaginn. Útfærsla skipulagsbreytinganna var þá á lokametrunum.
Í tilkynningu Arion segir að markmið breytinganna sé að styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár.
„Starfsfólki bankans mun við þessar breytingar fækka um 12% eða um eitt hundrað. Þar af starfa um 80% í höfuðstöðvunum bankans og um 20% í útibúum. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá þessu,“ segir í tilkynningu á vef Arion.
„Þetta verður erfiður dagur en við kveðjum í dag hæft og gott samstarfsfólk sem ég efast ekki um að muni láta að sér kveða á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka.
Sjá einnig: Allt að 80 manns sagt upp hjá Arion banka