Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gær bifreið þar sem farþeginn var ekki í öryggisbelti heldur stóð viðkomandi í bílsætinu með höfuðið út um topplúguna. Farþeginn var ellefu ára gömul systir ökumannsins og var atvikið tilkynnt til Barnaverndar eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglunnar.
Svo virðist sem lögreglan hafi haft í nógu að snúast í umferðinni í gær. Tilkynnt var um þrjú umferðarslys: Eitt þeirra milli bifreiðar og rafskútu, annað þar sem maður datt af bifhjóli og það þriðja þar sem kona datt af reiðhjóli. Þá voru nokkrir stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum eða án ökuréttinda.